Get ekki beðið eftir að unga fólkið taki völdin

Ávarp formanns í Jöfn og frjáls, málgagni Ungra jafnaðarmanna vorið 2018.

Málþóf miðaldra karla

Fyrr í vor komst frumvarp um lækkun kosningaaldurs til umræðu á Alþingi. Lækkun kosningaaldurs hefur verið baráttumál Ungra jafnaðarmanna um árabil, en síðustu ár hafa æ fleiri samtök tekið málið upp, og munar þar mest um Landssamband ungmennafélaga og fjölmörg aðildarfélög þess. Ungliðahreyfingar allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi og starfrækja ungliðahreyfingar styðja lækkun kosningaaldurs og er það ekki í mörgum málum sem slík þverpólitísk samstaða næst. Samstaða samtaka ungs fólks um málið náði þó ekki til Alþingis. Þó flutningsmenn frumvarpsins hafi komið frá hinum ýmsu flokkum klauf frumvarpið nokkra þingflokka og afgreiðsla málsins varð æsispennandi. Málið slapp í gegnum aðra umræðu en þegar kom að þriðju og síðustu umræðu stöðvuðu örfáir þingmenn málið með málþófi. Alger tilviljun er auðvitað að þessir þingmenn voru helst karlar komnir á eða yfir miðjan aldur. Þeir unnu þessa orrustu og komu í veg fyrir að 16 og 17 ára ungmenni geti kosið í sveitarstjórnarkosningunum 26. maí næstkomandi. Það verður afturhaldssinnunum hins vegar skammgóður vermir, því lýðræðisvakning ungs fólks er komin á fullt skrið.

Ætlar engin að hugsa um börnin?

Í umræðunum um lækkun kosningaaldurs á Alþingi um daginn tók einn andstæðingur frumvarpsins þann pól í hæðina að það ætti fyrir alla muni að leyfa börnunum að vera börn í friði. Merkilegt nokk blikkar enginn auga yfir því að þessi sami aldurshópur, þ.e. 16-17 ára börn séu almennt komin út á vinnumarkaðinn, búin að klára skyldunám og hafi þurft að velja sér sjálf framhaldsnám, séu sakhæf og skattskyld og farin að taka ábyrgð á sjálfum sér undir stýri á bíl. En ómægod, látið þau í friði frá pólitík! Fyrir utan það skaðlega viðhorf til stjórnmála sem í þessum málflutningi birtist, þá felst í þessu viðkvæði fyrst og fremst ósk um að ungmenni fái að vera „í friði fyrir“ því að hafa rödd og áhrif á samfélagið sitt en kæra Inga Sæland, sá friður er úti.

Vakning unga fólksins

Baráttan um lækkun kosningaaldurs fæddist ekki í tómarúmi. Síðustu ár hefur merkileg þróun átt sér stað. Víða um land eru nú starfrækt ungmennaráð, þar sem ungmenni á grunn- og framhaldsskólaaldri hafa beina aðkomu að stjórnkerfi sveitarstjórna. Í fjölmörgum framhaldsskólum og m.a.s. nokkrum grunnskólum hafa verið stofnuð femínistafélög — eitthvað sem hefði þótt óhugsandi fyrir ekki svo mörgum árum síðan. Feminískar samfélagsmiðlabyltingar eins og #freethenipple, #konurtala, #þöggun, #6dagsleikinn o.fl. voru bornar uppi af ungum konum, og það sama má segja um Druslugönguna, sem fylkir núna þúsundum manna á ári hverju niður Skólavörðustíginn til að skila skömminni til gerenda ofbeldis. Allt skipulagt af ungum konum. Í krafti Landssambands ungmennafélaga og Sambands íslenskra framhaldsskólanema er nú verkefnið #ÉgKýs orðið viðtekin venja fyrir kosningar (þrisvar á jafnmörgum árum núna), þar sem lýðræðisvika er haldin í flestum framhaldsskólum og skuggakosningar haldnar. Skuggakosningarnar eru framkvæmdar að fullu af nemendafélögum skólanna, og taka ungmennin þannig fulla ábyrgð á þessu metnaðarfulla lýðræðisverkefni. Það er í þessu umhverfi sem lækkun kosningaaldurs kemst á dagskrá.

Þegar við þetta allt saman bætist að kynslóðin sem nú er á ungmennaaldri og þar fyrir neðan er frjálslyndari og víðsýnni en líklegast nokkur önnur kynslóð hingað til, þá getur maður nú bara ekki beðið eftir því að unga fólkið taki sæti miðaldra afturhaldsseggjanna á Alþingi.

Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, formaður Ungra jafnaðarmanna

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand