Gott og vont á Alþingi

Þegar ég var að renna yfir einn vefmiðilinn um daginn, rakst ég á tvær stuttar fréttir af þingstörfunum. Önnur var um að Geir Haarde fjármálaráðherra hefði lagt fram frumvarp um afnám sjómannaafsláttar – hin var um breytingar á lífeyrisréttindum þingmanna og hækkun á þingfararkaupi í vissum tilvikum. Fyrri fréttin vakti hrifningu mína. Hin síðari ekki. Þegar ég var að renna yfir einn vefmiðilinn um daginn, rakst ég á tvær stuttar fréttir af þingstörfunum. Önnur var um að Geir Haarde fjármálaráðherra hefði lagt fram frumvarp um afnám sjómannaafsláttar – hin var um breytingar á lífeyrisréttindum þingmanna og hækkun á þingfararkaupi í vissum tilvikum. Fyrri fréttin vakti hrifningu mína. Hin síðari ekki.

Gott hjá Geir!
Þeir sem lásu grein mína um sjómannaafslátt sem birtist hér á Pólitík.is um daginn vita að ég fagna mjög framlagningu frumvarpsins um afnám hans á árunum 2005-2008. Sjómannaafslátturinn er arfleifð gamalla tíma – hann er í raun ekkert annað en niðurgreiðsla til útgerðarinnar og veigamikil undantekning frá því jafnræði sem á að ríkja í skattkerfinu. Afslátturinn kostar ríkissjóð um 1,2 milljarða króna á ári – það gerir 24 milljarða á 20 árum (án vaxta).

Eins og bent er á í greinargerð með frumvarpi um afnám sjómannaafsláttar á að fara að leggja af hátekjuskatt á næstu árum. Þar sem fjölmargir sjómenn greiða hátekjuskatt munu þeir finna minna fyrir skerðingu afsláttarins en ella. Svo er auðvitað að vona að útgerðarmenn hækki laun sjómanna myndarlega og komi þannig til móts við skerðingu sjómannaafsláttarins.

Ég kemst ekki hjá því að hrósa Geir Haarde fyrir að hafa þor til að leggja þetta frumvarp fram – það hafa fáir þorað að gera frá því að afslættir af þessum toga voru teknir upp árið 1954 og engum auðnast að fá slík frumvörp samþykkt. Svo er bara að vona að peningarnir sem sparast renni í að lækka skatta eða bæta þjónustu en ekki beint inn í ríkishítina og gufi þar upp.

En vont hjá þinginu…
Aftur á móti hryggði það mig að sama skapi mjög að sjá frétt um áformaðar breytingar á lífeyrisréttindum alþingismanna og ráðherra, sem allir þingflokkar standa að. Meðal breytinga sem á að gera er að eftirleiðis á að duga fyrir forsætisráðherra að sitja í embættinu í eitt ár til að fá 60% eftirlaun! Þetta eru réttindi sem tekur almennt launafólk áratugi að vinna sér inn. Almennt sýnist mér að ætlunin sé að rýmka lífeyrisréttindi æðstu stjórnenda, þótt vissulega sé rétt að eftirlaunaréttur þingmanna sem hafa setið kringum 5-18 ár á þingi skerðist nokkuð. Þykir mér miður að ætluin sé að bæta réttindi sumra – ég hefði talið eðlilegt að sömu reglur giltu um það hvernig menn ávinna sér lífeyrisréttindi á Alþingi eins og annars staðar hjá ríkinu.

Ef alþingismenn meta það svona mikils að fá háan lífeyri þegar þeir eru orðnir gamlir, þá eiga þeir einfaldlega að láta tryggingastærðfræðinginn, og formann efnahags- og viðskiptanefndar þingsins, Pétur H. Blöndal, reikna út hvað þeir þurfa að greiða há iðgjöld til þess að öðlast slík réttindi. Ég veit ekki hversu há þau þyrftu að vera – allavegana örugglega miklu hærri en þau 5% sem reiknað er með í frumvarpinu.

Formenn stjórnmálaflokka á launum hjá ríkinu?
Og svo eru það breytingar á þingfararkaupinu. Meðal þess sem þar er lagt til er að formenn stjórnarandstöðuflokkanna fái sérstakt 50% álag á þingfararkaup. Ég verð bara að segja hreint út að ég tel þetta ekki eðlilegt. Þarna er í raun verið að greiða formönnum stjórnmálaflokkanna laun úr ríkissjóði. Ef talið er æskilegt að launa fólki fyrir að gegna formennsku í stjórnmálaflokki ættu flokkarnir að gera það en ekki ríkið.

Bætum þjónustu – lækkum skatta
Sérstök lífeyrisréttindi æðstu ráðamanna kosta íslensku þjóðina afar mikið. Örugglega milljarða króna, ef ekki milljarðatugi þegar til lengri tíma er litið. Ég hef miklu meiri áhuga á að allir njóti jafnræðis og fái greitt úr lífeyrissjóðum í samræmi við það sem þeir leggja til þeirra – að fjármunum ríkisins sé ekki varið í sérhagsmunagæslu heldur í að bæta almannaþjónustu og lækka skatta. Þess vegna legg ég til að alþingismenn felli frumvarp um aukin réttindi sumum þeirra til handa; hætti að mylja undir sjálfa sig en snúi sér að því sem þeir voru kjörnir til 10. maí síðastliðinn: Að bæta kjör fólksins í landinu.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand