Tíska er eitt og pólitík annað en stundum blandast þessir tveir hlutir, til dæmis þegar fólk gefur út yfirlýsingu um ákveðið pólitískt viðhorf með klæðnaði sínum og fylgihlutum. Algengt dæmi eru barmmerki – ég á til dæmis eitt sem á stendur Davíð í herinn og herinn burt og kann ég herstöðvaandstæðingum bestu þakkir fyrir það. Önnur vinsæl leið er að ganga í áletruðum bolum. Svo ég nefni nokkra þá eru til bolir með mynd af Ghandi, Jesú og Steingrími J. Sigfússyni. Sá síðastnefndi er nokkurs konar stæling á öðrum stuttermabolum sem ég mun gera að umtalsefni hér og eru með mynd af argentínsku byltingarhetjunni Ernesto Che Guevara. (Ég byrjaði að skrifa þessa grein fyrir nokkru – það var sennilega í eina skiptið sem SUSarar hafa nokkurntímann stolið orðunum áður en þau eru komin út úr munninum á mér!) Tíska er eitt og pólitík annað en stundum blandast þessir tveir hlutir, til dæmis þegar fólk gefur út yfirlýsingu um ákveðið pólitískt viðhorf með klæðnaði sínum og fylgihlutum. Algengt dæmi eru barmmerki – ég á til dæmis eitt sem á stendur Davíð í herinn og herinn burt og kann ég herstöðvaandstæðingum bestu þakkir fyrir það. Önnur vinsæl leið er að ganga í áletruðum bolum. Svo ég nefni nokkra þá eru til bolir með mynd af Ghandi, Jesú og Steingrími J. Sigfússyni. Sá síðastnefndi er nokkurs konar stæling á öðrum stuttermabolum sem ég mun gera að umtalsefni hér og eru með mynd af argentínsku byltingarhetjunni Ernesto Che Guevara. (Ég byrjaði að skrifa þessa grein fyrir nokkru – það var sennilega í eina skiptið sem SUSarar hafa nokkurntímann stolið orðunum áður en þau eru komin út úr munninum á mér!)
Það er mér til efs að helmingurinn af þeim sem ganga í bolum með mynd af Che Guevara hafi mikla hugmynd um hvað hann stendur fyrir í raun og veru. Það hefur nú alltaf þótt frekar hallærislegt að ganga um í bol með mynd af hljómsveit sem maður hefur aldrei hlustað á – og svo er þetta kannski ekkert góð hljómsveit. Che Guevara var allavega ekkert sérlega góð hljómsveit.
Nei, ég held að fæstir krakkanna sem spranga um í bolum með mynd af þessu skeggjaða uppreisnarhönki hafi sérlega miklar áhyggjur af því hvað Guevara tók sér fyrir hendur í lifanda lífi. Honum er miklu frekar slegið upp sem eins konar táknmynd fyrir frelsi (já, hafiði það Heimdellingar!), uppreisnaranda og almennan kúlisma. Og það er í rauninni gott eitt um það að segja að fólk sé enn hrifið af því að vera frjálst, uppreisnargjarnt og kúl. En Che Guevara er ekki rétta manneskjan til að taka sér til fyrirmyndar.
Ég ætla ekki að fara út í sögu kúbanskra kommúnista hér. Það geta allir flett upp í sögubókum og það vita það allir sem vilja vita að þótt kommúnistar hafi komið ýmsu til leiðar á Kúbu, steypt vondum einræðisherra og gert ýmsar umbætur á heilbrigðis- og menntakerfinu svo eitthvað sé nefnt, þá tilheyrir kúbanski kommúnisminn liðnum tíma og það er bara tímaspursmál hvenær gamli hnéskemmdi refurinn Fidel Castro hrekkur upp af og hugmyndafræði hans vonandi með. Þessar pælingar voru bara ekki að virka.
Castro og Guevara (sem dó svo heppilega ungur að hægt var að hefja hann upp í einhvers konar píslarvættisdýrkun) voru dæmigerðir 20. aldar kommúnistar sem klikkuðu á því stærsta sem hægt er að klikka á – þeir litu svo á að hugsjónirnar væru mikilvægari en mennirnir. Það ætti að laga breyskt mannfólkið að hugmyndunum, en ekki hugmyndirnar að mönnunum. Þetta hugarfar, sem hefur aldrei virkað og mun aldrei virka, hafði í för með sér fangelsanir, kúgun og gróf mannréttindabrot sem löngu eru komin fram í dagsljósið. Undir stjórn forystu kúbönsku byltingarinnar var öllum sem ekki pössuðu inn í ídealískan ramma Castro og félaga um hinn nýja mann fleygt í fangelsi eða þeir hreinlega drepnir, allt frá hommum til andbyltingarsinnaðra rithöfunda.
Ég hef lesið svolítið af skoðanaskiptum manna á netinu um þessa gagnrýni á hetjudýrkun Che Guevara og algengt viðkvæði er: ,,Þetta skiptir ekki máli, það sem skiptir máli er hugsjónin sem hann er tákn fyrir, hugsjónin um betri heim”. Hugsjónin um betri heim er falleg hugsjón – en velferð mannanna sem lifa hér og nú á samt alltaf að koma á undan. Annars er auðvelt að missa sjónar á takmarki sínu. Ég efast t.d. um að þeim kúbönsku rithöfundum sem stóðu í veg fyrir hugsjónum Che Guevara og eyddu löngum tíma í vinnubúðum fyrir óæskilega andbyltingarsinna, finnist heimurinn mikið bættari fyrir það. Che Guevara stóð ekki fyrir frelsi. Hann stóð þvert á móti fyrir það að steypa ætti allt mannkynið í sama mót.
Ég segi þess vegna: Kommon, krakkar, dagar sellufundanna eru liðnir. Það getur verið að foreldrar okkar hafi haft það voða kósí í lopapeysunum að gefa út Neista og rífast um túlkunaratriði marxismans en þetta er bara búið. Við förum ekki að tileinka okkur misskilning fyrri kynslóða og skreyta okkur með hamar og sigð. Það er jafn bjánalegt og að ganga um í bol með mynd af hljómsveit sem maður hefur aldrei hlustað á – og er hvort eð er ekkert góð.
Verum ekki hallærisleg. Lepjum ekki upp flokkspólitíska hetjudýrkun úr kúbanska kommúnistaflokknum. Er ekki kominn tími til að fagna frelsinu í alvörunni, fleygja Margaret Thatcher og Che Guevara út í hafsauga, og heiðra alvöru frelsishetju? Er ekki kominn tími til að setja markgreifann de Sade á bol?