Stjórnmálaályktun af landsþingi UJ 2005 – Heilbrigðismál

Einn af megin útgangspunktum UJ er að allir skulu hafa jafnan aðgang að heilbrigðiskerfinu óháð efnahag og öðrum félagslegum aðstæðum. Einstaklingar eiga ekki að geta keypt sér betri heilbrigðisþjónustu eða betri aðgang að heilbrigðisþjónustu því þá er jafn aðgangur ekki lengur tryggður. Aftur á móti þarf að skoða hvort það er fýsilegur kostur að nýta samkeppni og aðrar markaðsaðferðir til þess að ná fram hagræðingu í heilbrigðiskerfinu. Til mikils er að vinna þar sem rúmlega fjórðungur fjárlaga ríkisins rennur í heilbrigðismál eða rúmlega 79 milljarðar samkvæmt fjárlögum ársins 2005.

Nota á kostnaðargreiningu í heilbrigðisþjónustu til að auka hagræðingu við rekstur hennar. Í henni felst að reynt er að meta raunverulegan kostnað við greiningu eða meðferð sjúklings. Þjónustuaðilinn fengi fjármagn í samræmi við kostnaðargreininguna og þá fyrir hverja sjúkdómsgreiningu eða meðferð sjúklings. Það verður því hagur þjónustuaðilans að nýta fjármagnið sem best og hagræða.

Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu er önnur leið til aukinnar hagræðingar, það er þegar hið opinbera kaupir þjónustu fyrir hönd sjúklinga t.d. af einkaaðilum eða heilbrigðisstarfsfólki. Einkaaðilar og aðrir eiga að geta rekið heilbrigðisþjónustu ef tryggt er að gæði hennar minnki ekki, kostnaðarhluti sjúklinga eykst ekki, hagræðing náist í þjónustunni og að sjúklingar geti ekki keypt sér betri þjónustu eða betri aðgang að henni. Ef þessi skilyrði eru ekki fyrir hendi skal þjónustan vera á vegum hins opinbera. Þegar um einkarekstur er að ræða þarf að efla eftirlit hins opinbera með þjónustunni þannig að hið opinbera sé að borga rétt verð við gæðaþjónustu sem sannarlega hefur verið veitt. Einnig, með auknum einkarekstri þarf að skoða hvort leyfa eigi heilbrigðisstarfsfólki og öðrum sem bjóða upp á heilbrigðisþjónustu að auglýsa þjónustu sína. Slíkar auglýsingar gætu leitt til upplýstari vals sjúklinga og aukið samkeppni á milli þessara aðila. Einnig þarf að taka kostnað vegna umsýslu- og samningsgerðar og aukins eftirlits hins opinbera með í reikninginn þegar hið opinbera íhugar að kaupa heilbrigðisþjónustu í einkarekstri.

Ungir jafnaðarmenn vilja flytja rekstur heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga. Grundvöllur þessarar færslu er að sveitarfélög eða samtök sveitarfélaga séu nógu stór til að standa undir henni og að ríkið tryggi að nægilegt fjármagn fylgi flutningi verkefnisins. Markmiðið með flutningnum væri efling heilsugæslunnar og samþætting hennar við félagsþjónustu á hverjum stað. Öflug heilsugæsla leiðir til hagræðingar þar sem þörf á dýrri sérfræðiþjónustu minnkar. Sveitarfélög gætu boðið út rekstur heilsugæslunnar ef hagræðing næðist fram með því.

Samhliða flutningi heilsugæslunnar til sveitarfélaga þarf að skoða að flytja þjónustu við eldri borgara, s.s. vistun, til sveitarfélaga. Með því væri hægt að ná fram meiri samþættingu við heilsugæsluna og félagsþjónustuna. Jafnframt þarf að skoða betur að auka valmöguleika eldri borgara á vistunarúrræðum, svo sem heimahjúkrun, frekar en vistun á stofnun. Það gæti bæði leitt til hagræðingar, þar sem heimahjúkrun er ódýrari en vistun á stofnun, og til betri líðan eldri borgara. Slík kæmi einnig í veg fyrir endalausa árekstra milli ríkis og bæja í þessum málaflokki.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand