Hérna er fallegt, hér vil ég búa… draumur og veruleiki mætast

Stefnuyfirlýsingar stjórnmálaflokka geta verið ágætis skemmtilesning. Það er sérlega gaman að spá í hvað sé líkt með þeirri draumsýn almennra flokksmanna sem þar birtist og svo þeim veruleika sem atvinnustjórnmálamennirnir bjóða upp á. Nú er landsfundi Sjálfstæðisflokksins, þeim 35. í röðinni nýlega lokið. Sem fyrr liggur eftir fundinn mikill doðrantur af svokölluðum stjórnmálaályktunum en þær eru allsérstakur pappír þar sem argasta framsóknaríhald og neolíberalistar í bland við einstaka villuráfandi menn og færri konur reyna að berja saman einhvers konar sameiginlega sýn á það um hvernig reka skuli samfélagið á Íslandi hver séu áherslumál yfirvalda og svo framvegis.

Gamall grautur
Eins og nærri má geta verður grauturinn sem soðinn er saman úr svo ólíkum skoðunum ansi sundurleitur, svo að ekki sé kveðið fastar að orði. Reyndar er þetta yfirleitt sami grauturinn og oft sama skálin en stundum, bara stundum, reyna þeir að flikka aðeins upp á sig með nýjum frösum og slagorðum.

Í tilefni af því að íhaldið hefur nú setið við stýrið í 12 ár og vegna nýlokins landsfundar þeirra langar mig að grípa á nokkrum stöðum niður í stefnuplagg þessa 35. fundar. Við byrjum á ályktun um vísindamál (takið eftir að brúnaþungir og ábúðarfullir sjálfstæðismenn álykta ekki um vísindi; þeir álykta um vísindamál!):

“Landsfundur fagnar hinni nýju skipan rannsóknamála sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur staðið fyrir að frumkvæði ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Felst hún í stofnun Vísinda- og tækniráðs, sem starfar undir stjórn forsætisráðherra. Þannig eru málefni rannsókna og þróunar færð á hæsta stjórnsýslustig í samræmi við aukið vægi málaflokksins og væntingar um mikilvægi hans í framtíðarsýn þjóðarinnar.”

Hér kristallast sú stefna núverandi ríkisstjórnar sem ég kalla valdið heim. Áralangri þróun valddreifingar og virkjunar sem flestra til þátttöku í ákvörðunum hefur á síðasta kjörtímabili verið umsnúið með því að leggja niður ýmsar nefndir og ráð sem áður voru skipuð af frjálsum félagasamtökum og færa þau beint undir ráðherravald. Af aðgerðum í vísindamálum vilja sjálfstæðismenn til dæmis að:

Opinberir samkeppnissjóðir til rannsókna- og þróunarstarfs á Íslandi verði stórefldir.

Einstaklingar og rannsóknahópar í háskólum keppi um fjárveitingar til rannsókna úr sterkum samkeppnissjóðum.

Þeir hafa nú haft tækifærin til að stórefla þessa sjóði síðan 1991, þegar flokkurinn settist í menntamálaráðuneytið. Um samkeppni um styrki er það að segja að þar sem aðföng eru af jafnt skornum skammti og í styrkjum til vísindarannsókna í dag, þá er samkeppnin svo hörð að fjöldi mjög áhugaverðra og spennandi rannsókna kemst aldrei til framkvæmda. Þessi ríkisstjórn vill nefnilega frekar bora göng og byggja vegi.

Það er leikur að læra leikur sá er mér kær
Næst verður á vegi mínum ályktun um skóla- og fræðslumál. Það lýsir stefnu flokksins, sem gert hefur menntamálaráðuneytið að sínum heimavelli, að þessi ályktun er sett upp í einhvers konar slagorðastíl. Grípum niður í kaflann um framhaldsskóla (hann er fjórar og hálf lína):

“Afnám hverfaskiptingar framhaldsskóla hefur leitt til meiri samkeppni um nemendur.”

Í fyrsta lagi skiptir afnám hverfaskiptingar ekki máli fyrir þær fjölskyldur sem vegna búsetu eða efnahags hafa ekki efni á að koma börnum sínum til mennta. Í öðru lagi breytir það engu í hvaða skóla börnin eru send ef það á að ljúka þeim öllum með samræmdu stúdentsprófi og binda þannig alla annars stigs menntun á Íslandi á klafa ríkisafskipta og miðstýringar, þar sem menntamálaráðuneytið ákveður fyrir skólana úr hverju skuli prófað eftir fjögurra ára sjálfstætt nám.

Undir fyrirsögninni Háskóli – fjárfesting – fjölbreytni er farið fjálglegum orðum um árangur einkarekinna háskóla. Ekki ætla ég að gera lítið úr þeim árangri en í gær, 10. apríl, sá ég að Fréttablaðið fjallaði um fjársvelti íslenskra fræða og sagnfræði í Háskóla Íslands. Í þessum greinum fækkar fastráðnum kennurum og gæðum kennslu hrakar. Þess má geta að einkareknu háskólarnir hafa hingað til ekki séð ástæðu til að bjóða upp á nám í þessum greinum. Rétt er að benda á að Fréttablaðið er víst málgagn Samfylkingarinnar og því ómarktækt þegar umfjöllunarefnið er svona pólitískt. Við ættum því frekar að lesa Moggann eða DV.

Bylur hæst í tómri tunnu
Af þessum þremur dæmum sem ég nefni hér að ofan má sjá að stefnuyfirlýsing sjálfstæðismanna geta verið hin besta skemmtilesning þó að holhljóðið glymji í eyrum lesandans löngu eftir að hann hefur lagt ritið frá sér. Lesandinn þarf þó að gæta þess að taka textann ekki of hátíðlega.

Ég get ekki ímyndað mér annað en að eftir tólf ár á valdastóli hafi það verið einhverjir meistarar sjálfsádeilunnar sem suðu saman yfirlýsingar landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Það er tekið á ýmsum málum og bent á leiðir til lausnar en það eru nota bene lausnir sem ekki hafa orðið fyrir valinu á undanförnum 12 árum. Það leiðir af sjálfu sér að fengi þetta fólk til þess áframhaldandi umboð eru engar líkur á að þessi stefna komist til framkvæmda á næstu fjórum. Stefnuyfirlýsing 35. landsfundar Sjálfstæðisflokksins lýtur þannig út eins og einhvers konar stílæfing í satíru.

Mér datt í hug þessi hending frá NýDönsk þegar ég sat við lestur:

Hérna er fallegt, hér vil ég búa, draumur og veruleiki mætast.

Stefnuyfirlýsing Sjálfstæðisflokksins er einhvers konar grínaktug kómedía en um leið og lestri er lokið og veruleikinn tekur við, kemur í ljós að hún er ekki annað en draumur og er líklega ekki ætlað annað hlutverk en að lýsa draumum (sé einhver nógu vitlaus til að taka þetta plagg upp og raunverulega lesa það!).
Það er löngu tímabært að moka þessum skýjaglópum sem á fjögurra ára fresti kynna fyrir þjóðinni einhverja draumsýn um miðstýrða lágskattaparadís út úr stjórnarráðinu og koma þar að fólki sem hefur ekki aðeins stefnu, heldur veit hvernig það ætlar að hrinda henni í framkvæmd.

Tíunda maí kjósum við því Samfylkinguna!

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand