Þriðji menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokkins á 2 árum hefur nýverið tekið við. Jómfrúargrein ráðherrans sem birtist í Morgunblaðinu 7. febrúar síðastliðnum er fyrir marga hluta sakir furðuleg. Þar er fullyrt að menntasókn hafi verið í gangi í mörg ár undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Ef einhver sókn hefur verið í gangi er ljóst að hún hefur farið furðuhljótt. Þriðji menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokkins á 2 árum hefur nýverið tekið við. Jómfrúargrein ráðherrans sem birtist í Morgunblaðinu 7. febrúar síðastliðnum er fyrir marga hluta sakir furðuleg. Þar er fullyrt að menntasókn hafi verið í gangi í mörg ár undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Ef einhver sókn hefur verið í gangi er ljóst að hún hefur farið furðuhljótt.
Að sækja aftur á bak
Flestir sem láta sig menntamál varða eru sammála um að menntakerfið, og þá sérstaklega háskólastigið, hefur búið við mikið fjársvelti undanfarin ár. Nýi menntamálaráðherrann lét það hins vegar vera eitt af sínum fyrstu ummælum í starfi að Háskóli Íslands ,,væri ekki blankur.“ Það væri ráð að ráðherrann myndi heimsækja forsvarsmenn allra deilda háskólans eins og þingmenn Samfylkingarinnar gerðu í upphafi þessa árs. Hún myndi fljótt heyra að blankheit skólans séu svo sannarlega fyrir hendi. Þetta vita bæði starfsfólk Háskólans og stúdentar.
Ráðherrann fjallar um þá aukningu sem átt hefur sér stað undanfarin ár á fjármagni til háskólastigsins. Hún tekur ekki fram að sú aukning svarar aðeins til þess sem fjöldi nemenda hefur aukist. Samhliða nemendaaukningu hafa laun starfsfólks háskólastigsins hækkað talsvert.
Þetta aukna fjármagn er því eingöngu vegna nemendafjölgunar og launahækkana og nær þó ekki að halda í þessa tvo þætti. Ef litið er eingöngu til Háskóla Íslands kemur meira að segja fram í grein ráðherrans að aukning á fjármagni til Háskólans frá árinu 2000 er minni en nemendafjölgunin á sama tíma. Gagnvart Háskóla Íslands hafa því stjórnvöld farið aftur á bak.
Samanburður við önnur lönd
Ráðherrann lendir einnig í vandræðum þegar kemur að samanburði við aðrar þjóðir. Í nýjustu skýrslu OECD frá árinu 2003, Education at Glance, kemur fram að Íslendingar eru einungis hálfdrættingar á við önnur Norðurlönd þegar kemur að útgjöldum til háskólastigsins. Þessi nýjasti samanburður OECD er fyrir árið 2000. Það er tómt mál að tala um stöðuna árið 2003 eins og ráðherra gerir vegna þess að samanburðartölur liggja ekki fyrir. En jafnvel þótt við séum að auka útgjöld okkar stöndum við öðrum þjóðum langt að baki. Þótt við myndum auka útgjöldin til háskólastigsins um 1 %-stig af landsframleiðslu, sem eru 8 milljarðar, næðum við ekki efstu þjóðum.
Af 29 OECD ríkjum er Ísland í 24.-27. sæti hvað varðar heildarútgjöld til háskólastigsins eða í 6.-3. neðsta sæti. Við erum með 0,8% af landsframleiðslu sem opinber útgjöld til háskóla og 0,1% sem einkaútgjöld.
Ráðherrann stærir sig einnig af því að hafa gert samning við Háskóla Íslands um að greitt verði fyrir 5.200 virka nemendur. En hann gleymir því að virkir nemendur við Háskólann eru 5.700 eða um 500 fleiri. Ef menn ætla að styðjast við þá aðferðarfræði að greitt sé með hverjum nemanda verður að greiða með hverjum nemanda en ekki sleppa tíunda hverjum.
Fjöldatakmarkanir ráðherrans opinberaðar
Ráðherrann telur í grein sinni að íslenska þjóðin hafi hátt hlutfall háskólamenntaðs fólks. Þetta er rangt. Ef skoðaðar eru nýjustu tölur OECD fyrir árið 2001 kemur í ljós að um 27% fólks á aldrinum 25 til 34 ára hefur lokið háskólaprófi á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum er þetta hlutfall yfirleitt um 37%. Staðan er enn verri ef litið er til framhaldsskólaprófs þar sem einungis um 60% Íslendinga á aldrinum 25 til 34 ára hefur lokið því. Á öðrum Norðurlöndum er þetta hlutfall um 86%-94%. Þetta þýðir að nánast annar hver Íslendingur í þessum aldursflokki hefur einungis grunnskólapróf.
Að lokum segir ráðherrann í grein sinni, ,,Ríkið getur ekki gefið grænt ljós á að Háskólinn taki inn fleiri nemendur en gert er ráð fyrir í fjárlögum.“ Í þessum orðum ráðherrans felast þau tímamót að Háskóli Íslands er ekki lengur opinn öllum stúdentum. Með knöppum fjárveitingum ríkisstjórnarinnar til Háskólans hefur ráðherrann því ákveðið meiri takmarkanir að þjóðskólanum en hafa þekkst í sögu Háskólans. Fjöldi nemenda við Háskólans mun því takmarkast af pólitískri ákvörðun ráðherrans en ekki eftirspurn og vilja þjóðarinnar. Slíkt er ekki menntasókn heldur fjársvelti.