Hann Doddi

,,Ég spurði hann hvers vegna ekki og þá sagði hann mér að það væri með ólíkindum að manneskja sem væri jafn mikill umhverfissinni og ég gæti stutt slíkan flokk sem hefur enga skýra stefnu í umhverfismálum.” Segir Júlía Margrét Einarsdóttir ritari Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík í grein dagsins.

Stundum er ótrúlega gaman að fólki sem er ósammála manni og hefur alveg allt aðrar skoðanir en maður sjálfur. Svoleiðis umræðum er þó hægt að skipta í tvo flokka, málefnalegar umræður þar sem mætast mismunandi fólk með mismunandi sýn og mismunandi skoðun á málunum og svo ómálefnalegar þegar maður tekur sig á tal við fólk sem reynist vera með svo ótrúlega órökstuddar og fáránlegar skoðanir að það er ekki hægt að ræða málin við það.


Vikið úr starfi

Þegar ég var yngri átti ég erfiðara með að höndla slíkar aðstæður en í dag. Þegar ég var í unglingavinnunni í 8. bekk við garðyrkustörf fór ég einhverntíma að spjalla við stelpu sem var með mér í hóp og hún fræddi mig um það hvernig hún hataði alla sem væru samkynhneigðir því að samkynhneigðir hafa svikið guð og guð hefur yfirgefið þá. Mér tókst ekki alveg að höndla þessar óvæntu aðstæður og við lentum í slag í beði, ég fékk glóðurauga og var rekin úr unglingavinnunni, eina skiptið á ævinni sem mér hefur verið vikið úr starfi.


Ekkert kók með pulsunni

Um daginn lenti ég í svipuðum aðstæðum. Ég var nefnilega í bíl á leið minni út á land þegar stelpa sem sat við hliðina á mér fór að ræða um óbeit sína á Sjálfstæðisflokknum, sem er alveg eðlilegt og skoðun sem flestir gætu rökstutt á margan hátt en þegar ég spurði hana nánar út í þessa skoðun sína sagði hún mér að í síðustu borgarstjórnarkosningum hefðu allir flokkarnir gefið gestum og gangandi á Llaugaveginum eitthvað skemmtilegt en Sjálfstæðisflokkurinn hefði bara gefið henni pulsu. Ekki einu sinni kók með. Ég brosti bara og slaufaði umræðunni þar með. Þá fór hún hinsvegar að deila með mér andstyggð sinni á hommum því að þeir stunduðu svo óheilbrigt kynlíf. Ég ákvað bara að þagga niður í dömunni (enda var ég þunn þennan dag og með nógu mikinn hausverk fyrir) með því að segja henni að ég væri lesbía og skráð í Sjálfstæðisflokkinn. Þá fór hún að tala um að það væri allt í lagi því að lesbíur væru öfugt við homma rosalega töff. Ég sagði henni þá bara að bróðir minn væri hommi og í stjórn ungra sjálfstæðismanna. Svo hallaði ég mig bara í sætinu og svaf það sem eftir var ferðar án þess að þurfa að ræða þessi mál eitthvað frekar.

Fagra Ísland
Hin tegundin af svona umræðum eru svo þessar málefnalegu. Þær geta verið alveg þrælskemmtilegar en þegar tveir aðilar eru búnir að ræða sömu hlutina oft og mörgum sinnum án þess að komast að nokkurri málamiðlun þá er eins gott að sleppa því bara að ræða þá hluti. Ég og Doddi, sem vinnur alltaf með mér á föstudagskvöldum höfum komist að þessari niðurstöðu. Hann er nefnilega gallharður sjálfstæðismaður og ég staðfastur krati. Þessvegna eru stjórnmál orðin tabú þegar umræðuefni í kaffipásunni okkar eru annars vegar. Í kaffipásunni okkar Dodda í dag lýsti hann hinsvegar yfir áhyggjum yfir karlmannsleysinu mínu og ennfremur færði hann mér þær gleðifréttir að það væri búið að dömpa komma-vini sínum. Hann kvað þennan mann alveg fullkominn fyrir mig. Hann er rauðhærður, hávaxinn, rosalega góður kærasti, gerir gjörsamlega allt fyrir kærustuna sína, svo er hann alltaf á reiðhjóli því honum er svo annt um náttúruna, ferðast aldrei í bíl nema þá í strætó, hann er alltaf í lopapeysu og svo er hann kommi alveg eins og ég. Skráður í Vinstri græna og allt. Doddi er alveg staðráðinn í því að koma okkur saman og spurði hvort ég væri laus laugardaginn næstu helgi. Ég afþakkaði pent stefnumót við kauðann og sagði honum að ég væri ekkert að leita eftir neinu sambandi þessa stundina. Svo er ég heldur ekki í Vinstri grænum heldur í Samfylkingunni. Sú yfirlýsing kom Dodda algjörlega í opna skjöldu. Hann spurði mig hvernig manneskja eins og ég gæti hugsanlega stutt Samfylkinguna. Ég spurði hann hvers vegna ekki og þá sagði hann mér að það væri með ólíkindum að manneskja sem væri jafn mikill umhverfissinni og ég gæti stutt slíkan flokk sem hefur enga skýra stefnu í umhverfismálum. Ég sagði honum að Samfylkingin væri með mjög skýra stefnu í umhverfismálum benti honum á Fagra Ísland, þar sem kemur glögglega fram að Samfylkingin vill styrkja stöðu náttúru- og umhverfisverndar á Íslandi.


Flott stefna í jafnréttismálum

Doddi var tilbúinn að samþykkja það en benti mér á að honum þætti samt furðulegt að femínisti eins og ég styddi ekki vinstri græna. Út á þetta komment hef ég ýmislegt að setja og benti ennfremur á sterka stefnu okkar í jafnréttismálum sem felur meðal annars í að útrýma launamun kynjanna fyrir fullt og allt og að ég tali nú ekki um að forætisráðherraefni Samfylkingarinnar væri einmitt kona, en Samfylkingin er eini flokkurinn sem hefur telft fram kvenmanni sem forsætisráðherraefni og Ingibjörg Sólrún yrði þar af leiðandi fyrsti kvenforsætisráðherrann á Íslandi.


Ruglað saman við Steingrím Joð

Doddi varð svolítið hugsi en sagði mér svo að hann skildi samt alveg hvernig vinur hans sem er svona alveg á sömu bylgjulengd og ég kysi Vinstri græna fram yfir Samfylkinguna því að Ingibjörg Sólrún er náttúrulega bara óþolandi. Ég spurði hann að hvaða leiti. Hann svaraði mér að það væri bara á allra vörum að hún væri alveg glötuð og að vinir hans í Sjálfstæðisflokknum væru alltaf að tala um það við hann. Ég spurði hann hvort að ástæðan fyrir því að þeir væru alltaf að skjóta hana gæti ekki verið því þeir þyldu í rauninni ekki hvað hún er sterkur leiðtogi og að þeim standi hreinlega bara ógn af henni. Doddi sagði mér eftir nokkra umhugsun: ,,Æji svo er hún alltaf bara eitthvað að væla og er ósammála öllu.” Ég tilkynnti honum að ég væri því algjörlega ósammála en spurði hann hvort hann væri ekki bara að rugla henni saman við Steingrín J. Sigfússon. Við Doddi töluðum ekki mikið lengur því það var mikið að gera í vinnunni og við fórum að þrífa pleisið. Eftir vinnu þegar við vorum svo að kveðjast sagði hann samt við mig að eftir að hafa talað við mig skildi hann í rauninni ekki hvers vegna vinur hans væri að kjósa Vinstri Græna. Ég svaraði honum hreinskilnislega að það gæti ég reyndar heldur ekki skilið. Hann spurði mig þá hvort ég vildi ekki hitta hávaxna komma vin sinn og spyrja hann út í það sjálf og kvaðst þess fullviss að ég gæti sannfært hann að kjósa Samfylkinguna. Nú er bara vandamálið í hverju í andskotanum ég á að vera á laugardaginn.


Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið