Helgarpistill Andrésar

Ég tók upp þann sið á sínum tíma…

…þegar ég var fyrst kjörinn formaður UJ að rita reglulegan pistil í fréttabréf ungra jafnaðarmanna, SamViskuna. Vegna þess hversu útgáfa SamViskunar hefur verið stopul en vegna þess að ég finn mér jafnan ífríð nóg af umfjöllunarefnum þá hef ég afráðið að senda pistilinn héðan í frá út sér. Stefni ég að því að rita þessar hugleiðingar vikulega í vetur. Ég vonast jafnframt til þess að fá heyra í ykkur líka, ungliðum, bæði í eigin persónu sem og á lokuðum spjallvef ungra jafnaðarmanna www.politik.is/umraedur .

Þó það séu liðnar nærri tvær vikur…

…síðan Halldór Ásgrímsson var í Silfri Egils þá langar mig að eyða nokkrum orðum í það hörmungarviðtal. Af mörgu er að taka í því sem kom þarna fram og fátt af því upplífgandi. Aðspurður um samræmd stúdentspróf sagði hæstvirtur forsætisráðherrann meðal annars e-ð á þessa leið: Ja, ég hef bara ekki kynnt mér málið. Það spurði mig maður um þetta í vikunni og ég lofaði þá að ég myndi kynna mér málið en ég hef bara ekki haft tækifæri til þess ennþá . Bíddu hvað?!? Eigum við að trúa því að oddviti ríkisstjórnarinnar, maður sem hefur verið atvinnustjórnmálamaður alla sína ævi, geti ekki svarað einfaldri spurningu um eitt umdeildasta menntamál síðari ára. Ungir jafnaðarmenn mótmæltu þessum prófum með sérstakri hringferð um landið fyrir þremur árum. Að forsætisráðherra sé að kynna að sér það fyrst núna er með ólíkindum. Þetta eru náttúrulega bara undanbrögð og þvæla og getur ekki verið satt.

Síðan er náttúrulega bara með ólíkindum hversu blóðlaus einn stjórnmálamaður getur verið. Að Halldór skuli ekki einu sinni geta tekið afdráttarlausa afstöðu gegn pyntingum eins og þeim sem Bandaríkjamenn eru grunaðir um að hafa stundað í um borð í leynilegum flugvélum og í földum fangelsum. Egill gaf Halldóri kjörið tækifæri til að segja sem er að pyntingar séu svívirða og siðferðislega rangar. En nei, formaður Framsóknarflokksins kaus þess í stað að muldra eitthvað um að Evrópuráðið sé hinn rétti vettvangur til að fjalla um þessi mál og bla bla bla. Það er leiðinlegt að þurfa að segja svona, en mikið ótrúlega er það niðurdrepandi að þessi lydda skuli vera forsætisráðherra þjóðarinnar. Við ættum að geta gert svo miklu betur.

Og meira tengt sjónvarpsmanninum…

…Agli Helgasyni. Egill tók það að sér, í pistli á heimsíðu sinni, að stimpla þátttakendur í óeirðum/mótmælum sem gengu yfir ákveðin hverfi Parísarborgar um daginn sem skríl og gott ef ekki ótínda glæpamenn líka. Ég held að hann hafi í sama pistli reyndar velt því fyrir sér hvort hann væri mögulega bara orðinn svona forpokaður og íhaldssamur með árunum að hann ætti erfitt með að sjá hlið óeirðaseggjanna. Ég held að það sé full ástæða fyrir Egill að kynna sér málið betur. Mér finnst afgreiðsla hans ansi ódýr og ekki líkleg til árangurs við að leysa úr slíkum málum. Mér finnst sömuleiðis sá einhliða hræðsluáróður sem beitt var í umfjöllun evrópskra fjölmiðla um óeirðirnar vera sorglegur vitnisburður um stjórnmálaumræðuna eins og hún er í mörgum löndum ESB um þessar mundir. Því var haldið blákalt fram að óeirðirnar væru einhvers konar uppreisn múslímsk minnihlutahóps og að jafnvel mætti búast við að múhameðstrúarmenn myndu rísa upp í borgum út um alla Evrópu. Loks var ýjað að því að óeirðirnar sýndu vaxandi styrk Al-qaida í álfunni.

Sú mýta virðist því miður viðvarandi í hinum vestræna heimi (ekki síst á Íslandi) að islömsk trúarbrögð séu að einhverju leyti öfgakenndari en önnur og hvetji beinlínis til beitingar ofbeldis. Eftir að hafa búið um langa hríð í fjölmennasta múslímaríki í veröldinni get ég vottað að svo er ekki. Islam predikar mikið umburðalyndi þó að í Kóraninum sé vissulega eitthvað um arfleifð gamallar kúgunar og íhaldssamra menningarsiða. En hvað um það? Hið sama gildir um kristni og höfuðrit hennar, Bíblíuna.

Mínar heimildir segja að það sé af og frá að um hafi verið að ræða einhverjar sér-múslímskar óeirðir . Þetta hafi einungis verið fátækt ungt fólk að mótmæla (margir þeirra vissulega múslimar eða allavega arabar). Þetta hafi verið ungt fólk að mótmæla stöðu sinni, mótmæla atvinnuleysi og á endanum að mótmæla ummælum og aðgerðum lögreglunnar. En ákveðin orð sem lögreglustjórinn í borginni lét falla og ætlaði að lægja öldurnar höfðu þveröfug áhrif og gerðu einungis illt verra. Upphafleg ástæða þess að mótmælin brutust út með jafn ofsafengnum hætti og raun bar vitni er að mati sumra að leita nokkur ár aftur í tímann. Hinn óvinsæli fyrrum forsætisráðherra frakka, Jean-Pierre Raffarin, skar þá með einu pennustriki niður 80% af fjárframlögum til þeirra félagasamtaka sem mest hafa reynt að aðstoða þennan hóp innflytjenda. Camille Jachmich er frönsk vinkona mín. Camille starfar fyrir grasótarsamtök sem bjóða innflytjendum upp á ýmis konar þjálfun og praktíska menntun og þannig leið út úr þeirri sjálfheldu sem þetta fólk er ósjaldan fast í. Hún býr auk þess í hverfinu þar sem óeirðirnar voru hvað mestar og upplifði því sjálf þetta ástandið. Camille segir að umfjöllun alþjóðlegra fjölmiðla hafi gefið kolranga mynd af ástandinu. Forsprakkar mótmælanna hafi verið 12 og 13 ára gamlir drengir. Þessir krakkar ættu foreldra sem kynnu litla eða enga frönsku og kæmust því upp með að þykjast vera að sinna heimalærdómi þegar þeir væru í raun að velta við bílum og kveikja í. Camille sagði að foreldrum væri gert erfitt að fylgjast með skólagöngu og þroska barna sinna þar sem réttur þeirra til að fá sérhæfða frönskukennslu fyrir innflytjendur hefði verið afnuminn. Foreldrarnir séu einangraðir, börnin leiki því lausum hala og lítið sé gert til að hafa ofan fyrir þeim. Ef þessi greining er sönn þá var niðurskurður Raffarin ansi dýru verði keyptur fyrir Frakka.

132. löggjafaþinginu var frestað í gær…

…og ekkert bólaði enn á frumvarpi með breytingum á hinum umdeildu, og að mínu mati nær siðlausu, eftirlaunalögum. Forsætisráðherra sagðist á sínum tíma vera að skoða málið – ætli hann sé búinn að gleyma því? Aðspurð um afhverju ekki bóli neitt á frumvarpi Samfylkingarinnar sem lofað var og á að innihalda niðurskurð á eftirlaunaréttindum æðstu ráðamanna, segir Margrét Frímannsdóttir við mig að beðið sé eftir því að forsætisráðherra ljúki sinni skoðun. Frumvarp Samfylkingarinnar muni hins vegar verða lagt fram á vorþingi ef ekkert komi frá Stjórnarráðinu. Markmið flokksins sé að ná samstöðu um breytingarnar. Það hljómar vissulega ekki óskynsamlega – en ég get með góðri samvisku fullyrt að það sé allgóð samstaða um það í þjóðfélaginu að láta einfaldlega þær breytingar sem gerðar voru á sínum tíma ganga til baka. Um samstöðuna meðal þingmanna er erfiðara að fullyrða. Á meðan fjölgar þeim óðum sem njóta munu þessara sérstaka gegnumstreymis-lífeyris og óútfyllti tékkinn á ríkissjóð barnanna okkar gildnar óðum. Lagabreyting mun víst enda ekki taka til þessa hóps.

Öryrkjar og ellilífeyrisþegar dönsuðu…

… sér síðan margir hverjir til hita í vetrarfrostinu á Austurvelli í gær. Þar fór fram sameiginlegur útifundur regnhlífasamtaka þessara tveggja hópa sem að sönnu hafa fengið að éta það sem úti frýs í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þeim var þó ekki í hug að gjalda í sömu mynt og afhentu öryrkjar alþingismönnum m.a.s. jólagjafir við þetta sama tækifæri. Jólagjöfin var innbundin skýrsla Stefáns Ólafssonar, félagsfræðiprófessors, sú hin sama og Jón Kristjánsson o.fl. forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa með vesælum hætti reynt að kasta rýrð á undanfarna daga. Væri ekki heiðarlegra fyrir þessa menn að horfast í augu við þá staðreynd, hvort sem sýnt er fram á það með skýrslugerð eða hæstaréttardómum, að þessi ríkisstjórn hefur raðað öryrkjum markvisst aftast í forgangsröðunina.

Ungir jafnaðarmenn sendu ráðamönnum formlega fyrirspurn…

…í fyrradag um þær gjafir sem þeir þiggja stundum vegna starfa sinna. Sent var bréf til allra ráðherra ríkisstjórnarinnar, forseta Alþingis og borgarstjórans í Reykjavík og óskað eftir lista yfir þær gjafir sem þessir aðilar hafa veitt viðtöku á árinu 2005 og upplýsingum um verðmæti þeirra. Jafnframt var óskað eftir upplýsingum um hvaða reglur gildi um nýtingu slíkra gjafa eða ef reglur vanti hvaða hefðir hafi ríkt um þetta. Það er hægt að kynna sér betur þessa fyrirspurn okkar Ungra jafnaðarmanna inni á www.politik.is , en mig rennur raunar í grun að ráðamennirnir muni reyna að koma sér undan því að svara okkur. Þá liggur beint við að áfrýja til úrskurðarnefndar um upplýsingalög. Það verður fróðlegt að vita hvað hún hefur að segja um þetta. Að sjálfsögðu á þetta að allt að vera uppi á borðinu!

Saga Business Class…

…er þægilegur ferðamáti og margir sem renna hýru auga til þessara sæta fremst í flugvélum. Ferðaskrifstofu Íslands sem sér bókanir fyrir flestar ríkisstofnanir er ætlað að velja ávallt hagkvæmasta ferðamátann en það er ráðuneytanna og ríkisstofnanna sjálfra að meta hvenær sé þörf á Saga Business Class miðum og er ferðskrifstofunni þá skylt að bóka slíkan miða jafnvel þó almennt fargjald sé í boði. Ætli það séu ákveðnar kreðsur meðal embættismanna sem hafi ákveðið að þeir séu orðnir of fínir til að sitja á almennnu farrými þegar eru í opinberum erindagjörðum? Það væri allavega áhugavert að vita hversu margar ferðir ráðherrar, aðstoðarmenn ráðherra, ráðuneytisstjórar, deildarstjórar og upplýsingafulltrúar ráðuneyta hafi ferðast á almennu fargjaldi á undanförnu ári.

Það sem mér finnst hins vegar orka mjög tvímælis er hvernig vildarpunktum sem greiddur er vegna kaupa hins opinberra á flugmiðum er varið. Punktarnir renna óskiptir til þess sem ferðast og honum er frjálst að nýta þá fyrir sig og sína. Raunar ætti að gefa þetta upp sem hlunnindi en ekki er gott að segja hvort það sé almennt gert.

Eftir að hafa gert smá könnun sýnist mér að kerfið hjá Icelandair geti jafnframt ýtt undir það að þeir sem ferðist á kostnað ríkisins velji fremur að láta kaupa handa sér miða á Saga Business Class heldur en almennt fargjald. Ef tekið er dæmi um alþingismann sem er á leið á opnun íslenskrar listasýningar í Þýskalandi þá myndi hann fá 3600 vildarpunkta fyrir flugið til Frankfurt og heim aftur. Sama ferðalag á Saga Business Class fargjaldi gæfi hins vegar af sér heila 9000 vildarpunkta. Alþingismaðurinn þyrfti aðeins að fara í u.þ.b. fjórar slíkar ferðir á kostnað hins opinbera til að eiga persónulega rétt á fimmtu ferðinni frítt. En ferðist hann á almennu fargjaldi tekur það hins vegar 11 ferðir að fá fríu ferðina. Þetta er ekki mjög sparnaðarhvetjandi kerfi – enda er það Icelandair sem setur skilmálana sem ríkið gengur að.

Risnukostnaður er hlutfallslega mjög hár á Íslandi og hefur verið að vaxa hratt á undanförnum árum. Verst að manni detta fáir í hug innan kerfisins sem sjá muni sér hag í því að stokka þetta e-ð upp eða gera breytingar sem leiði til sparnaðar. Það er vert að hafa í huga að krónu sem er kastað vegna utanferða ríkisstarfsmanna nýtist ekki í velferðarkerfinu á meðan.

Lenín var flottur þar sem hann…

…lá uppstrílaður með vel snyrt skegg, jakkaföt og bindi í glerskáp í grafhýsi sínu á Rauða torginu í Moskvu þegar ég heimsótti hann. Það var sérstök upplifun fyrir stoltan afturhaldskommatitt. Tækifærin sem maður fær til að ferðast bæði innanlands og ekki síst til annarra landa eru einn stærsti bónusinn við það að eyða miklum tíma í sjálfboðaliðastarfi í hinum ýmsu félagasamtökum. Það var vegna formennsku minnar í LÆF – regnhlífasamtökum íslenskra æskulýðssamtaka að mér bauðst í síðustu viku að sækja ráðstefnu á vegum evrópska æskulýðsráðsins í því spennandi landi sem er Rússland. Ég ætla að deila þessari einstöku upplifun með ykkur og segja ferðasöguna í nokkrum hlutum í næstu helgarpistlum. Síðan er spurning um að ég haldi áfram og fjalli um aðra áfangastaði – en ég á sem betur fer ýmsar fleiri fróðlegar ferðasögur í pokahorninu.

1.hluti – Ferðin til Moskvu undirbúin

Það var ekki laust við að það hafi verið nostalgísk upplifun fyrir mig að ganga inn í hús Rússnesku viðskiptanefndarinnar á Túngötu. Síðast þegar ég kom þarna þá var ég að rukka fyrir Alþýðublaðið, Tímann og Þjóðviljann. 12 ára gamall gutti undir sterkum áhrifum frá John Le Carré og öðrum höfundum spennusagna úr kalda stríðinu. Ég minnist þess að hafa fundist afar spennandi að koma í þetta hús. Að bíða á þykku pluss-sófasetti eftir að ábúðafullur sendiráðsfulltrúi í gráum sóvéskum jakkafötum fyllti út ávísun fyrir áskriftargjaldinu, kollurinn á mér fullur af ímyndunum um alla þá umfangsmiklu njósnastarfsemi sem ætti sér stað bakvið luktar dyrnar að næsta herbergi.

Þrátt fyrir að húsið hafi verið mikið endurnýjað síðan þetta var þá er stíllinn á innréttingunum enn í mjög rússneskum stíl. Eða því sem ég ímynda mér að sé rússneskur stíll því þegar hérna er komið við sögu þá hef ég aldrei komið til Rússlands. Fötin sem sendiráðsfólkið klæðist er jafnframt í þessum sama stíl sem var vinsæll á Vesturlöndum á sjötta og sjöunda áratugnum, daufir jarðlitir og einstaka blússur með blómamunstri. Rússar virðast kunna vel að meta þetta tímabil í tískusögunni en yngra fólkið er þó hrifnari af háum hælum, gervileðri með mikið af hnöppum og rennilásum eins og var algengt var í tískunni á níunda áratugnum hér á landi.

Ég er búinn að tala mikið um það við vini mína, dagana á undan, að ég hafi talsverða fordóma þegar það kemur að Rússum. Að ég trúi því að staðfastlega að þar sé allt vaðandi í glæpum, mafíuspillingu og þjakað af skrifræði.
Ég reyni því að hafa opinn huga í þann mund sem ég geng inn í afgreiðslu vegabréfaskrifstofunnar. Þar mæta mér gulir veggir, gamaldags myndir í ódýrum römmum og einhver skrýtinn lykt sem ég átta mig ekki á. Fyrir innan þykkt gler og loftþétta stállúgu situr eldri kona með álíka þykk gleraugu á nefinu. Ég er einn þarna og velti því eitt augnablik fyrir mér hvort það geti verið að lyktin sem ég finn sé andfýla úr afgreiðslukonunni? Trúi því samt varla að lyktin komist í gegnum rammgerðan og loftþéttan afgreiðslugluggann. Ég ber upp erindið um að ég sé boðinn á ráðstefnu í Moskvuborg og sé kominn til að sækja um vegabréfsáritun til að sækja Rússland heim í eina 5 daga. Frúin yglir sig, horfir á mig tómhentan og spyr hvort ég viti ekki að maður þurfi sérstakt boðsbréf til að fá að heimsækja Rússland. Jú, víst veit ég það og ég útskýri að mér hafi verið gefið upp ákveðið númer af rússneska utanríkisráðuneytinu sem mér skilst að eigi að koma í staðinn fyrir boðsbréf. Konan ákveður að hún verði að kanna þetta mál betur og segir mér að bíða.

Stuttu síðar kemur hún út um dyr til hliðar við afgreiðsluna og þá er loks staðfest sem mig grunaði, að lyktin sem ég hafði fundið á uppruna sinn í lélegri tannhirðu afgreiðslukonunnar skapillu. Frúin fer því næst aftur bakvið gluggaveginn með sjö stafa númerið frá rússneska utanríkisráðuneytinu sem mér hafði skilist á skipuleggjendum ráðstefnunnar að ætti að opna fyrir mig allar dyr. Þegar rússneska babúskan snýr loks aftur með umsóknareyðublaðið fyrir vegabréfsáritunina finnst mér eins og hún sé örlítið svekkt að hafa eftir allt saman fundið einhvern pappír sem kveði á um að ég eigi í raun og veru að taka þátt í samstarfi við rússneskan æskulýð – en líklega er það ímyndun.

Eyðublaðið er að mestu á rússnesku og það þarf að ég koma með aftur á morgun útfyllt, tvær passamyndir þurfa að fylgja og 5500 kall. Mér finnst þetta við fyrstu sýn vera óþarflega þungt ferli. Afhverju ættu Rússar ekki bara að gera það eins og auðvelt og mögulegt er að ferðast til Rússlands? Ferðamenn koma jú með gjaldeyri inn í landið og eftir því sem mér skilst þá eiga þeir ekki of mikið af honum um þessar mundir. Ég átti eftir að fá svarið við þessum og fleiri spurningum og ég átti eftir að komast á raun um að tvær ferðir í rússneska sendiráðið að sækja vegabréfsáritun var einungis barnaleikur miðað við þau ævintýri sem biðu mín í Moskvu. Meira um það þegar ferðasagan heldur áfram í næsta helgarpistli.

Að lokum…

…eru hér hér gamanvísur sem Helgi Seljan, fyrrverandi alþingismaður, samdi og Aðalheiður Sigurjónsdóttir flutti með snilldarlegum hætti á útifundinum sem minnst var á hér að ofan. Það er góður broddur í þessu hjá austfirska hagyrðingnum og hann veitti mér góðfúslega leyfi til að birta þær hér. Með því set ég punktinn aftan við helgarpistilinn að þessu sinni.

ÁKALL LÚINNAR KVINNU Á ELLILAUNUM EINUM

Halldór minn,
heyrðu mig góurinn.
Halldór minn,
halta mig og gamla finn.
Þó að símapeningarnir færu alveg framhjá mér,
finnst mér að ég eigi smávegis hjá þér.

Kæri Geir,
manstu hreint ekki hót.
Kæri Geir,
er þú gafst mér undir fót.
Því á landsfundinum miklum bótum lofaðir víst þú,
láttu eitthvað af því rætast hér og nú.

Kæri Jón,
auðmjúk er nú mín bón.
Kæri Jón,
svo ég hljóti ei heilsutjón,
því að yfirráðherrarnir plata og pína alls staðar,
já, og passaðu upp á reglugerðirnar.

Árni Matt,
þér ég segi nú satt.
Árni Matt,
ég greiði af lúsarlaunum skatt.
Mikið óskaplega er nú tæpt ég nái að elska þig,
ekki er hátekjuskattslækkun fyrir mig.

Ráðherrar,
gefið refjalaust svar.
Ráðherrar,
réttið kjörin alls staðar.
Hættið nú að bruðla í óþarfa og bannsett utanhlaup,
góðu borgið okkur mannsæmandi kaup.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið