Grá fjárlög ríkisstjórnarinnar ávísun á atvinnuleysi og stöðnun

Ályktun Ungra jafnaðarmanna um fjárlagafrumvarp og fjárlagaáætlun ríkisstjórnarinnar

Ungir jafnaðarmenn lýsa yfir vonbrigðum með síðasta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, fullkomið fálæti stjórnvalda gagnvart atvinnuleysi ungs fólks og þá gráu framtíðarsýn sem birtist í fjármálaáætlun til næstu fimm ára. 

Tæplega helmingur atvinnulausra er ungt fólk á aldrinum 18 til 35 ára samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar í ágúst 2020. 

Ríkisstjórn sem hefur borgað eigendum fyrirtækja fyrir að reka starfsfólk þverskallast við að hækka atvinnuleysisbætur og skortir kjark til að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir til að fjölga störfum hjá hinu opinbera og í einkageiranum. 

Áfram er stúdentum neitað um atvinnuleysisbætur og engin skref tekin til að gera barnabótakerfið sambærilegt við það sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum og þannig ákjósanlegra fyrir ungt fólk að ala upp börn á Íslandi. 

Á sama tíma eru sveitarfélög um land allt skilin eftir á köldum klaka og þar með neydd til uppsagna og niðurskurðar sem mun auka á atvinnuleysi og veikja nauðsynlega þjónustu í nærsamfélaginu. Velferðarþjónusta er þar undir og ýmsar fjárfestingar sveitarfélaga sem mega ekki við frestun. 

Fjárlögin eru að auki blaut tuska framan í ungt fólk sem kallað hefur eftir markvissari aðgerðum í loftslagsmálum. Ríkið mun verja minna en einu prósenti af vergri landsframleiðslu til slíkra aðgerða á næsta ári og aukin útgjöld til umhverfismála milli ára eru rétt um 0,1 prósent af vergri landsframleiðslu. Þar af fer stærstur hluti í ofanflóðasjóð sem er umfram allt mikilvægt almannavarnarmál en hefur lítið með loftslagsmál að gera. Þetta litla heildarframlag er vandræðalegt fyrir ríkisstjórn sem leidd er af flokki sem kennir sig við grænan lit og forsætisráðherra sem boðaði „græna byltingu“ í stefnuræðu sinni á Alþingi í gær.

Loks harma Ungir jafnaðarmenn að ríkisstjórnin skili auðu í því alþjóðlega verkefni sem móttaka flóttafólks er og að framlög til málaflokks umsækjenda um alþjóðlega vernd standi í stað. Ungir jafnaðarmenn kalla eftir skýrri ákvörðun um að Íslendingar sýni mannúð í heimi þar sem stríðsátök geisa og afleiðingar hamfarahlýnunar reka milljónir á flótta.

Ljóst er að endurbóta er þörf á nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og skora Ungir jafnaðarmenn því á þingmenn allra flokka að vinna saman að gagngerum breytingum á frumvarpinu, sem og þeirri gráu framtíðarsýn sem birtist í fjármálaáætlun til ársins 2025.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand