LEIÐARI Íslenskir kjósendur hafa nú uppgötvað að það er ekki nóg að halda að öll vandamál leysist af sjálfu sér/markaðurinn leysi þau. Það þarf líka pólitískar lausnir.
Meðan við troðum marvaðann ofan í þeim drullupytti sem nýfrjálshyggjan og sextán ára stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins kom okkur í, skiptir mestu máli að við leggjum allt á okkur til að halda sem flestum í vinnu. Fyrir þetta standa jafnaðarmenn, um þetta snýst hin klassíska norræna jafnaðarstefna: Rétt fólks til atvinnu. Nú reynir á Íslendinga að takast hratt og vel á við atvinnuleysi.
Aðalatriðið er að tala atvinnulausra verði eins lág og mögulegt er. Þetta fjallaði Katrín Ólafsdóttir hagfræðingur um í frábærum fyrirlestri sínum á „Ég er jafnaðarmaður“, málefnaþingi UJ sem haldið var um daginn. Hún fjallaði um rannsóknir sem hún hefur unnið á íslenskum vinnumarkaði og sýna fram á að íslenskur vinnumarkaður er sveigjanlegri en almennt gerist. Með öðrum orðum, getum við mætt tímabundnum erfiðleikum og lagað okkur fljótt að breyttum aðstæðum.
Kannski hljómar ekki sérstaklega vel að í þessum sveigjanleika felist sá möguleiki að fólk taki á sig launalækkanir eða minnki starfshlutfall. En það er alltaf betri kostur en að fleiri missi störfin. Það er meira en að segja það að detta út af vinnumarkaði og þurfa að halda sér í formi. Betra er að tímabundið sýnum við samstöðu.
Íslenskir kjósendur hafa nú uppgötvað að það er ekki nóg að halda að öll vandamál leysist af sjálfu sér/markaðurinn leysi þau. Það þarf líka pólitískar lausnir. Ríkisstjórnin hefur nú þegar hrint af stað Átaki til atvinnusköpunar sem áætlað er að skapi að lágmarki 4.000 ný störf á ársgrundvelli. Sjálf stýri ég starfshópi sem nú vinnur að atvinnumálum stúdenta í sumar. Við hjálpumst að í gegnum erfiðasta hjallann!
Sem fulltrúi ungu kynslóðarinnar vil ég minna á að bótaréttur nýútskrifaðra stúdenta sem ekki fá vinnu strax, er ekki nógu góður. Þetta er ekki lausn á atvinnuleysi en ef fólk er atvinnulaust þá þarf það að geta framfleytt sér meðan á því stendur. Þannig virkar jafnaðarsamfélagið.