Margir telja að Bush muni vinna auðveldlega – ég er ekki einn af þeim. Bandarískt efnahagslíf hefur meira eða minna verið í lægð síðan Bush tók við völdum í Hvíta húsinu í janúar 2001. Ég held að þegar að öllu er á botninn hvolft skipta utanríkismál og hernaðarsigrar bandaríska kjósendur minna máli en efnahagsmálin. Þannig muni ,,sigrar” Bandaríkjahers í Afganistan og Írak koma niður á Bush, því stríðsbrölt kostar skildinginn. Það eru efnahagsmálin sem skipta mestu máli og t.a.m. er búist við að í ár verði 400 milljarða dollara halli á fjárlögunum – mesti fjárlagahalli í sögu landsins. Metið átti George Bush eldri, en öll vitum við hvernig fór fyrir honum. Þegar hann sóttist eftir endurkjöri árið 1992 voru Bandaríkjamenn nýkomnir úr stríði í Írak og efnahagsmálin voru líkt og nú í lægð og George Bush eldri tapaði fyrir óþekkum fylkisstjóra frá Arkansas – William Jefferson Clinton. Í nóvember á næsta ári fara fram forsetakosningar í Bandaríkjunum og talið er öruggt að George Walker Bush muni sækjast eftir endurkjöri. Óljóst er á þessari stundu hver verður frambjóðandi Demókrataflokksins.
Margir telja að Bush muni vinna auðveldlega – ég er ekki einn af þeim. Bandarískt efnahagslíf hefur meira eða minna verið í lægð síðan Bush tók við völdum í Hvíta húsinu í janúar 2001. Ég held að þegar að öllu er á botninn hvolft skipta utanríkismál og hernaðarsigrar bandaríska kjósendur minna máli en efnahagsmálin. Þannig muni ,,sigrar” Bandaríkjahers í Afganistan og Írak koma niður á Bush, því stríðsbrölt kostar skildinginn. Það eru efnahagsmálin sem skipta mestu máli og t.a.m. er búist við að í ár verði 400 milljarða dollara halli á fjárlögunum – mesti fjárlagahalli í sögu landsins. Metið átti George Bush eldri, en öll vitum við hvernig fór fyrir honum. Þegar hann sóttist eftir endurkjöri árið 1992 voru Bandaríkjamenn nýkomnir úr stríði í Írak og efnahagsmálin voru líkt og nú í lægð og George Bush eldri tapaði fyrir óþekkum fylkisstjóra frá Arkansas – William Jefferson Clinton.
Carol Mosley Braun (56), Howard Dean (55), John Edwards (50), Richard Gephardt (62), John Kerry (60), Dennis Kucinich (57), Joe Liberman (61), Al Sharpton (49) og Wesley Clark (59) hafa öll lýst yfir framboði í forvali Demókrataflokksins vegna forsetakosninganna á næsta ári. Frambjóðendurnir voru orðnir tíu en eftir að Bob Graham (67), fyrrum fylkisstjóri Flórída og núverandi öldungadeildar- þingmaður, dró nýverið framboð sitt til baka eru þeir níu í dag.
Nokkur orð um frambjóðendur
Flestir frambjóðendanna eiga nokkuð klassískan feril í stjórnmálum að baki. Braun sat á löggjafarþingi Illinois áður en hún var kosin fyrst blökkukvenna til setu í öldungadeildinni. Dean var kjörinn á fylkisþingið og kosinn varafylkisstjóri og síðar fylkisstjóri Vermont. Edwards tók sæti í öldungadeildinni fyrir fimm árum. Gephardt var fylkisþingmaður í Missouri áður en hann var kjörinn í fulltrúadeildina 1976, en í átta ár var hann leiðtogi demókrata í deildinni. Kerry var varafylkisstjóri Massachusetts áður hann varð öldungadeildar- þingmaður. Kucinich var borgarstjóri Cleveland á 8. áratugnum og árið 1995 var hann kjörinn á fylkisþing Ohio og fljótlega eftir það í fulltrúadeildina. Liberman átti sæti á löggjafarsamkundu Connecticutfylkis áður en hann var kjörinn í öldungadeildina árið 1988 og í seinustu forsetakosningum var hann varaforsetaefni Al Gore. Þá hefur Sharpton tvívegis boðið sig fram til borgarstjóra New York – án árangurs.
Braun, Edwards, Gephardt, Kerry og Liberman eru öll menntuð sem lögfræðingar. Dean er læknir, Sharpton er vígður prestur og Kucinich starfaði við dagskrágerð eftir að hann hætti sem borgarstjóri og áður en hann skellti sér aftur í pólitíkina. Clark útskrifaðist með BS-próf frá herskóla í Chicago og MA-próf frá Oxford University. Árin 1966-2000 starfaði Clark í bandaríska hernum og hann er margverðlaunaður fyrir störf sín í þágu þjóðar sinnar. Hann fór fyrir sameiginlegum her NATO í átökunum í Kosovó.
Nýlegar kannanir
Í skoðanakönnun, sem CNN og USA Today létu gera fyrir rúmum mánuði, sýnir að vinsældir Bush forseta virðast dvína hratt. En 49% þátttakenda í könnuninni sögðust myndu velja Clark, ef kosið yrði á milli hans og Bush í kosningunum á næsta ári – 46% sögðust aftur á móti myndu velja Bush. Þá sögðust 48% myndu velja Kerry, ef hann yrði í kjöri – en 47% sögðust þá myndu velja George Bush. Væri Lieberman í framboði sögðust 48% myndu velja Bush – en 47% Lieberman. Bush hefur hins vegar meira forskot á þá Dean og Gephardt.
Önnur könnun sem CNN, USA Today og Gallup gerðu 8. – 12. október sýndu; Clark með 18% fylgi, Dean og Liberman sitthvor 13%, Kerry 11% og Gephardt með 10% fylgi. Þá sýnir könnun sem ABC fréttastofan og Washington Post létu gera dagana 9. – 13. október að; Dean nýtur stuðnings 16% kjósenda, Gephardt 14%, Clark 13%, Kerry 11% og Liberman 10%. Eins og sést þá ber þessum tveimur könnunum ekki saman og ljóst er að kosningabaráttan verður afar spennandi.
Fyrstu kosningarnar í forvali Demókrataflokksins verða haldnar 19. janúar í Iowa og þær næstu verða í New Hampshire 27. janúar, en þessar kosningar eru taldar mikilvægar og frambjóðendur vilja gjarnan landa sigri í fyrstu kosningum forvalsins. Í fyrradag var birt könnun sem gerð var nýverið í New Hampshire og þar hefur Howard Dean mikið forskot meðal frambjóðenda demókrata eða 30% fylgi. John Kerry kemur næstur með 17%. Næst koma; Clark 10%, Liberman 6%, Gephardt og Edwards 5%, Kucinich 3% og að lokum Braun og Sharpton með 1% fylgi.
Eru ekki talin eiga mikla möguleika
Litlar líkur eru taldar á því að Carol Braun hljóti útnefningu Demókrataflokksins sem forsetaframbjóðendi flokksins á næsta ári. Í upphafi baráttunnar var Braun í vandræðum með að afla framboði sínu tekna og hún þurfti m.a. að segja starfsmönnum upp. Henni hefur þó gengið betur að afla tekna upp á síðkastið og ennfremur er talið að henni hafi tekist ágætlega upp við að setja fókusinn á konur og minnihlutahópa.
Stuðningur við John Edwards hefur ekki verið ýkja mikill í skoðanakönnunum uppá síðkastið. En í upphafi baráttunnar var fylgi við Edwards nokkuð. Framboð hans hefur samt sem áður verið vel skipulagt og honum hefur tekist ágætlega að safna í kosningasjóði sína. Þá eru margir sem telja að Edwards muni fljótlega draga framboð sitt til baka og koma tvíefldur til baka eftir fjögur ár.
Dennis Kucinich hefur ekki komist á flug í skoðanakönnunum. Hann hefur engu að síður verið talinn ein helsta von vinstrivængs Demókrataflokksins. Kucinich er mikill friðarsinni og lagðist alfarið gegn hernaðaríhlutun Bandaríkjanna í Afganistan og í Írak. Hann nýtur nokkurs stuðnings meðal verkalýðsfélaga, en um leið er Kucinich talinn vera of vinstrisinnaður. Þá hefur Natural Law Party boðið honum að vera forsetaefni sitt á næsta ári.
Þá er talið næsta víst að Al Sharpton hljóti ekki stuðning flokksfélaga sinna til að vera forsetaefni þeirra – þrátt fyrir að vera einn litríkasti frambjóðendinn úr röðum þeirra. Sharpton hefur lengi barist fyrir mannréttindum minnihlutahópa, en honum hefur engu að síður lent uppá kant við suma þessara hópa. Þá hefur honum gengið afar illa að safna í kosningasjóð sinn og sú athygli sem hann hefur fengið í fjölmiðlum hefur verið heldur neikvæð – Sharpton er talinn skulda talsverða upphæðir auk þess birti HBO sjónvarpsstöðin árið 2002 þátt um meintan þátt hans í peningaþvætti.
Hefur gengið vel hingað til
Þeim Clark, Dean, Gephardt, Kerry og Liberman hefur gengið best af þeim níu frambjóðendum sem eftir eru í baráttunni um útnefninguna. Styrkur Gephardt og Liberman var allmikill í upphafi enda eru þeir engir nýgræðingar í bandarískum stjórnmálum, en dregið hefur úr stuðningi við þá báða. Þá hefur heldur fjarað undan stuðningi við Gepahardt síðustu vikur. Liberman þykir vera frekar hægrisinnaður og verið gagnrýndur fyrir að styðja stríðsbrölt Bush í Írak sem og skattalækkanir hans. En auk hans voru þeir Gephardt og Kerry fylgjandi átökunum í Írak. Stuðningur meðal almennings við stríðið og veru Bandaríkjahers í Írak hefur dvínað hratt síðustu mánuði og eru þeir Dean og Clark m.a. taldir græða á því.
Dean er sá sem hefur stolið senunni, en fæstir þekktu til hans og verka hans sem fylkisstjóra Vermont áður en kapphlaupið hófst. Síðustu mánuði hefur baráttan snúist að miklu leyti um hann og persónu hans. Margir hafa líkt þessu góða gengi hans við sigur Clintons í kosningunum 1992. Fyrir vikið hafa aðrir frambjóðendur beint spjótum sínum að Dean og hefur t.a.m. fjöldinn allur af neikvæðum heimsíðum gagnvart honum verið opnaðar. Þar hafa verið rifjuð upp orð sem Dean lét falla á meðan hann var fylkisstjóri. Gephardt og Kerry hafa gengið hvað harðast fram í þessari gagnrýni. En á þeim tímapunkti sem flest spjót stóðu að Dean tilkynnti Wesley Clark um framboð sitt og í kjölfarið minnkaði hin neikvæða umfjöllun um Dean.
Að lokum…
Wesley Clark og Howard Dean skiptast á vera í forystu og rétt á hælum þeirra eru þeir Kerry og Liberman. En heldur virðist vera farið að draga af hinum reynda Richard Gepardt sem verður 63 ára í janúar. Þá er ekki talið ólíklegt að Hillary Clinton lýsi yfir framboði til forseta Bandaríkjanna og telja margir að framboð Clark sé liður í því. Honum sé ætlað að draga athyglina frá Dean sem hefur gengið mjög vel. Og eftir að Hillary lýsir yfir framboði, fljótlega eftir áramót, þá verður Clark boðið að verða varaforsetaefni hennar. Pistlahöfundur á Deiglunni líkir hlutverki Clarks við einhverskonar pólitískan Trjóuhest. En áður en að Clark lýsti yfir framboði er Dean sagður hafa boðið honum að verða varaforsetaefni sitt. Hvað svo verður veit nú enginn – en það er ljóst að baráttan fyrir forsetakosningarnar sem haldnar verða 2. nóvember á næsta ári er hvergi nærri lokið.
Forsetaframbjóðendur Demókrataflokksins – 1. hluti
Forsetaframbjóðendur Demókrataflokksins – 2. hluti
Forsetaframbjóðendur Demókrataflokksins – 3. hluti
Forsetaframbjóðendur Demókrataflokksins – 4. hluti
Forsetaframbjóðendur Demókrataflokksins – 5. hluti