Heimastjórnin 100 ára og fjórflokkurinn dauður…

Þegar Íslendingar fengu heimastjórn var einum merkasta áfanganum í sjálfstæðisbaráttunni náð. Með heimastjórn stigu Íslendingar stórt skref í átt til fullveldisins 1918 og loks sjálfstæðis 1944. Þegar 100 ár eru liðin frá heimastjórn og 60 ár frá sjálfstæði er ágætt að líta yfir farinn veg og meta þróunina sem hefur orðið í stjórnmálum frá lokum sjálfstæðisstjórnmála.
Þegar Íslendingar fengu heimastjórn var einum merkasta áfanganum í sjálfstæðisbaráttunni náð. Með heimastjórn stigu Íslendingar stórt skref í átt til fullveldisins 1918 og loks sjálfstæðis 1944. Þegar 100 ár eru liðin frá heimastjórn og 60 ár frá sjálfstæði er ágætt að líta yfir farinn veg og meta þróunina sem hefur orðið í stjórnmálum frá lokum sjálfstæðisstjórnmála.

Stéttastjórnmál
Eftir að Valtýingar biðu lægri hlut fyrir Heimastjórnarmönnum og Íslendingar fengu Hannes Hafstein sem fyrsta íslenska ráðherrann urðu þáttaskil í íslenskum stjórnmálum. Fram að því höfðu stjórnmálin nær einvörðungu snúist um sjálfstæðismálið og voru stjórnmálamenn mjög færir í því að rökræða um sjálfstæði, en höfðu litla sem enga reynslu á öðrum sviðum stjórnmálanna. Þá má segja að visst óvissutímabil hafi tekið við, en með stofnun Alþýðuflokks árið 1916 og síðar Framsóknarflokks sama ár tóku línur að skýrast og sigldu Íslendingar inn í tímabil stéttastjórnmála. Þar höfðu megin stéttir landsmanna, bændur og verkamenn, fengið varanlega fulltrúa í stjórnmálaflóruna. Enn héldu flokkarnir á hægri vængnum þó áfram að sundrast og sameinast og það var ekki fyrr en með stofnun Sjálfstæðisflokksins 1929 að ró komst á hægra megin við miðju. Þegar kommúnistar klufu sig úr Alþýðuflokknum og urðu síðar að Sósíalistum og loks að Alþýðubandalagsmönnum í endanlegri mynd á 7. áratugnum staðnaði íslenska flokkakerfið og fjórflokkurinn varð til í endanlegri mynd.

Fjórflokkurinn
Það má segja að með tilkomu fjórflokksins hafi nýsköpunin í íslenskum stjórnmálum horfið algjörlega og ákveðin lognmolla ráðið ríkjum næstu 60-70 ár á eftir. Sjálfstæðisflokkurinn varð stærstur flokka og hamraði á slagorðinu ,,stétt með stétt” sem þótti henta flokknum betur en upphaflega slagorðið ,,Ísland fyrir Íslendinga” sem þeir keyrðu á fyrst um sinn. Framsóknarflokkurinn hélt áfram að vera hinn stóri flokkur bænda og hagnaðist sérstaklega á hinu íslenska kosningakerfi. Alþýðuflokkurinn var flokkur verkalýðsins og nýtti sér oftar en ekki oddastöðu sína í stjórnarmyndunarviðræðum til áhrifa. Alþýðubandalagið var sósíalískur flokkur og vildi ,,Ísland úr NATO og herinn burt!”. Einstaka framboð höfðu þó mikil áhrif eins og tildæmis framboð Kvennalistans á níunda og tíunda áratugnum og framboð Borgaraflokks Alberts Guðmundssonar vinar litla mannsins.

Fjórflokkurinn bráðkvaddur og hvað tekur við?
Tilkoma R-listans í borginni átti eftir að verða vinstrimönnum hvatning til að stofna Samfylkinguna og sameina þar með alla jafnaðarmenn undir einn hatt. Á tíunda áratugnum urðu því miklar breytingar á sviði stjórnmála á Íslandi. Vinstrihreyfingin Grænt Framboð var stofnuð og síðar Frjálslyndi flokkurinn. Þar með gaf fjórflokkurinn, sem hafði mótað stjórnmálaskoðanir Íslendinga í allt of langan tíma, upp öndina. Í dag er staðan þannig að ekki höfum við einungis fengið þrjá nýja flokka og þörf fyrir að kveðja tvo, heldur er í fyrsta sinn komið upp sterkt afl jafnaðarmanna sem stendur jafnvígis Sjálfstæðismönnum. Þó virðist suma lengja eftir gamla fjórflokknum og reyna að vekja hann til lífs á ný og stunda jafnvel fyrirgreiðsluna af fullum krafti í veikri von um að hlutirnir verði jafn öruggir, þægilegir og einfaldir og þeir voru í den. Við verðum að varast að slíkar raddir nái að skjóta rótum í samfélaginu og eins að falla ekki í sömu gryfju stöðnunar á stjórnmálasviðinu líkt og við gerðum 1930. Ég hvet því alla stjórnmálamenn á Íslandi í dag til þess að óttast ekki það sem koma skal heldur taka ótrauðir þátt í nýsköpuninni. Það eru spennandi tímar framundan í stjórnmálum á Íslandi. Látum ekki drauga fortíðarinnar hindra okkur, heldur horfum til framtíðar og grípum þau tækifæri sem okkur bjóðast.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand