,,Hvað með það þótt tveir valdabrjálæðingar hafi sett Ísland á lista yfir hinar vígfúsu þjóðir? Hvað með það þótt ráðherrar brjóti ítrekað jafnréttislög? Hvað með það þótt dómsmálaráðherra geri lítið úr lögum landsins og velji sjálfur hvaða lögum hann fylgir? Hvað með það þótt launamunur kynjanna sé hinn mesti hér í Evrópu? Hvað með það þótt reiðir stjórnmálamenn noti löggjafann sem vopn til að ná sér niður á fyrirtækjum sem þeim ekki þóknast? Hvað með það þótt ríkisstjórnin hafi skilið aldraða og öryrkja eftir í góðærinu?“ Segir Tómas Kristjánsson í grein dagsins.
Gleðilegt sumar landsmenn! Nú verður vart gengið tvö skref án þess að einhver komi að manni óski manni gleðilegs sumars, með bros á vör, gott ef faðmlag fylgir ekki í kjölfarið. Já, sumarið er gengið í garð og þótt ótrúlegt megi virðast er ekki haglél heldur heiður himinn og sólskin. Skrúðgöngur með tilheyrandi lúðrablæstri, leiktæki og litlar sumargjafir boða sumarið fyrir börnin. Fullorðna fólkið gleðst yfir lengri degi og að það hafi komist undan skammdegisþunglyndinu eitt árið enn. Nú skal grillið tekið fram, keðjan smurð á ryðguðu hjólinu og golfsveiflan er æfð fyrir framan baðherbergisspegilinn.
Þetta er svo sannarlega góður dagur, fullur af von og bjartsýni. Allt er það jú gott og blessað. Það er bara verra hvað þessi yfirmáta bjartsýni virðist smita útfrá sér í heilanum og laska alvarlega minnið okkar. Nú eru eingöngu 23 dagar til kosninga og allt í einu virðist sem fólk sé farið að gleyma síðasta áratug. Ættingjar sem í hverju fjölskylduboðinu á eftir öðru voru búnir að skella niður kaffibollanum og lýsa því yfir með lúðrablæstri að nú væri nóg komið, þeir mundu ekki láta vaða svona yfir sig eina ferðina enn. Þeir eru allt í einu smitaðir af gleymskuveiru sumarsins og með bros á vör lýsa þeir því yfir að það sé nú allt á svo góðri braut og góðærið sé í fullum gangi. Óþarfi sé að breyta einhverju.
Já, þetta eru sömu ættingjar og fyrir aðeins tveimur mánuðum úthúðuðu hinu misskipta góðæri á þorrablótinu heima í stofu.Útlistaði það hvernig skattalækkanirnar hefðu snilldarlega sveigt framhjá vasa þeirra og hvernig þeir þyrftu að vinna enn harðar nú en fyrir 10 árum til að veita fjölskyldu sinni sómasamleg lífskjör. Héldu áfram og skáluðu í brennivíni þar sem skálræðan gekk út á lýsingar í smáatriðum á því hvernig ríkisstjórnin hefði svikið öryrkja og stungið þá í hjartað eingöngu til þess að við áttuðum okkur ekki á því að verið væri að stinga okkur í bakið með ásanngjörnum skattalækkunum.
En það er komið sumar, hættum þessu væli, segja þeir nú. Hvað með það þótt tveir valdabrjálæðingar hafi sett Ísland á lista yfir hinar vígfúsu þjóðir? Hvað með það þótt ráðherrar brjóti ítrekað jafnréttislög? Hvað með það þótt dómsmálaráðherra geri lítið úr lögum landsins og velji sjálfur hvaða lögum hann fylgir? Hvað með það þótt launamunur kynjanna sé hinn mesti hér í Evrópu? Hvað með það þótt reiðir stjórnmálamenn noti löggjafann sem vopn til að ná sér niður á fyrirtækjum sem þeim ekki þóknast? Hvað með það þótt ríkisstjórnin hafi skilið aldraða og öryrkja eftir í góðærinu? Hvað með það þótt fangelsi hafi yfirfyllst? Hvað með það þótt alþingismenn skrifi smá dúk á kostnað skattgreiðanda? Hvað með það þótt stóriðjuáformum sé ýtt í gegn af þvílíku offorsi að enginn veit lengur hvað er verið að tala um mörg álver? Hvað með það þótt biðlistar á sjúkrahúsum hafi aldrei verið lengri? Hvað með það þótt við veitum fé eftirlitslaust í stofnanir þar sem vitað var að fjármál (og fleira) var í ólestri? Hvað með það þótt umboðsmaður Alþingis komi ítrekað með athugasemdir um brot ríkisstjórnarinnar? Hvað með það þótt við sviptum fólki ferðafrelsi og rétti til að mótmæla? Þetta voru jú stórhættulegir Falun Gong liðar. Hvað með það þótt við verjum aðeins fjórðungi af því sem við höfum lofað í þróunaraðstoð? Við þurfum jú peninginn til að byggja öll álverin.
En hey, það er komið sumar, setjum upp brosið, gleymum síðustu þremur kjörtímabilum og vonum það besta.
Gleðilegt sumar!