Frelsið er frábært

,,Jafnaðarflokkar eins og Samfylkingin vill frelsi. Það er grundvallaratriði. Rætur jafnaðarstefnunnar liggja í slagorðinu ,,frelsi – jafnrétti – bræðralag” og þar er eins og glöggir lesendur sjá, frelsishugtakið fremst í flokki. Jafnaðarflokkar vilja auka frelsi fólks með því að skapa jöfn tækifæri, til mennta, til atvinnu, til þess að blómstra í fjölbreyttu samfélagi.” Segir Guðmundur Steingrímsson frambjóðandi Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.

,,Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég VILL” söng einhver í mín eyru einhvern tímann, hugsanlega eftir ball með Nýdönsk. Þarna var auðvitað um málfarsvillu að ræða. Ég leiðrétti viðkomandi að sjálfsögðu.,,Frelsið er yndislegt,” sagði ég. ,,Ég geri það sem ég VIL.” Því þótt frelsið sé yndislegt og allt það, að þá er ekki þar með sagt að maður megi tala eins og maður vill. Fjandakornið. Maður verður að vanda sig. Frelsið er yndislegt, en það er líka dálítið vandmeðfarið. Það er ekki sjálfsagður hlutur. Menn verða að vinna í frelsinu. Koma því á. Virða það. Kunna að fara með það.


JAFNAÐARFLOKKUR eins og Samfylkingin vill frelsi. Það er grundvallaratriði. Rætur jafnaðarstefnunnar liggja í slagorðinu ,,frelsi – jafnrétti – bræðralag” og þar er eins og glöggir lesendur sjá, frelsishugtakið fremst í flokki. Jafnaðarflokkar vilja auka frelsi fólks með því að skapa jöfn tækifæri, til mennta, til atvinnu, til þess að blómstra í fjölbreyttu samfélagi.


ÞEGAR jafnaðarmenn segja að þeir vilji efla velferðarsamfélagið, að þá er það ekki síst vegna frelsisins. Það á enginn að vera fastur í fátæktargildrum og örbirgð. Allir eiga að fá tækifæri. Ef fólk er fast í gildrum er tómt mál að tala um að þjóðfélagið sé frjálst. Það er lóðið. Þess vegna er frelsið alltaf verkefni. Þjóðfélög þurfa að vinna að frelsinu og vera vakandi fyrir því.


EINS og menn segja í fræðunum: Það er ágætt að bjóða upp á lestarferðir til Liverpool. Margir talsmenn frelsishugsjóna á hægri væng halda að það sé nóg, til þess að þar með ríki ferðafrelsi til Liverpool. Þeir sem eru til vinstri benda hins vegar á, að lestin til Liverpool þurfi líka að vera þannig að allir sem vilji ferðast geti nýtt sér hana. Allir verða að hafa tækifæri til þess, með einhverjum hætti. Miðinn má til dæmis ekki vera svo dýr að einungis fáir hafi nokkurn tímann efni á honum.


Á þennan hátt er allt tal jafnaðarmanna um efnahagsmál og velferðarmál og verðlagsmál og þess háttar alltaf byggt á endanum á frelsishugsjóninni. Allt lýtur á endanum að því að skapa jöfn tækifæri landsmanna allra til að njóta sín og blómstra, leita hamingjunnar. Einkum og sér í lagi stendur Samfylkingin vörð um það að allir njóti grunnþjónustu, eins og vegakerfis, heilbrigðisstofnanna, löggæslu og menntastofnanna. Það er okkar trú að þannig dafni þjóðfélagið best, og sé réttlátt.


SAMFYLKINGIN er líka einhver ötulasti talsmaður viðskiptafrelsis sem um getur í íslenskum stjórnmálum, sem og borgaralegs frelsis og almannahagsmuna. Við viljum almennar rammalöggjafir sem búa til skilyrði fyrir samkeppni. Við viljum opna landið fyrir erlendri (og innlendri) samkeppni í landbúnaði og öðru. Við viljum að fleiri fái tækifæri til að stunda sjávarútveg. Við viljum meiri fjölbreytni í námsmöguleikum í menntakerfinu. Við erum frjálslynd. Við treystum fólki. Við viljum skapa efnahagsleg skilyrði fyrir vöxt og eflingu alls konar nýrra fyrirtækja, en ekki einblína á einhæfar ríkisstyrktar lausnir sem stugga öðrum burt.


JÖFN og frjáls er yfirskrift kosningarbaráttu Samfylkingarinnar. Þessi tvö hugtök eru tengd órjúfanlegum böndum í huga alls jafnaðarfólks. Mig grunar að flestir Íslendingar séu sama sinnis. Frelsið er yndislegt. Það er dásamlegt. Frábært. Og einmitt þess vegna eiga allir að hafa sem jöfnust tækifæri til að njóta þess.


ÞAÐ er verkefni og erindi Samfylkingarinnar.

Guðmundur Steingrímsson er í fimmta sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Við viljum hann á þing!

_________

Greinin birtist kosningablaði ungs Samfylkingarfólks – Jöfn og frjáls – er kom nýverið út. Blaðinu var ritstýrt af Helgu Tryggvadóttir og komu fjölmargir að vinnu við blaðið sem er hið glæsilegasta. Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingarinnar veitti blaðinu formlega viðtöku. Myndir úr útgáfugleðinni er hægt að sjá hér.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið