Stjórnmálaályktun landsþings Ungra jafnaðarmanna 2020

Frá landsþingi UJ 2020. Mynd: Hari

Stöðvum arðrán stórútgerðanna

Með milliverðlagningu á sjávarafurðum flytja sjávarútvegsfyrirtæki hagnað sinn til lágskattalanda og lækka þannig skiptahlut sjómanna og komast hjá eðlilegum skattgreiðslum á Íslandi. Ætla má að íslenskt samfélag verði af gríðarlegum fjármunum vegna þessara aðferða sem verða best lýst sem ráni um hábjartan dag. Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að stjórnvöld láti rannsaka söluvirði sjávarfangs og hve stór hluti raunverulegs söluhagnaðar skilar sér til Íslands.

Ungir jafnaðarmenn vilja ennfremur heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Núverandi veiðiheimildir verði afturkallaðar og þeim útdeilt aftur á markaðsvirði, með skýrum kvöðum um samfélagslega og umhverfislega ábyrgð og að sérstakt tillit verði tekið til smáútgerða í krókamarkskerfi með það að markmiði að efla samfélög á landsbyggðinni. Þá ítreka Ungir jafnaðarmenn stuðning sinn við nýja stjórnarskrá með skýru ákvæði um þjóðareign á auðlindum í samræmi við niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012.

Ungir jafnaðarmenn standa með fjölmiðlafólki og fordæma Samherja fyrir árásir fyrirtækisins á stéttina vegna fréttaflutnings um mútugreiðslur í Namibíu. Um er að ræða alvarlegar árásir stórfyrirtækis á frelsi fjölmiðla sem eiga ekki að viðgangast í lýðræðisríki.

Velferðarkerfi sem virkar

COVID-faraldurinn og efnahagslegar afleiðingar hans hafa varpað ljósi á stór göt í öryggisneti almannatryggingakerfisins. Ofan á heilsubrest og kvíða vegna heimsfaraldurs og áhyggjur af versnandi efnahagsástandi blasir atvinnuleysi og fjárhagsleg neyð við fjölda fólks.  Bregðast þarf við án tafar með hækkun grunnatvinnuleysisbóta og breytinga á reglum svo þær grípi líka fólk sem á takmörkuð eða engin réttindi innan núverandi kerfis .Þá þarf ríkissjóður að tryggja sveitarfélögunum nauðsynlegt fjármagn til að þau geti sinnt nauðsynlegri þjónustu við íbúa sína sem nú reynir á sem aldrei fyrr.

 Til framtíðar vilja Ungir jafnaðarmenn heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu með það markmið að ryðja úr vegi ýmsum þeim hindrunum, skilyrðingum, skerðingum, bið og eftirliti sem notendum er boðið upp á í dag. Almannatryggingakerfið á alltaf að vera til staðar, skilyrðislaust.

Leið norrænnar jafnaðarstefnu út úr atvinnuleysiskreppu felst í því að félagslegt réttlæti og ábyrg efnahagsstefna fari hönd í hönd – og það er rétta leiðin: Vinna, velferð og samstaða. Við vísum þeirri bábilju á bug að öflugt velferðarkerfi og traustar atvinnuleysistryggingar séu hindrun í vegi efnahagslegra framfara. Svo er ekki. Enda er alþekkt að margar þeirra þjóða sem leggja mest upp úr opinberu velferðarkerfi eru einnig meðal þeirra sem búa við mesta hagsæld.

Gerum launaþjófnað refsiverðan

Ungir jafnaðarmenn ávíta stjórnvöld fyrir að hafa ekki enn staðið við loforð, sem gefin voru í tengslum við undirritun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði árið 2019, um að gera kjarasamningsbrot á borð við launaþjófnað refsiverðan. Launaþjófnaður er samfélagsmein sem bitnar helst á fólki sem hefur ekki verið kynnt fyrir réttindum sínum eða hefur ríkt tilefni til að óttast afleiðingarnar af því að láta í sér heyra sökum valdaójafnvægis á vinnustað. Stór hluti þessa hóps er fólk af erlendu bergi brotið og ýtir þetta því undir ójöfnuð í samfélaginu.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand