Hvert skal stefnt í atvinnumálum á Íslandi?

eggPISTILL Við þurfum að ákveða hvernig við viljum sjá Ísland framtíðarinnar þróast.  Viljum við halda áfram að setja öll eggin okkar í eina álklædda körfu eða viljum við dreifa þeim jafnt í sem flestar körfur?  Ef það á að vera hægt þurfum við á mikilli hugarfarsbreytingu að halda.

PISTILL Atvinnustefna síðustu ára virðist að mestu hafa snúist um bankastarfsemi og atvinnuvegi tengda bönkum og öðrum fjármálastofnunum. Það var hin mesta tíska í fleiri ár og fannst mörgum nóg um. Viðskiptanám var orðið gríðarvinsælt og viðskiptafræðingar sóttust eftir störfum langt frá starfssviði sínu, svo lengi sem þau voru innan bankageirans. Nú þurfum við hins vegar að horfast í augu við þá staðreynd að þessar atvinnugreinar hrundu í grófum dráttum með bönkunum. Eftir eru aðeins minningar um mikilmennskubrjálæði og ofurlaun bankamanna sem því miður skutu föstum rótum í stjórnlausum fjármálaheimi.

Við þurfum að ákveða hvernig við viljum sjá Ísland framtíðarinnar þróast. Viljum við halda áfram að setja öll eggin okkar í eina álklædda körfu eða viljum við dreifa þeim jafnt í sem flestar körfur? Ef það á að vera hægt þurfum við á mikilli hugarfarsbreytingu að halda. Við þurfum að horfa meira til litlu og meðalstóru fyrirtækjanna sem nú eru starfrækt í landinu í bland við nýsköpun og sprotafyrirtæki. Öll þau litlu og meðalstóru fyrirtæki sem nú eru starfandi á Íslandi þurfa nauðsynlega á hjálp að halda til að eiga möguleika á að starfa áfram. Við þurfum að styðja við bakið á þeim á einn eða annan hátt. Hvort sem það er beinn fjárhagslegur stuðningur eða skattaafslættir af einhverju tagi. Ef ekki verður brugðist hratt við er erfitt að hugsa sér hvernig endurbyggja á íslenskt atvinnulíf. Það verður að vera einhver grunnur sem hægt er að byggja frá, ekki byggjum við aftur íslenskt atvinnulíf á sandi.

Það er erfitt að bera saman eitt lítið fyrirtæki sem skapar 1-10 störf og stórt og mikið fyrirtæki sem skapar 100-300 störf en þegar horft er til þess að dreifing starfa er mun meiri í litlu fyrirtækjunum jafnast hlutföllin. Það liggur beinast við að ef áhersla er lögð á lítil og meðalstór fyrirtæki er áhættan mun minni ef eitt þeirra fer yfir um heldur en ef eitt risa fyrirtæki fer á hausinn. Það erum við að sjá um allan heim í dag. Lítil strá bogna á meðan stóru trén brotna.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand