Einar Sigmarsson spyr í grein dagsins; til hvers að láta draga sig út í innrásarstríð í trássi við vilja Sameinuðu þjóðanna? Til hvers að láta bandaríska ofstækisstjórn teyma sig áleiðis til Armageddons? Er eftirsóknarvert að vera viljalaus verkfæri í olíuæði Bandaríkjamanna? Lítilþægir liðléttingar í krossferðunum síðari? Taktlausir taglhnýtingar George Bush?
Það er ekki amalegt að búa fjarri hermangi veraldar enda virðast hægrisinnaðir valdsmenn við ysta haf seint ætla að viðurkenna að innrásin í Landið milli fljótanna hafi verið lögleysa og glópska. Og langt er seilst eftir hálmstráum til að leggja ofan á fjallháan valköstinn og dylja smán vígfúsra þjóða. Nú þykist Björn Bjarnason hafa fundið eitt: að aðild Putalands hafi engu breytt um hvort af Íraksstríðinu hefði orðið eða ekki. Aðrir hafi því stolið glæpnum!
En til hvers þá að láta draga sig út í innrásarstríð í trássi við vilja Sameinuðu þjóðanna? Til hvers að láta bandaríska ofstækisstjórn teyma sig áleiðis til Armageddons?
Eða er svona eftirsóknarvert að vera viljalaus verkfæri í olíuæði Bandaríkjamanna? Lítilþægir liðléttingar í krossferðunum síðari? Taktlausir taglhnýtingar George Bush?