Enginn syrgir Saddam

Ég samfagna írösku þjóðinni. Hinn hræðilegi harðstjóri Saddam Hussein hefur verið felldur af stalli sínum og íraska þjóðin elur von í brjósti um bjartari framtíð. Ég samfagna írösku þjóðinni. Hinn hræðilegi harðstjóri Saddam Hussein hefur verið felldur af stalli sínum og íraska þjóðin elur von í brjósti um bjartari framtíð.
Alls staðar í heiminum fagna menn stjórnarskiptum. Og í Írak hefur þjóðin svo sannarlega ástæðu til þess að gera það. Arabísk útgáfa af stalínisma hefur verið sem ok á írösku þjóðinni í meira en þrjá áratugi. Milljónir hafa verið myrtar.

Ég samhryggist líka öllum þeim sem eiga um sárt að binda eftir átökin í Írak. Þúsundir hafa fallið, enn fleiri særst. Sár komið á margra sálir. Sár sem aldrei munu gróa.

Ég hvet alla heimsbyggðina til að taka þátt í uppbyggingu Íraks. Við Íslendingar megum alls ekki láta okkar eftir liggja. Framlag ríkisins er gott svo langt sem það nær en einstaklingar og fyrirtæki mega ekki vera stikkfrí. Í þessu eigum við að vera staðföst og viljug.

Val milli Saddams og Bush?
Öll sú umræða sem átt hefur sér stað undanfarna mánuði um réttmæti stríðs í Írak hefur ekki snúist um hvort koma ætti Saddam Hussein frá völdum. Þeir eru vandfundnir stuðningsmenn hans.

Umræðan hefur snúist um það hvaða aðferð ætti að beita. Átti að leita allra friðsamlegra leiða fyrst? Og ef nauðsynlegt þótti að ráðast í stríðsátök, átti þá að gera það í umboði Hinna sameinuðu þjóða? Eða áttu nokkur ríki að fara framhjá alþjóðlegum stofnunum, áður en fullljóst var hvort friðsamlegar leiðir skiluðu árangri, og hleypa þannig af stað atburðum sem alveg ófyrirséð var hvaða afleiðingar myndu hafa? Og er svo sem enn ófyrirséð.

Víða er stjórnað með harðri hendi
Víða hafa ríkt harðstjórar í heiminum. Harðstjórar sem drepið hafa milljónir manna og traðkað á öllum lýðréttindum. Sumir þessara harðstjóra ríkja enn. Því miður.

Enn víðar hafa þó harðstjórar fallið og lýðræðislegri stjórnir tekið við. Í Portúgal, á Spáni og í kommúnistalöndunum í Austur-Evrópu féllu slíkar stjórnir án teljandi blóðsúthellinga eða vopnaskaks. Víða hefur með alþjóðlegum þrýstingi tekist að fá valdsmenn, sem ekki hafa lýðræðislegt umboð, til að breyta stjórnarháttum sínum til hins betra.
Þeir sem vildu leita allra leiða til að leysa Íraksdeiluna friðsamlega stóðu því ekki á sögulegu flæðiskeri. Þeir töldu að enn væri von til að koma í veg fyrir mikið mannfall og eyðileggingu sem eru óhjákvæmilegar afleiðingar stríðsátaka. Enn væri von til að tryggja friðinn.

Grafið undan Sameinuðu þjóðunum
Bandaríkjamenn og Bretar og þjóðir sem þeim fylgdu að málum töldu að ekki væri hægt að bíða lengur. Ógnun við heimsfriðinn vegna gereyðingarvopna Íraksstjórnar og kúgun Saddams Husseins á þegnum sínum væri slík að strax þyrfti að hefja sverðin á loft.

Og í krafti ofurvalds síns á alþjóðavettvangi sniðgengu þessar þjóðir þann vettvang sem hefði getað gert aðgerðir þeirra lögmætar að alþjóðalögum: Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Með því grófu þessar þjóðir undan því kerfi alþjóðastofnana sem við höfum komið okkur upp í því skyni að tryggja heimsfriðinn.

Þótt nú taki vonandi við betri tíð með blóm í haga í Írak – að íraska þjóðin geti frjáls hafist handa við uppbyggingu eftir óöld og hörmungar undanfarinna ára – þá hafa margir týnt lífi. Sameinuðu þjóðirnar hafa beðið hnekki.

Hver verður til vitnis?
Spurningin er: Verður afstaða þeirra ríkja sem studdu frumhlaup Bandaríkjanna í þessu máli til þess að hvetja Bandaríkin til að ráðast inn í Sýrland, Íran, Norður-Kóreu – jafnvel Líbýu og fleiri lönd, til að steypa harðstjórum þar? Munu hundruð þúsunda falla í þessum átökum? Eða milljónir? Munu kannski fleiri ófriðarbál verða kveikt en slökkt? Kannski. Kannski ekki. Ég veit það ekki. Sagan ein verður til vitnis.

En enginn syrgir Saddam.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand