Frelsi hverra?

Einn er sá stjórnmálaflokkur hér á landi sem löngum hefur viljað láta kenna sig við frelsi – og þarf vart að taka fram að hér er átt við Sjálfstæðisflokkinn. En getur verið að frelsisboðskapur Flokksins sé á villigötum?

Ein af trúarsetningum Flokksins er sú að skilyrðislaus launaleynd sé allra meina bót. Nú vilja andstæðingar Flokksins leiða í lög að starfsmanni sé hvenær sem er í sjálfsvald sett að upplýsa þriðja aðila um laun sín. Ætli frjálshyggjupostular reki ekki upp ramakvein og telji þjarmað að frelsinu. En hverra frelsi skyldi þar vera ógnað? Þó ekki fyrirtækja til að hýrudraga starfsmenn út á kynferði, kynhneigð, útlit eða aðra álíka „verðleika“?

Önnur kredda Flokksins er sú að fjárreiður hans og annarra stjórnmálaafla komi engum öðrum við. Hverra frelsi skyldi þar vera ógnað? Þó ekki flokkanna til að launa velgjörninga af hálfu fyrirtækja og einstaklinga?

Oft er engu líkara en samkeppniseftirlit sé fleinn í holdi Flokksins, alla vega hafa samráðsrannsóknir ekki verið honum hjartans mál. Hverra frelsi skyldi þar vera ógnað? Þó ekki fyrirtækja til að hafa neytendur að féþúfu?

Löngum stundum virðast Flokkurinn og samstarfsaðili hans ekki vera með fullri rænu í málefnum öryrkja og eldri borgara. Hverra frelsi skyldi þar vera ógnað? Þó ekki stjórnvalda til að neita þegnunum um mannsæmandi lífskjör á ævikvöldi? Er það umbunin fyrir að hafa byggt upp eitt auðugasta þjóðfélag heims? Og er hér ekki líka vegið að frelsi stjórnvalda til að setja menn nánast á guð og gaddinn ef fötlun eða önnur örorka kemur til? En hver veit sína ævi fyrr en öll er?

Annars virðast mannréttindi ekki alltaf í hávegum höfð hjá Flokknum. Hver veit nema Mannréttindaskrifstofa Íslands verði sett út af sakramentinu annað árið í röð – fyrir að brjóta ellefta boðorðið: Þú skalt ekki setja ofan í við húsbónda þinn. Ekki virðast stjórnarherrarnir heldur kippa sér mjög upp við meinta fangaflutninga CIA um íslenska lofthelgi – millilendingar með fanga á leið til pyntinga í þar til gerðum myrkvastofum. Hverra frelsi skyldi þar vera ógnað? Þó ekki stjórnvalda til að fótumtroða grundvallarmannréttindi?

Frjálshyggjupostulum gæti verið hollt að hugsa sinn gang nú þegar hátíð ljóss og friðar er á næsta leiti: Beita þeir sér virkilega alltaf fyrir frelsi einstaklingsins? Eða getur verið að stundum boði þeir í hugsunarleysi frelsi sumra, þar á meðal ráðandi afla, til að hlunnfara aðra eða jafnvel níðast á þeim? Er siðsamlegt að slíta í sundur hugmyndir um frelsi, jafnrétti og bræðralag? Eða vilja menn virkilega að hér fari allt á sömu leið og í Animal Farm (Dýrabæ), meistaraverki George Orwells? Að þegar upp er staðið verði aðeins eitt boðorð í gildi:

ÖLL DÝR ERU JÖFN
EN SUM DÝR ERU JAFNARI EN ÖNNUR

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið