Hef engan áhuga á að vinna í áburðarverksmiðju Framsóknar – ræða formanns

Landsþing Ungra jafnaðarmanna var sett í kvöld undir yfirskriftinni Réttlæti án landamæra. 50 ungmenni eru skráð á þingið. Hér má lesa setningarræðu formanns Ungra jafnaðarmanna, Evu Indriðadóttur.

Kæru félagar,

Það gleður mig að bjóða ykkur velkomin hingað í Hafnarfjörðinn á 15. langsþing Ungra jafnaðarmanna og fagna um leið þeim merka áfanga sem 15 ára afmæli okkar er. Þá vil ég sérstaklega bjóða velkomin þau ykkar sem eruð hingað mætt á ykkar fyrsta landsþing. Það er stórt skref fyrir mörg okkar að taka og því vil ég þakka ykkur kærlega fyrir að ætla að verja þessari helgi með okkur.

Við sem erum hér saman komin eigum ýmislegt sameiginlegt. Við eigum það sameiginlegt að vilja, með jafnaðarstefnuna að vopni, berjast betra samfélagi. Samfélagi þar sem ungt fólk hefur tækifæri á að mennta sig og eiga bjarta framtíðarsýn. Samfélagi þar sem allir eiga jafnan rétt. Samfélagi þar sem konur eru metnar að verðleikum. Samfélagi sem er virkur þáttakandi í alþjóðasamfélaginu og tekur vel á móti flóttafólki.

Ég vil samfélag sem gerir fólki kleyft að mennta sig á sínum eigin forsendum. Það er grimmileg stefna að loka framhaldsskólum þeim sem eru eldri en 25 ára. Við fáum misjafnt gefið í þessu lífi og margir hafa ekki fjárhagslegan stuðnig til þess að stunda nám því það er svo sannarlega ekki ókeypis hér. Veikindi gera oft ekki boð á undan sér og eiga ekki að koma í veg fyrir að fólk geti menntað sig síðar meir. Menntakerfið á að taka á móti fólki opnum örmum þegar það er tilbúið að mennta sig. Stjórnvöld þurfa einnig að skapa jarðveg fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi þar sem ungt menntað fólk getur fengið vinnu við hæfi en þurfi ekki að flýja út fyrir landsteinana í atvinnuleit. Ég veit ekki með ykkur en ég hef engan áhuga á að vinna í áburðarverksmiðju Framsóknar.

Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með kvennréttindabaráttu síðustu missera – sem á sér stað í miklum meirihluta á internetinu. Byltingar á borð við #freethenipple, #sexdagsleikinn, #konurtala og #þöggun hafa hreyft við mér og sýnt að þrátt fyrir að ísland sé meðal fremstu ríkja í jafnrættismálum er enn af nógu að taka. Launamunur kynjanna er enn til staðar.

Talið er að önnur hvern kona verði fyrir kynferðisofbeldi einhverntímann á lífsleiðinni og enn reynir samfélagið að stjórna því hvernig konur klæða sig og haga sér. Stjórnvöld verða að sýna gott fordæmi en nýlega var sjónum okkar beint að því að dómnefnd sem velur hæstaréttadómara er aðeins skipuð körlum og af 10 hæstaréttadómurum er aðeins ein kona. Þetta er ekki í lagi.

En við þurfum líka að hugsa um systur okkar í öðrum heimshlutum. Af þeim 774 milljónum fullorðinna einstaklinga sem ekki geta lesið eru konur 2/3 þar af. Þá eru barnungar stúlkur neyddar í hjónabönd. Það er okkar sem virkir þátttakendur í alþjóðasamfélagi að breyta þessu.

Atburðir síðustu viku sitja fast í mér. Bandaríkjaher gerði árás á Lækna án landamæra í borginni Kunduz í Afganistan þar sem 22 létu lífið og enn fleiri særðust. Að Bandaríkjaher skuli skýla sér á bak við að um slys hafi verið að ræða og þeir hafi alls ekki ætlað að sprengja upp spítala fullan af fólki sem átti sér einskis ills von, hræðir mig. Viljum við búa í heimi þar sem það er einhverntímann réttlætanlegt að varpa sprengjum á fólk?

Sömuleiðis valda loftárásir Rússa á sýrlensk þorp mér miklu hugarangri. Við búum í heimi þar sem linnulaus stríðsátök ríkja. Mannfall er nú þegar allt of mikið og fara tölur látinna stöðugt hækkandi. Í stíðsátökum nútímans eru almennir borgarar alltaf í meirihluta þeirra sem falla.

Við tilheyrum alþjóðlegri hreyfingu, hreyfingu jafnaðarmanna, sem teygir arma sína út um allan heim með áherslu á frið og samfélagslegt réttlæti að leiðarljósi.

Það er ætti að vera öllum ljóst að á Íslandi hefur mikil vitundarvakning verið að eiga sér stað síðustu misseri. Þegar þúsundir Íslendinga söfnuðust saman á Facebook og buðu fram allt sem þeir höfðu að bjóða til þess að aðstoða við móttöku flóttamanna, varð ég orðlaus. Öll þessi umhyggja og kærleikur sýndi að kannski væri enn von. Von um betri framtíð þar sem fólk af ólíkum uppruna stendur hönd í hönd gegn því óréttlæti sem ríkir í heiminum. Við erum öll systkyn og þurfum að standa saman sem slík.

Sá mikli  fjöldi sem er hér saman kominn sýnir mér að fólki er ekki sama.

Ég hlakka til að eyða helginni með ykkur og segi ég þetta landsþing sett!

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand