Frelsið

Eitt af því sem stjórnmálamenn nota óspart í vinsældabaráttunni sem pólitík er, eru stór og mikil orð. Skrýtin orð, löng orð, orð sem hrífa, gleðja, hræða, orð sem enginn skilur, ekki einu sinni þeir sjálfir. Eitt þeirra er orðið frelsi. Eitt af því sem stjórnmálamenn nota óspart í vinsældabaráttunni sem pólitík er, eru stór og mikil orð. Skrýtin orð, löng orð, orð sem hrífa, gleðja, hræða, orð sem enginn skilur, ekki einu sinni þeir sjálfir. Eitt þeirra er orðið frelsi.

En hvað, og hvar, er þá þetta frelsi?
Hvernig er hægt að skilja jafn óáþreifanlegt hugtak og frelsið? Ég ákvað að reyna; spurði orðabókina og hún sagði að frelsi þýddi sjálfstæði. Þá vildi ég fá nánari skilgreiningu á því og fékk hana: sjálfstæði þýðir að vera óháður öðrum. Og samkvæmt orðabókinni góðu þýðir það síðan að vera frjáls eða sjálfstæður – og þá er ég komin aftur á byrjunarreit. Þetta segir mér að frelsið sé erfitt að útskýra, ef til vill verður hver að gera merkingu þess upp við sig sjálfur. Eitthvað hlýtur það samt að vera við þetta frelsi, því að allir þrá það, flestir hafa einhverja skoðun á því hvað það er og sumir segjast meira að segja geta veitt öðrum það. En hvað, og hvar, er þá þetta frelsi?

Frelsi á 500 kall – George Bush á líka nóg af frelsi
Ég veit að maður getur keypt það úti í sjoppu. Það kostar 500 krónur og maður fær svona lítið plastspjald með númeri. Þegar frelsið er uppurið er svo lítið mál að tölta á ný í sjoppuna og kaupa meira frelsi. George Bush á líka nóg af frelsi, já, svo mikið að það var nóg til að frelsa heila þjóð. Hugsið ykkur, bara sisvona og alveg óbeðinn – þvílíkur eðaldrengur! Að ekki sé minnst á hans eigin þjóð sem býr í Bandaríkjunum, frjálsasta landi í heimi. Þar er allt til alls: lýðræði (að nafninu til) og ekki (sjálfskipaður) einræðisherra heldur (nokkurn veginn) þjóðkjörinn forseti, ekkert stríð (á yfirborðinu) síðan frelsisstríðið var og hét, vel upplýstur lýður (flestir gætu meira að segja bent á Bandaríkin á heimskortinu!) og í þessu blessaða landi búa allir (sem eiga peninga) við jafnrétti. Þarna finnur maður sko frelsið – eða hvað?

Getur samfélagið nokkuð verið sterkara en veikasti hlekkur þess?
Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að merking orðsins frelsi sé mörgu fólki og jafnvel heilu samfélögunum töpuð. Þetta hugtak er svo ofnotað að fólk er orðið frelsisfirrt. Bandaríkjamenn kalla sig frjálst samfélag, og vissulega eru þeir sjálfstæðir sem þjóð, en hve langt nær það? George Bush segir löndum sínum örugglega að þeir séu frjálsir, en í kapítalísku samfélagi eins og því bandaríska, þar sem eignarrétturinn er heilagur, er auðvelt að vera fangi eigin langana – sem endalaus leit margra að ameríska draumnum ber vitni um. Í Bandaríkjunum og öðrum löndum hins vestræna heims, þar á meðal Íslandi, eru peningar nefnilega frelsi. Þar höfum við það. Það er frelsi að eiga hús og bíl og sjónvarp og annan bíl og 5 sjónvörp í viðbót og hjól fyrir milljón og svo mikinn pening að maður á meira en hjónin í næsta húsi! Frelsið er orðið efnislegt og það er falt fyrir peninga. Hvað með vaxandi stéttaskiptingu í vestrænum samfélögum, hvað með allt fólkið sem verður undir í peningarallinu, fólkið sem getur ekki keypt sér líftryggingu eða lyf, fólkið sem hefur svo litlar tekjur að það getur ekki sent börnin sín í dýru einkaskólana? Er það fólk frjálst? Og það sem meira er – getur samfélagið nokkuð verið sterkara en veikasti hlekkur þess?

Læra, skilja, vita, segja, geta
Frelsið er svo margt annað en peningar – ef til vill felst frelsið einmitt í því að vera ekki fangi peninganna og fangi dauðra hluta sem samfélagið telur manni trú um að séu nauðsynlegir. Frelsi hlýtur að vera það að búa við jafnrétti og njóta mannréttinda. Það hlýtur að vera frelsi að læra, skilja, vita, segja, geta. Í mínum huga er ekki nokkur spurning um það að frelsi einstaklingsins, hvernig svosem fólk skilur það hugtak, er ekki vel borgið í samfélagi þar sem sumir hafa allt en aðrir ekkert. Ég er ekkert viss um að fólkið í Írak sé mikið frjálsara þó Bush hafi ,,frelsað” það og mér finnst ólíklegt að frelsið fáist fyrir 500 krónur í sjoppunni.

Hvað sem frelsið er, komst Janis Joplin kannski næst því að útskýra það þegar hún söng ,,Freedome is just another word for nothing left to lose”. Og túlki svo hver fyrir sig…

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand