Nýlega komst þverpólitísk skattanefnd í BNA* að þeirri niðurstöðu að neyslukeyrt skattkerfi væri það kerfi sem best þjónaði hagsmunum lágstéttar og millistéttar. Neysluskattkerfi gæti því átt stóran þátt í lækkun vöruverðs sem um leið myndi auka hagsæld og leiða má að því líkur að neysla myndi aukast í kjölfarið. Samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækja myndi stóraukast þar sem ekki væru neinir faldir skattar í vöruverði á útfluttum vörum. Ég er einn af þeim sem telja núverandi skattkerfi vera fátt annað en skattníðslu og hef undanfarið tamið mér að taka mér það hugtak til munns. Skattar eru að vissu leyti frelsissvipting. Persónulega tel ég þó eðlilegt að leggja til samneyslu og finn ekki til frelsissviptingar þegar skattur er innheimtur. Ég leyfi mér samt að fullyrða að það skattkerfi sem núverandi ríkisstjórnarflokkar frelsisins hafa komið á er raunverulega frelsissviptandi. Umræða um flatan skatt hefur verið mikil undanfarið og þess má geta að mörg fyrrum Sovíetríki hafa í dag tekið upp slíkt skattkerfi. Flatur skattur hefur þá kosti að einfalda skattkerfið nokkuð auk þess sem allir greiða jafnt og því ekki ástæða til að fela einkaneyslu í fyrirtækjum, eða nota önnur undanbrögð frá skattgreiðslum. Ég tel hinsvegar flatan skatt ekki vera þá draumalausn sem margir vilja meina að hann sé. Gallinn er sá að skatttökunni fylgir áfram mikil umsýsla. Enn er óleyst vandamálið með greiðslur „undir borðið“ og enn þarf stjórnsýslan að fara yfir laun og tekjur einstaklinga. Þeim einstaklingum sem vinna mikið og fá vel greitt er enn refsað og enn fær einstaklingurinn ekki alla launagreiðsluna í hendurnar.
Ég tel að þörf sé á róttækri breytingu á skattkerfinu. Við þurfum að endurhugsa algjörlega með hvaða hætti skattgreiðsla á að fara fram, í þeirri von að hægt sé að ná fram sanngjarnara og lýðræðislegra skattkerfi. Takið eftir að ekki er minnst á hér að skattar séu of háir eða annað slíkt. Ég kem ekki með tillögu um að prósentutalan verði lækkuð, heldur ræði um galla kerfisins sem slíks.
Hvar liggur óréttlætið?
– Einstaklingur sem neyðist til að gefa hluta launa sinna strax við útborgun til yfirvalda er ekki fullkomlega frjáls. Flestir eru þó sammála því að nauðsynlegt sé að innheimta einhverja skatta til þess að tryggja öllum lágmarksöryggi og -lífsskilyrði.
– Refsar duglegum. Núverandi kerfi refsar hinum duglegu. Því meira sem einstaklingur vinnur, því meiri hluta af sínu fé sér hann renna beint til ríkisins.
– Margföld sköttun. Erfðaskattur, eignaskattur, launaskattur, fjármagnstekjuskattur og neysluskattur. Hvað erum við raunverulega að fá fyrir okkar vinnu?
– Faldir skattar í vöruverði. Skattlagningar á fyrirtæki, svo sem launatengd gjöld, eignaskattur, bifreiðagjöld, fasteignagjöld og svo má lengi telja. Öll skattlagning á fyrirtæki fara beint í vöruverð til neytenda, endaneyslan endar því með að greiða skatta fyrirtækja líka. Leiða má líkur að því að um 40 – 70 %** af vöruverði séu skattlagning af einhverju tagi.
– Eins manns dauði er ríkisins brauð. Erfðaskattur er í raun bara fallegt orð yfir dauðaskatt. Það þarf ekki að tíunda hina augljósu ósanngirni þess að rukka menn um gjald fyrir andlát nákominna.
– Skattur af lífeyrisgreiðslum. Telst varla til mikillar sanngirni að skattleggja, það sem nú þegar hefur verið skattlagt margsinnis.
– Skil á skattaskýrslum. Auk þess að vera margrukkaðir á hverja krónu neyðast margir til þess að kaupa sér þjónustu við að láta fylla út fyrir sig skattskýrslur og telja fram.
Hér að ofan tel ég upp fáein dæmi um það hversu óréttlátt núverandi skattkerfi er. Ég trúi því að ég sé ekki einn um þá skoðun að núverandi skattkerfi sé fjandsamlegt og flókið. En það er líka þungt í vöfum fyrir ríkið. Mikið púður fer í það hjá ríkinu á hverju ári að fara yfir framtöl mörg þúsund Íslendinga. Er sá möguleiki hugsanlega fyrir hendi að snarminnka skriffinnsku núverandi skattníðslukerfis?
Leiðin til sanngirni
Ég tel að við þurfum að umbylta skattkerfinu, afnema alla launa-, eigna- og fjármagnstekjutengda skatta. Eingöngu verði innheimtir skattar af neyslu en ekki af launum eða eignum. Með skattkerfi sem byggir eingöngu á skattlagningu endaneyslu, náum við fram meiri sanngirni en nokkurn tíman er möguleiki með núverandi kerfi.
Nýlega komst þverpólitísk skattanefnd í BNA* að þeirri niðurstöðu að neyslukeyrt skattkerfi væri það kerfi sem best þjónaði hagsmunum lágstéttar og millistéttar. En auk þess eru hagsmunir iðnaðar og þjónustu af þesskonar kerfi gríðarlegir. Í kjölfar þessarar niðurstöðu hóf hópur demókrata og repúblikana að semja nánari útfærslu á kerfinu, sem í dag hefur verið lagt fram í neðri deild þingsins.
Er þetta ekki skattkerfi hinna ríku?
Neysluskattar bitna ekki endilega frekar á fátækum en ríkum. Núverandi kerfi hlýtur hinsvegar að teljast frekar fjandsamlegt fátækum. Til að koma til móts við láglaunafólk skal grunnframfærsla vera skattfrjáls. Ef við gefum okkur það að grunnframfærsla sé 100.000 kr og neysluskatturinn sé 14% á matvælum og nauðsynjum er neysluskattur grunnframfærslu 14000 kr, sem er þá endurgreiddur af ríkinu. Jafnt gildir um alla, grunnframfærsla yrði skattfrjáls í hinu nýja kerfi. En hvers vegna ekki bara að taka út vissa vöruflokka og gera þá skattfrjálsa? Eðlilegast er að tryggja öllum skattlausa grunnframfærslu frekar en að en að velja út vöruflokka sem verða þá skattfrjálsir með öllu. Kostnaðinn við það þarf hvort sem er að fela í skattlagningu á öðrum vörum auk þess sem það opnar fyrir glufur sem hætt er á að notaðar verði til skattsvika.
Efling atvinnulífsins og margföldun í útflutningstekjum.
Í dag fer ég eingöngu með rétt rúman helming tekna minna heim, ég fer svo og versla vörur þar sem á hefur verið lagður neysluskattur, en auk þess eru fyrirtækin sem framleiða, dreifa og selja vöruna skattlögð og þeim skatti svo velt yfir á endaneyslu í vöruverði. Þannig má leiða að því líkur að vöruskattur sé í raun allt að 40% – 70%** við núverandi aðstæður. Neysluskattkerfi gæti því átt stóran þátt í lækkun vöruverðs sem um leið myndi auka hagsæld og leiða má að því líkur að neysla myndi aukast í kjölfarið. Samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækja myndi stóraukast þar sem ekki væru neinir faldir skattar í vöruverði á útfluttum vörum.
Að skoða með opnum hug
Með þessari grein vil ég varpa fram hugmynd að nánari útfærslu skattkerfis sem ég tel vera mun sanngjarnara og hagkvæmara en núverandi kerfi. Neysluskattkerfið hefði í för með sér róttæka breytingu. Kerfið er einfalt, skattar nafnlausir og því ekki ástæða til að telja fram, sem um leið snarminnkar fjárþörf skattumsýslunnar. Innbyggð jaðardæmi og fátækragildrur hverfa auk þess sem leiða má líkur að því að skattsvikum myndi fækka stórkostlega með einföldun skattkerfis.
* Nefndin hefur það hlutverk aðfara yfir skattlöggjafir annara landa og tillögur að skattlagningu Mikil hefð er fyrir skattkerfisbreytingum í BNA, síðan 1986 hafa alls verið gerðar 9000 breytingar á skattkerfi BNA. Að hluta til er þetta tilkomið vegna grundvallarágreinings stóru flokkanna í skattamálum, svo og að hvert ríki mótar sitt skattkerfi að einhverju leiti sjálft.
** Eingöngu um huglægt mat höfundar að ræða.