Gerum launakerfi æðstu ráðamanna gagnsætt

Alþingismenn hafa nú samþykkt töluverðar breytingar á lífeyrisréttindum sínum. Sumt af þessum breytingum leiðir til niðurskurðar miðað við þau útgjöld sem ella hefðu orðið – annað til útgjaldaaukningar. En hvort heldur sem er finnst mér óeðlilegt að alþingismenn skuli njóta miklu meiri lífeyrisréttinda en aðrir landsmenn. Alþingismenn hafa nú samþykkt töluverðar breytingar á lífeyrisréttindum sínum. Sumt af þessum breytingum leiðir til niðurskurðar miðað við þau útgjöld sem ella hefðu orðið – annað til útgjaldaaukningar. En hvort heldur sem er finnst mér óeðlilegt að alþingismenn skuli njóta miklu meiri lífeyrisréttinda en aðrir landsmenn.

Ráðherrar með 80% launauppbót?
Í umræðunni í þjóðfélaginu undanfarna daga hefur því verið fleygt að lífeyrisréttindi alþingismanna megi meta til 40% kaupauka og lífeyrisréttindi ráðherra til 80% kaupauka. Ég sel þessar tölur ekki dýrari en ég keypti þær, en eflaust eru þær ekki fjarri lagi. Þótt alþingismenn greiði nú 5% af launum sínum í lífeyrissjóð, en ekki 4% eins og flestir, dugar það alls ekki til að réttlæta þau miklu betri réttindi sem þeir njóta en aðrir að þessu leyti.

Kerfið á ekki að bjóða upp á blekkingar
Ég er þeirrar skoðunar að sem flest hjá hinu opinbera eigi að vera skýrt, opið og gagnsætt. Að launakerfi, skattkerfi og bótakerfi eigi að vera byggð upp með þeim hætti að almenningur skilji og ekki sé auðvelt að blekkja fólk með talnaleikjum og útúrsnúningum. Launakjör æðstu ráðamanna, sem að verulegu leyti eru falin í stórgóðum lífeyrisréttindum, eru þess vegna andstæð þessari meginhugsun minni. Auk þess sem þessi kjör eru ekki sambærileg við það sem gerist og gengur í þjóðfélaginu og þannig til þess fallin að valda því að æðstu stjórnendur fjarlægist fólkið í landinu.

Þess vegna tel ég að við ættum að breyta launakerfi æðstu stjórnenda þannig að lífeyrisréttindi þeirra verði sambærileg því sem gerist á almennum markaði, en í staðinn ættum við að hækka laun þeirra nokkuð. Þá myndu allir vita að 1 milljón í mánaðarkaup hjá ráðherra væri það sama og 1 milljón hjá framkvæmdastjóra úti í bæ – en ekki miklu meira eins og núna.

Eitt þingfararkaup, engar sporslur
Við eigum líka að hætta að veita alþingismönnum alls konar sporslur, eða að greiða sumum meira en öðrum eftir búsetu; þingfararkaupið eitt ætti að vera það hátt að það dygði. Okkur ber einnig að varast að greiða alþingismönnum sérstaklega fyrir nefndarsetu. Það ýtir bara undir að þeir vilji búa til nefndir til að auka tekjur sínar. Nefndir sem oft á tíðum er engin þörf á að starfrækja. Þá eigum að gæta þess að skilja vel á milli þess sem eru störf fyrir flokkana og þess sem telst til starfa fyrir þingið. Það er að mínu mati fráleitt að Alþingi greiði formönnum stjórnmálaflokka laun fyrir störf sín. Alveg eins og mér þætti út í hött að Alþingi greiddi Gunnari I. Birgissyni 50% álag á þingfararkaup á þeirri forsendu að hann væri undir svo miklu álagi sem formaður bæjarráðs Kópavogs. Sjái menn ástæðu til að greiða formönnum stjórnmálaflokka laun, eiga þau laun að greiðast af flokkunum, en ekki Alþingi.

Hvers vegna ekki einfaldleika?
Lesendur þessarar greinar geta svo velt því fyrir sér, svona í aðdraganda jólanna, hvers vegna á því stendur að æðstu ráðamenn eru ekki tilbúnir að gera breytingar eins og þær sem ég boða hér að ofan? Skyldi það vera vegna þess að þeir telja að framangreindar breytingar séu í andstöðu við þjóðarviljann? Eða skyldi það vera vegna þess að þeir hafa ekki áhuga á gagnsæi og opnu stjórnkerfi? Oft er nefnilega hægt að leita sér skjóls í frumskógum og flækjum flókins kerfis sem fáir skilja – og skara þannig eld að eigin köku.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand