GERUM KAUP Á VÆNDI REFSIVERÐ – Vændi, mansal og klámvæðing

GERUM KAUP Á VÆNDI REFSIVERÐ – Vændi, mansal og klámvæðing Ungir jafnaðarmenn vilja að kaup á vændi verði gerð refsiverð. Slík löggjöf myndi gera verknað kaupandans saknæman í stað þess að einblínt sé á verknað einstaklingsins sem selur sig. Jafnframt verður að nema úr lögum ákvæði um að vændi sér til framfærslu teljist refsivert. Slíkt er félagsneyð sem bregðast á við með félagslegum úrræðum. Við erum ein Norðurlandaþjóða með þess háttar ákvæði í löggjöfinni.

Ungir jafnaðarmenn telja óforsvaranlegt að hægt sé að nota, kaupa eða selja líkama annarrar manneskju. Fólk er ekki varningur. Í vændi hefur kaupandi kynlífs öll völdin; hann getur valið hvort hann kaupir sér kynlíf eður ei. Það er eftirspurnin sem skapar framboðið í þessu tilviki, en ekki öfugt. Sá sem selur líkama sinn hefur að jafnaði ekki slíkt val eða hefur svo brotna sjálfsmynd og á í svo miklum erfiðleikum að hann sér ekki valkostina. Flestar vændiskonur hafa til að mynda bakgrunn í mjög erfiðum félagslegum og efnahagslegum aðstæðum og samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna hafa 50 – 80% þeirra verið misnotuð kynferðislega í æsku.

Það er merkilegt að því meira sem jafnrétti er kynja á milli þeim mun minna finnst af konum sem neyðast til að selja líkama sinn öðrum til nota. Af því má í raun leiða að því fleiri leiðir sem eru opnar konum í atvinnulegum og félagslegum skilningi þeim mun minni líkur eru á að þær neyðist til að selja líkama sinn. Okkar félagslega kerfi á að vera nægilega burðugt til þess að fólk í verulegum vanda geti leitað aðstoðar en þurfi ekki að neyðast til að selja líkama sinn (öðrum) í kynlífsþjónustu, sjálfri sér og á stundum börnum sínum til framfærslu.

Heyrst hefur sú krafa að best sé að leyfa vændi alfarið, kaup og sala á líkamanum sé eðlileg á hinum frjálsa markaði. Slíkum hugmyndum hafna Ungir jafnaðarmenn. Manneskjan sjálf er ekki og má aldrei verða markaðsvara. Vandamál hafa ekki minnkað í þeim löndum þar sem vændi hefur verið lögleitt. Í Queensland í Ástralíu var þessi leið farin en reynslan af því varð til þess að vændi var snarlega aftur bannað. Vændi jókst umtalsvert, bæði löglegt vændi og ólöglegt. Með öðrum orðum: Undirheimabrask margfaldaðist í þessum viðskiptum og þá sérstaklega barnavændi. Þá jókst mansal umtalsvert en ofbeldi og misnotkun á vændiskonum og -körlum minnkaði ekki. Í raun myndast tveggja laga kerfi, þar sem stór hluti seldra einstaklinga er misnotaður en á sama tíma er vændið viðurkennt félagslega. Í Hollandi, þar sem vændi er löglegt, er talið að bróðurpartur vændiskvenna sé fluttur inn af pólsku og rússnesku mafíunni og er því í raun hluti af mansali.

Í Svíþjóð, þar sem skýrt er að kaup vændis séu ólögleg, hefur sýnilegt vændi á hinn bóginn minnkað að miklu leyti og þeir sem stunda mansal forðast svæðið. Þá getur einstaklingur sem selur sig leitað réttar síns, ef á honum er brotið, án þess að eiga á hættu að vera gerður refsiábyrgur. Jafnframt er rétt að nefna að hjá Svíum er vændi ekki refsivert frekar en annars staðar á Norðurlöndunum – undantekningin er Ísland. Rök andstæðinga þessara laga eru að vændi minnki ekki heldur færist bara í undirheima. En það gerist einnig þar sem vændi er lögleitt alfarið, meira að segja í mun meiri mæli samhliða stóraukningu í barnavændi. Í Svíþjóð er þó aftur á móti skýrt hver afstaða ríkisvaldsins er; vændi er misnotkun. Ungir jafnaðarmenn telja að við eigum að fylgja fordæmi Svía í þessum efnum.

Mansal verði sérgreint brot í almennum hegningarlögum
Ungir jafnaðarmenn vilja að verslun með fólk verði gerð að sérgreindu broti í almennum hegningarlögum og slík verslun sæti þungri refsingu.

Mansal er ein hin mesta vá í nútímasamfélagi og er talið að sá markaður velti meiru en fíkniefnamarkaðurinn á ári hverju. Mansal er þrælahald þar sem konur, karlar og börn eru seld í kynlífsþjónustu. Þrælasala á ekki að líðast í nútímasamfélagi.

Í íslenskri löggjöf er verslun með fólk ekki skilgreind sem sérstakt brot þótt nokkur ákvæði taki til slíkra brota eins og ákvæði er fjallar um vændismiðlun, svo og frelsissviptingu og hótanir þar um. Nauðsynlegt er að mansal verði gert að sérgreindu broti til að geta tekist sérstaklega á við þá vá sem það er.

Einnig vekja Ungir jafnaðarmenn athygli á nauðsyn þess að hafa virk úrræði fyrir fórnarlömb mansal svo að þau geti óhikað leitað sér aðstoðar án þess að þurfa að óttast um að vera umsvifalaust send úr landi ef þau eru ólöglega stödd í landinu eða ef dvalar- eða vinnuleyfi þeirra er útrunnið. Þá eru þau send aftur til heimabyggða þar sem mansalar læsa fljótt klónum í þau á nýjan leik. Þó er hér ekki átt við varanlegt landvistarleyfi heldur grunnaðstoð við fórnarlömb svo að þau lendi ekki strax aftur í sömu aðstöðu. Mikilvægt er að vernd fyrir þennan hóp sé skýr í lögum. Þá verður að tryggja fórnarlömbum lögfræði-, læknis- og sálfræðiaðstoð, sem og aðra félagsþjónustu.

Staðið verði gegn sívaxandi klámvæðingu
Ungir jafnaðarmenn vara við þeirri verulegu klámvæðingu sem orðið hefur á Íslandi á undanförnum árum þar sem kynlíf og kynlífstengd atriði eru í vaxandi mæli gerð að söluvöru.

Þó telja Ungir jafnaðarmenn að erótískt efni megi vera aðgengilegt fullorðnu fólki sem vill nálgast það. Þar er átt við efni sem sýnir ekki athæfi sem er ólöglegt í sjálfu sér, svo sem barnaklám, dýraklám, ofbeldi o.s.frv. Annað erótískt efni skal vera fullorðnum löglegt að selja, kaupa og eiga.

Ungir jafnaðarmenn fagna þeirri ákvörðun ýmissa sveitarstjórna að leggja bann við hinum svonefnda einkadansi og sporna þannig við sívaxandi þróun í átt til aukinnar sölu á kynlífstengdri þjónustu. Leyfi til að selja einkadans hefur ekkert með frelsi að gera nema ef vera skyldi frelsi til að nýta sér neyð annarra.

Ungir jafnaðarmenn telja jafnframt nauðsynlegt að fjölmiðlar haldi vöku sinni gagnvart sívaxandi framboði af efni sem gerir út á klám og klámtengdum skírskotunum á almannafæri og innprentar fólki, sér í lagi ungu fólki, brenglaðar ímyndir um samskipti kynjanna, kynlífshegðun og félagslega hegðun.

Börn eru ekki kynverur
Ungir jafnaðarmenn gagnrýna harðlega þá kynferðisvæðingu barna sem birtist í sívaxandi mæli í fjölmiðlum þar sem ýtt er undir kynþokka barna eða fullvaxta fólk sýnt á kynferðislegan máta í gervi barna. Þessi kynferðisvæðing barna heldur við brengluðum ímyndum um börn sem kynferðisverur og eru til þess fallnar að skýla og viðhalda misnotkun gegn börnum. Ungir jafnaðarmenn hvetja fjölmiðla til að hafna slíku efni.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið