Friðarsamkoma í Austurbæ

,,Setjum okkur í smástellingar og reynum að gera okkur í hugarlund hvernig það er að þurfa að búa við eilífan ótta – að geta ekki gengið um götur án þess að þurfa að óttast limlestingar og harmkvæladauða við hvert fótmál, að þurfa stöðugt að óttast sáran ástvinamissi, að þurfa hvað eftir annað að horfa upp á ægilegar þjáningar meðborgara sinna, að lifa – og deyja – í sannkölluðu helvíti á jörðu.“ Segir Þórður Sveinsson formaður Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði í grein dagsins.
Hún var vel heppnuð, samkoman sem hinir staðföstu stríðsandstæðingar, það er Samtök hernaðarandstæðinga og fleiri friðarsamtök ásamt Ungum jafnaðarmönnum og Ungum Vinstri-grænum, stóðu fyrir á mánudagskvöldið. Samkoman sýndi að fólk hefur engu gleymt og að andstaðan gegn Íraksstríðinu og veru Íslands á lista hinna viljugu þjóða er hvergi tekin að réna.

Davíð Þór Jónsson var fundarstjóri og stóð sig í stykkinu – rétt eins og fyrri daginn. Þá fluttu þau Guðfríður Lilja Grétarsdóttir frá Vinstri-grænum og Helgi Hjörvar frá Samfylkingunni erindi. Báðum mæltist firnavel og náðu vel til áheyrenda. Áherslur þeirra voru eilítið ólíkar. Guðfríður nálgaðist málið fyrst og fremst út frá því hversu miklar þjáningar innrásin í Írak hefur haft í för með sér, en Helgi fór einnig inn á það hvernig samvinna milli þjóða – alþjóðavæðing – getur orðið til að girða fyrir stríðshörmungar.

Ekki er ég alltaf hlynntur alþjóðavæðingu, það er þegar hún birtist í því að ríku þjóðirnar tryggja sér markaði í þróunarlöndunum og komast yfir auðlindir þeirra á spottprís en þróunarlöndin komast ekki inn á markaði ríku þjóðanna sem beita niðurgreiðslum og tollum til að vernda innlenda framleiðslu.

Í þessum efnum held ég raunar að Helgi sé mér hjartanlega sammála. Hins vegar er til önnur tegund af alþjóðavæðingu sem byggist á jafnræði þjóða og samvinnu. Evrópusambandið er gott dæmi um slíkt.

Ekki er ég þó viss um að allir sem mættu í Austurbæ séu miklir Evrópusinnar. Flest var þetta fólk nú til vinstri í stjórnmálum, en skoðanir á Evrópusambandinu eru nokkuð skiptar innan þess hóps.

Um það voru hins vegar ekki skiptar skoðanir að tónlistaratriðin á samkomunni voru vel heppnuð. Af tónlistarmönnum kom fyrst fram Ólöf Arnalds sem heillaði fólk upp úr skónum með einstaklega einlægum söng og fallegum lögum. Ég að minnsta kosti var alveg heillaður. Þessi stúlka – sem ég vissi ekki einu sinni hver var fyrir samkomuna – er gríðarlegur talent. Hún minnir mig pínulítið á Megas eins og hann var á fyrstu plötunni sinni – vegna órafmagnaðrar tónlistarinnar og líka vegna raddbeitingarinnar.

Nú kannski glottir einhver. Stúlka sem syngur eins og Megas? Og já, auðvitað er mikill munur á söngstíl Ólafar Arnalds og Megasar. Angurværðin í röddu Ólafar er svolítið ólík kaldhæðninni í röddu Megasar. Samt finnst mér þau tvö eiga sitthvað sameiginlegt.

En að hinum tónlistaratriðunum. Þarna komu sem sagt einnig fram Villi naglbítur og XXX rottweilerhundar. Naglbíturinn spilaði lög af sólóplötu sem kemur út fljótlega og var bara fjári góður. Hann söng á ensku og ætlar sér augljóslega frama á erlendri grundu. Aldrei að vita nema það takist hjá honum.

Hundarnir röppuðu hins vegar á hinu ástkæra, ylhýra og sýndu það og sönnuðu að íslensk tunga á vel heima í rapptónlist. Eiginlega voru þeir bara drullugóðir – einhver svona frumkraftur brýst fram í öllu sem þessir herramenn taka sér fyrir hendur.

Hið sama finnst mér eiga við um skáldsögur Braga Ólafssonar, en hann kom og las upp kafla úr síðustu skáldsögu sinni, Sendiherranum. Það er eitthvað alveg mjög sérstakt við ritverk Braga. Stíllinn hans er laus við flúr og hann orðar hlutina hversdagslega – án þess þó að þeir séu á nokkurn hátt hversdagslegir! Allt sem maðurinn skrifar er kynngimagnað og uppfullt af einhverjum fáránlegum töfrum! Sem sagt, hrein snilld!

Það var líka frábær upplifun að hlusta á Braga lesa og eins og einn framámaðurinn meðal friðarsinna sagði við mig síðar um kvöldið er upplestur vanmetinn.

En sem sagt: Þessi samkoma var gríðarlega vel heppnuð og aðstandendum hennar til mikils sóma. Því miður mun hún – ein og sér – hins vegar ekki verða til þess að draga úr hinum hryllilegu þjáningum fólksins í Írak sem hinir staðföstu stríðssinnar hafa kallað yfir hana.

Setjum okkur í smástellingar og reynum að gera okkur í hugarlund hvernig það er að þurfa að búa við eilífan ótta – að geta ekki gengið um götur án þess að þurfa að óttast limlestingar og harmkvæladauða við hvert fótmál, að þurfa stöðugt að óttast sáran ástvinamissi, að þurfa hvað eftir annað að horfa upp á ægilegar þjáningar meðborgara sinna, að lifa – og deyja – í sannkölluðu helvíti á jörðu.

Já, reynum að gera okkur þetta allt í hugarlund. Reynum síðan hvert og eitt að beita okkur í þágu friðar og gegn stríði. Ef nógu margir reyna að vinna þeim málstað gagn og eru nógu staðfastir í þeirri viðleitni sinni er nefnilega vel mögulegt að eitthvað takist að bæta þennan heim.

Við erum jú ekki eins áhrifalaus og sumir kannski halda.

Greinin birtist í dag á vefriti Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði – Mír.is

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand