Halldór í skugga óttans og aðildarumsókn að ESB

Halldór Ásgrímsson lét þau stóru tíðindi uppi að hann vildi ræða málin opinskátt! Mikil forysta það í þessu mesta hagsmunamáli Íslendinga síðustu áratugi en kannski enn þá meiri óttinn við reiði Davíðs Oddssonar og afleiðingar hennar. Já, í skugga óttans við Davíð er lítilla tíðinda að vænta frá Halldóri í þessum málum. Í síðustu viku var rætt um skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál á Alþingi. Umræðan var afar tíðindatlítil að hálfu ráðherrans og hann skautaði létt fram hjá meginmálinu, fyrir utan stríðið gegn hryðjuverkum og skammarlegu flaðri ríkisstjórnarinnar upp um Bush Bandaríkjaforseta vegna ólögmæts innrásarstríðsins á Írak, sem eru Evrópumálin.

Halldór Ásgrímsson lét þau stóru tíðindi uppi að hann vildi ræða málin opinskátt! Mikil forysta það í þessu mesta hagsmunamáli Íslendinga síðustu áratugi en kannski enn þá meiri óttinn við reiði Davíðs Oddssonar og afleiðingar hennar. Já, í skugga óttans við Davíð er lítilla tíðinda að vænta frá Halldóri í þessum málum.

Staðreyndin er sú að EFTA stoðin er fúin inn að miðju og styttist í að hún gliðni í sundur. Ég skoraði á ráðherrann í umræðunni að tala skýrar og gefa uppi eitthvað um fyrirætlanir sínar í Evrópumálum. En það gerði hann ekki enda hefur hann trúlega ekki aðrar en að vona að Norðmenn sæki ekki um aðild og Davíð haldi ró sinni og kippi ekki fyrirvarlaust undan honum stólnum eftir 15. september. Þegar stólaskipti Framsóknar/Sjálfstæðisflokksins fara fram.

Auðvitað eigum við að sækja um aðild og allir hugsandi menn vita að það er tímaspursmál hvernær við gerum það nauðbeygð í kjölfar Norðmanna. Svo dapurlegt sem það nú er. EES-samningurinn og þjóðarsátt vinstri stjórnarinnar og verkalýðshreyfingarinnar í upphafi 10. áratugarins lögðu grunn að þeirri velmegun og því mikla góðæri sem við að mörgu leyti búum við enn. Það er óumdeilt og blasir við að ef og þegar Noregur gengur í Evrópusambandið er EES-samningurinn fyrir bí. Norðmenn standa að langmestu leyti undir honum og án þeirra er enginn samningur.

Á næstu mánuðum og missirum ræðst það hvort Noregur sækir um aðild þriðja sinni, enda styttist í næstu stórþingskosningar í Noregi, og hvernig þeirri umsókn muni þá reiða af í þjóðaratkvæðagreiðslu. Margt bendir til þess að í þetta sinn samþykki Norðmenn inngöngu enda hafa mikil og góð áhrif aðildar annars staðar á Norðurlöndunum haft afgerandi áhrif á breytt viðhorf Norðmanna til aðildar að Evrópusambandinu. Finnar stukku t.d. á Evrópuvagninn af fullum þunga og tóku upp evruna finnsku samfélagi til mikilla hagsbóta. Það sama eigum við Íslendingar að gera.

Eins og ég gat um er EES-samningurinn stöðugt að veikjast. Ástæðurnar fyrir því eru fjöldamargar og ég ætla að nefna nokkrar. Í fyrsta lagi leiðir stækkun Evrópusambandsins til þess að ríki sambandsins verði 30 í stað 15 og það eitt leiðir til miklu minni áhuga sambandsins á málefnum EES en áður og að mínu viti minni möguleika á raunverulegum ítökum og raunverulegum áhrifum í samstarfinu.

Í öðru lagi er samningurinn staður að því leyti að hann nær ekki til nýrra sviða í samstarfi ESB sem annað tveggja krefjast þá harðra og erfiðra samninga líkt og um Schengen eða að Íslendingar fá ekki tækifæri til að taka þátt í mikilvægu samstarfi innan álfunnar sem væri hagsmunum okkar greinilega og augljóslega til mikils skaða.

Í þriðja lagi leiðir þróun innviða Evrópusambandsins, svo sem aukin völd Evrópuþingsins, til þess að það dregur verulega úr áhrifum okkar í gegnum EES-samstarfið. Með rökum má halda því fram að við séum með þeirri þróun hægt og bítandi að tapa enn þá meira fullveldi okkar án þess að hafa fallist á það, rætt það á pólitískum grundvelli eða haft nein sérstök áhrif á þessa þróun.

Í fjórða lagi að núverandi staða leiðir til þess að við munum ekki ná þeim mikilvægu ávinningum sem felast í aðild að Myntbandalaginu með því að vera einungis í EES. Það blasir við og þar kannski komum við að stórpólitískasta atriðinu í þessu máli.

Í fimmta og síðasta lagi er að afurðir í sjávarútvegi sem voru undanþegnar hinum mikilvægu tollfríðindum sem við náðum með samningum verða á næstu árum æ mikilvægari í útflutningi Íslendinga.

Það er augljóslega mjög mikilvægt að við tökum til gagngerrar endurskoðunar stöðu okkar í samstarfi við Evrópusambandið og ekki mikið lengur undan því vikist að þau mál verði tekin til endurskoðunar eins og ég kom inn á áðan. Ábyrg og framsýn ríkisstjórn á Íslandi væri núna að undirbúa af fullum krafti aðildarumsókn Íslendinga að Evrópusambandinu, sá er veruleikinn, en ekki að reyna að þegja mikilvægi málsins í hel.

Það væri rökréttast að undirbúa vel og vandlega umsókn að Evrópusambandinu með það að markmiði að ná samningi sem tryggir okkur full yfirráð yfir fiskimiðunum sem á að vera skilyrði aðildar Íslendinga að Evrópusambandinu. Ítrekað hefur verið sýnt fram á það að aðild Svíþjóðar, Danmerkur og Finnlands að Evrópusambandinu hefur leitt til mikilla lífskjarabóta fyrir allan almenning í þeim löndum. Vöruverð hefur lækkað og samkeppnisstaða atvinnulífsins batnað. Almenningur á Íslandi og Noregi má hins vegar búa við mun lakari kjör en íbúar annars staðar á Norðurlöndunum og okurverð á lánsfé og matvælum. Þetta er óþolandi staða fyrir íslenska neytendur.

Einnig er dæmalaust að fullvalda ríki í slíku samstarfi skuli sætta sig við það að taka möglunarlaust við lögum og reglugerðum Evrópusambandsins án þess að hafa raunverulega neitt um það að segja með aðkomu að lagasetningu og framkvæmdastjórn þess. Þetta er einn mikilvægasti þátturinn í öllum okkar vangaveltum um Evrópumálin. Andstaða ráðamanna við aðild að Evrópusambandinu hefur þegar kostað okkur fjöldamörg tækifæri, lífskjör okkar Íslendinga eru fyrir vikið mun verri en þjóða Evrópusambandsins

Það er einfaldlega miklu dýrara að draga fram lífið á Íslandi en í Evrópusambandinu, dýrara að koma sér upp þaki yfir höfuðið, dýrara að brauðfæða fjölskyldurnar. Þessu eigum við að breyta og gerum einungis með fullri aðild að sambandinu. Þjóðarhagsmunir kalla á vandaða, yfirvegaða og ítarlega umræðu þar sem farið er upp úr hjólförum flokkastjórnmálanna.

Stærsta málið í allri umræðu um aðild Íslands að Evrópusambandinu snýr að sjálfsögðu að yfirráðum yfir fiskveiðilögsögunni. Án fullra yfirráða yfir auðlindinni kemur aðild að Evrópusambandinu ekki til greina. Hins vegar bendir allt til þess að við samningsviðræður héldum við fullum yfirráðum yfir auðlindinni enda yrði það alltaf samningsmarkmið númer eitt ef til viðræðna yrði gengið til þess að tryggja að við yrðum ein þjóða um veiðarnar og stjórnuðum heildaraflanum á Íslandsmiðum.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið