Það er algengt er að andstæðingar aðildar vísa til þess að ESB sé risavaxið skriffinnskubákn með óteljandi starfsmönnum. Hið rétta er að ESB hefur færri starfsmenn en breska umhverfismálaráðuneytið. Nánast þriðji hver starfsmaður ESB vinnur við þýðingar vegna þeirrar meginreglu ESB að þegnar aðildarríkja ESB geti nálgast ákvarðanir ESB á sínu eigin tungumáli. Ef ESB væri stofnun á Íslandi hefði það um 19 starfsmenn eða svipað marga og Póst og fjarskiptastofnun og litlu fleiri starfsmenn en Sýslumaðurinn í Hafnarfirði. Í aukinni umræðu um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu heyrast of margar rangfærslur um ESB sem er ágætt að rifja upp.
Oft er sagt að ESB sé lokaður klúbbur ríkra þjóða sem séu varin með háum tollamúr og þeim sé sama um hin fátækari lönd. Þetta er alrangt enda er ESB og aðildarríki þess langstærsti veitandi þróunaraðstoðar í heiminum. ESB og aðildarrríki þess veita 55% af allri opinberri þróunaraðstoð í heiminum og meira en 75% af allri fjárhagsaðstoð. ESB hefur einnig samþykkt að leyfa tollalausan innflutning á markaði sína af öllum vörum nema vopnum frá 48 fátækustu löndum heims.
ESB og Sýslumaðurinn í Hafnarfirði
Það er algengt er að andstæðingar aðildar vísa til þess að ESB sé risavaxið skriffinnskubákn með óteljandi starfsmönnum. Hið rétta er að ESB hefur færri starfsmenn en breska umhverfismálaráðuneytið. Nánast þriðji hver starfsmaður ESB vinnur við þýðingar vegna þeirrar meginreglu ESB að þegnar aðildarríkja ESB geti nálgast ákvarðanir ESB á sínu eigin tungumáli. Ef ESB væri stofnun á Íslandi hefði það um 19 starfsmenn eða svipað marga og Póst og fjarskiptastofnun og litlu fleiri starfsmenn en Sýslumaðurinn í Hafnarfirði.
Um hina meintu staðalárátta ESB er hið rétta að ESB hefur ekki sett neina staðla sjálft heldur hefur ESB samið við frjáls staðlasamtök sem eru mynduð af viðkomandi hagsmunahópum. Fyrirtækin sjálf vilja þessa staðla en þeir eru einungis viðmiðanir til að auðvelda viðskipti milli landa og ná fram hagkvæmni í framleiðslu. Með samræmingu staðla er hægt að lækka viðskiptakostnað til muna. Í stað 15 mismunandi reglna um alla mögulega hluti hefur ESB stuðlað að því að ein regla gildi á markaðinum, viðskiptalífinu og neytendum til mikils hagræðingar. Ein mynt og samræmdar reglur eru til mikilla bóta í viðskiptum.
Landsbyggðin hagnast af ESB
Iðulega er því haldið fram að við inngöngu Íslands í ESB myndi allt fyllast hér af spænskum togurum og öðrum ESB fiskiskipum sem myndu þurrausa miðin okkar. Þetta er alrangt. Sjávarútvegsstefna ESB er byggð á veiðireynslu síðustu ára. Ekkert ríkja ESB hefur veitt svo neinu muni í íslenskri landhelgi undanfarna tvo áratugi og því hafa önnur ríki enga veiðireynslu í íslenskri lögsögu. Ekkert erlent fiskiskip kæmi til veiða við Ísland þótt við yrðum aðilar að ESB. Við inngöngu Íslands inn í ESB munu Íslendingar áfram sitja einir að öllum veiðum í íslenskri lögsögu. Sérhvert aðildarríki ræður síðan hvernig það ráðstafar sínum veiðiheimildum og ríkin sjálf annast eftirlit.
En munu ekki erlend fyrirtæki kaupa upp íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og flytja verðmætin beint út úr landi? Nei, slíkt getur ekki gerst þar sem við inngöngu Íslands í ESB verða allar útgerðir hérlendis að hafa svokölluð raunveruleg efnahagsleg tengsl við Ísland. Það er eitt af meginmarkmiðum sjávarútvegsstefnu ESB að afrakstur veiðanna komi því fólki til góða sem reiðir sig á þær. Daglegur rekstur fiskiskipa verður að vera á Íslandi og hagnaður veiðanna verður að fara í gegnum íslenskt efnahagslíf.
Eins og sjávarútvegsstefna ríkisstjórnarinnar er núna er ekkert sem hindrar að verðmæti af Íslandsmiðum fari beint úr landi. Aðild Íslands að ESB kæmi því landsbyggðinni mjög til góða.
Er Danmörk ófullvalda ríki?
Hvað er með íslenskan landbúnað? Mun hann ekki líða undir lok við aðild að ESB? Hér er enn einn misskilningurinn á ferðinni. Samkvæmt skýrslu utanríkisráðherra frá árinu 2000 er gert ráð fyrir að við inngöngu Íslands í ESB myndi íslenskum bændum sem stunda sauðfjárbúskap, mjólkurframleiðslu og nautgriparækt geta vegnað svipað og nú er. Tekjur íslenskra sauðfjárbænda yrðu þó líklega hærri. Svína-, kjúklinga- og eggjaframleiðsla yrði erfiðari fyrir íslenska framleiðendur nema veittur yrði innlendur stuðningur svipaður þeim sem Svíar og Finnar gerðu gagnvart sinni framleiðslu þegar þeir gengu í ESB.
Fjarlægðarvernd og krafan um ferskleika og gæði myndar eftirspurn sem gerir það kleift að verð á íslenskum landbúnaðarvörum gæti verið hærra en er í öðrum Evrópulöndunum. Þó er það alveg ljóst að matvælaverð myndi stórlækka við inngöngu í ESB en slíkt gerðist einmitt þegar Svíar og Finnar gengu í sambandið 1995.
Landbúnaðarstefna ESB er ekki neitt til að hrópa húrra fyrir en landbúnaðarstefna Íslands ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar er enn vitlausari og dýrari. Við aðild að ESB fá íslenskir bændur kærkomið tækifæri til að nýta sína hlutfallslegu yfirburði og ná fram nauðsynlegri hagræðingu. Þeim veitir ekki að því en núverandi ríksstjórnarstefna hefur skilað bændum í þá stöðu að vera lægst launaða stétt landsins.
Að lokum er fullyrðingin um að Ísland myndi missa fullveldi sitt við aðild að ESB. ESB er samband fullvalda og sjálfstæðra þjóða. Dettur einhverjum í hug að Danmörk eða Bretland séu eitthvað minna sjálfstæð en Ísland? Nú þegar þarf Ísland að taka yfir um 80% af öllum lögum og reglum ESB vegna EES-samningsins án þess að hafa nokkur áhrif á ákvarðanatökuna. Aðild Íslands að ESB er því hluti af sjálfstæðisbaráttu en ekki fullveldisafsal. Reynslan og rannsóknir sýna að smáríkjum hefur vegnað mjög vel innan Evrópusambandsins.
Andstaðan gegn aðild Íslands að ESB byggir oft á vanþekkingu eins og hér hefur verið sýnt fram á. Andstaðan byggist einnig oft á hræðslu við breytingar og frjáls viðskipti. Það er hvorki tilviljun né heimska að nær allar þjóðir í Evrópu hafa kosið að gerast aðilar að ESB.