„Það hefur verið sú hefð að veita félagshyggjuverðlaun Ungra jafnaðarmanna, þau eru veitt þeim sem að mati Ungra jafnaðarmanna hafa stuðlað að betra samfélagi. Það hefur þó ekki verið gert síðustu ár en við höfum ákveðið að endurvekja verðlaunin og veita Guðbjarti Hannessyni, þingmanni Samfylkingarinnar í norðvesturkjördæmi verðlaunin í ár. Hann var félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra árið 2010 og velferðarráðherra 2011–2013 og forseti Alþingis 2009.
Guðbjartur Hannesson er einn sá gegnheilasti jafnaðarmaður sem fyrirfinnst og hefur með verkum sínum, bæði sem almennur þingmaður og sem ráðherra verið vakinn og sofinn í baráttunni fyrir félagslegu réttlæti. Guðbjartur Hannesson var gestur Ungra jafnaðarmanna á síðasta landsþingi sem þá var haldið í kjördæmi hans. Þeim sem sátu það landsþing er eftirminnilegt hvernig Guðbjartur sigraði hug og hjörtu þeirra með því að tala af hjartans lyst um kjarnagildi okkar jafnaðarmanna.
Því miður getur Guðbjartur ekki verið með okkur hér í dag vegna baráttu sinnar við krabbamein en félagi Helgi Hjörvar, þingflokksformaður, tekur hér við blómum í hans stað.
Við þökkum Guðbjarti fyrir hans góðu störf í gegnum tíðina og sendum góðar kveðjur til hans upp á Akranes.“