Forsetaframbjóðendur Demókrataflokksins – 3. hluti

Óljóst er á þessari stundu hver verður frambjóðandi Demókrataflokksins í forsetakosningunum í Bandaríkjunum á næsta ári. Kappahlaupið er engu að síður hafið og níu einstaklingar hafa lýst yfir framboði og hyggjast sækjast eftir útnefningu flokksins. Margir telja að núverandi forseti muni sigra hvaða frambjóðenda demókrata sem er auðveldlega, en ég er ekki sammála því. Í þessum þriðja hluta um forsetaframbjóðendur Demókrataflokksins fjalla ég um þingmennina Bob Graham og John Kerry. Eftir tæpa 15 mánuði fara fram forsetakosningar í Bandaríkjunum. George Bush yngri mun að öllum líkindum sækjast eftir endurkjöri og vera um leið fulltrúi Repúblíkanaflokksins í kosningunum. Óljóst er á þessari stundu hver verður frambjóðandi Demókrataflokksins, en kappahlaupið er engu að síður hafið og níu einstaklingar hafa lýst yfir framboði og hyggjast sækjast eftir útnefningu flokksins.

Margir telja að Bush muni vinna auðveldlega – ég er ekki einn af þeim. Bandarískt efnahagslíf hefur meira en minna verið í lægð síðan Bush tók við völdum í Hvíta húsinu í janúar 2001. Ég tel að þegar bandarískir kjósendur munu ganga að kjörborðinu munu efnahagsmál landsins skipta meira máli en ,,sigrar” Bandaríkjahers í Afganistan og í Írak. Stríðsbrölt kostar skildinginn og t.a.m. er búist við að í ár verði 400 milljarða dollara halli á fjárlögunum fjárlagahallinn – mesti fjárlagahalli í sögu landsins. Metið átti George Bush eldri.

Í þessum greinum mínum hef ég skoðað þá frambjóðendur Demókrataflokksins sem hafa lýst yfir framboði til forseta Bandaríkjanna. Í síðustu umfjöllun minni voru þeir John Edwards og Richard Gephardt teknir fyrir, en í dag verða þeir Bob Graham og John Kerry til umfjöllunar.

Bob Graham
Daniel Robert (Bob) Graham fæddist 9. nóvember 1936 í Flórída. Faðir hans sat á ríkisþingi Flórída. Árið 1959 útskrifaðist Graham frá University of Florida með B.A. próf. Þremur árum síðar eða árið 1962 lauk hann lögfræðinámi sínu við Harvard Law School. Hann giftist Adele eiginkonu sinni 1959 og saman eiga þau fjögur börn og 10 barnabörn.

Stjórnamálaferill Bob Grahams hófst þegar hann var kosinn á löggjafarsamkundu Flórídafylkis árið 1966. Hann var endurkjörinn í fulltrúadeildina tveimur árum síðar, en árið 1970 var hann kjörinn til setu í öldungadeild fylkisins. Hann var endurkjörinn 1974. Graham bauð sig fram til embættis fylkisstjóra 1978 og fékk góða kosningu og var ennfremur endurkjörin 1982. Fjórum árum síðar bauð hann sig fram til öldungadeildar Bandaríkjaþings og náði kjöri. Graham hefur verið endurkjörin tvisvar, árin 1992 og 1998.

Þegar Grahm sat á ríkisþinginu í Flórída einbeiti hann sér eina mest að mennta- og heilbrigðismálum. Þessir tveir málaflokkar hafa ætíð síðan verið honum hugleiknir. Í fylkisstjóratíð hans urðu til 1.5 milljón ný störf, skattar í fylkinu héldust áfram lágir, honum tókst að standa við átta fjárhagsáætlanir og var gjarnan nefndur Education Governor vegna áhuga hans á menntamálum. Eftir að hann tók sæti í öldungadeildinni í Washington urðu alþjóða- og öryggimál þjóðarinnar einnig sá málaflokkur sem hann lét sér mikið varða. Graham greiddi atkvæði gegn hernaðíhlutun Bandaríkjanna og Breta í Írak. Hann telur Bandaríkjamenn og hagsmunum þeirra erlendis stafa mun meiri ógn af hryðjuverkasamtökum og alþjóðlegu neti þeirra heldur en af Saddam Hussein. Graham vildi öllu heldur að Bush forseti fengi heimild til þess að berjast gegn hryðuverkasamtökum eins og Hamas, Hezbollah og samtökum Osama bin Laden al Qaeda.

Bob Graham er maður málamiðlana og er sagður leggja mikið upp úr að samstaða ríki um einstök mál. Hann fer fyrir hópi 19 öldungadeildarþingamanna sem kallar sig Senate New Democrat Coalition en í þeim hópi eru menn eins og t.d. John Edwards, John Kerry og Joe Liberman.

Seinustu þrjá áratugi hefur Bob Graham farið út meðal kjósenda og unnið við hlið þeirra – sjálfur kallar hann þetta verkefni sitt Workdays. Hann hóf þetta starf sitt árið 1974 þegar hann kenndi samfélagsfræði í framhaldsskóla í heila önn samhliða því að sitja á fylkisþinginu í Flórída. Á þessum rúmu 30 árum hefur hann unnið rétt um 400 daga. Graham hefur t.a.m. unnið sem verkamaður, hótelþjónn, lögreglumaður, vörubílstjóri, jólasveinn, fréttamaður og margt fleira. Hann hefur unnið heilan dag í hverjum mánuði síðustu ár. Graham gerir þetta meðal annars til að halda nánu og góðu sambandi við kjósendur sína.

John Kerry
John Kerry fæddist í hersjúkrahúsi þann 11. desember 1943 í Denver í Colorado en faðir hans, sem barðist í heimsstyrjöldinni síðari, var að ná sér af berklum. Kerry útskrifaðist sem lögfræðingur frá Yale University. Eftir útskriftina frá Yale skráði hann sig í herinn og varð síðar liðforingi í sjóhernum. Hann barðist í Víetnam og hlaut m.a. nokkrar viðurkenningar. Eftir heimkomuna frá Víetnam fór Kerry að berjast gegn stríðinu og fyrir því að fá þá hermenn sem voru enn í Víetnam heim. Áður en að Kerry snéri sér að stjórnmálum starfaði hann sem saksóknari og hann þótti afar dugmikil sem slíkur. Kerry er giftur Teresu Heinz Kerry. Þau eiga börn úr fyrri hjónaböndum – hún þrjú og hann tvö.

Árið 1982 var Kerry kosinn varafylkisstjóri Massachusetts. Tveimur árum síðar bauð hann sig fram til setu í öldungadeildinni og hafði sigur gegn sitjandi þingmanni sem auk þess naut stuðnings þáverandi forseta, Ronalds Reagan. Kerry hefur verið endurkjörinn þrisvar sinnum; 1990, 1996 og 2002.

Í öldungadeildinni hefur John Kerry látið sér málefni ríkisskóla, barna og umhverfissins talsvert varða. Alþjóðamál hafa einnig lengi verið Kerry hugleikinn. Í forsetatíð Ronalds Reagan mótmælti Kerry harðlega hernaðaraðstoð Bandaríkjanna við gagnbyltingarsinna í Nikaragúa. Hann var mótfallinn hernaðaríhlutun Bandaríkjamanna í Írak árið 1991 og í ár vildi hann gefa vopnaeftirliti S.Þ. lengri tíma til að vinna sína vinnu. Á endanum greiddi hann samt sem áður atkvæði með hernaðaríhlutun Bandaríkjanna í Írak.

John Kerry nýtur víðtæks stuðnings meðal fyrrum hermanna. Hann hlaut fimm viðurkenningar fyrir hetjudáðir í Víetnamstríðinu. Eftir að Kerry kom heim frá Víetman var hann meðstofnandi og aðaltalsmaður samtaka, Vietnam Veterans of America, sem börðust gegn stríðsreksti Bandaríkjanna í Víetnam. Í apríl árið 1971 kom hann fyrir utanríkismálanefnd öldungadeildarinnar og sagði m.a.: ,,How do you ask a man to be the last man to die for a mistake?”
– – –
Í næstu grein minni um forsetaframbjóðendur Demókrataflokksins mun ég fjalla um fulltrúadeildarþingmanninn Dennis Kucinich, öldungadeildarþingmanninn Joe Liberman og séra Al Sharpton.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið