Forystumenn í íslenskum stjórnmálum hika ekki við að beita lýðskrumi í pólitískri baráttu. Hvernig í ósköpunum dettur þeim í hug að þeir séu einu stjórnmálamennirnir í heiminum sem beita þess háttar aðferðum? Það er nefnilega enginn munur á íslenskum og breskum stjórnmálamönnum að þessu leyti. Þeir nota hvert tækifæri til að slá sig til riddara, hvort sem það er með því að andmæla hvalveiðum eða afbrotum þingmanna. Af því bárust fréttir í byrjun vikunnar að sjávarútvegsráðherra Bretlands hefði ráðlagt Bretum að sniðganga íslenskar sjávarafurðir og ferðir til Íslands. Ástæða ummæla ráðherrans eru hvalveiðar Íslendinga.
Íslenskir ráðamenn hafa ekki linnt látum frá því ummælin voru látin falla. Þannig var vanþóknun utanríkisráðherra mikil og taldi hann einsýnt að um misskilning hefði verið að ræða. Slík afskipti af íslenskum innanríkismálum væru fordæmalaus. Formaður Ferðamálaráðs, alþingismaðurinn Einar Guðfinnsson, taldi atferli ráðherrans breska „ótrúlegt, ósvífið og að mínu mati hrein afskipti af máli sem eru innanríkismál Íslendinga.“
Það virðist því hafa komið forsvarsmönnum nýhafinna hvalveiða við Íslandsstrendur algjörlega í opna skjöldu að erlendir stjórnmálamenn hafi skoðun á veiðunum. En við hverju bjuggust þeir? Vita þeir ekki manna best að stjórnmálamenn láta oft hafa eftir sér það sem þeir telja að fólkið vilji heyra, oft að áeggjan þrýstihópa, og alltaf eftir línu pólitísks rétttrúnaðar?
Nefna má fjölmörg dæmi um þess háttar lýðskrum íslenskra stjórnmálamanna. Nærtæk eru loforð formanna stjórnarflokkanna um línuívilnun og jarðgöng á landsbyggðinni, sem voru að því er virðist lítið annað en bragð til að afla flokkum þeirra fylgis rétt fyrir kosningar. Nýjasta dæmið um lýðskrum í íslenskri pólitík eru sennilega ummæli forsætisráðherra um þingmann Frjálslynda flokksins, Gunnar Örlygsson. Þingmaðurinn hlaut dóm fyrir brot á lögum um stjórn fiskveiða. Vaskur fréttamaður spurði forsætisráðherra hvað honum þætti um hinn dæmda þingmann og svaraði forsætisráðherra eitthvað á þá leið, að sér kæmi ekki við hvaða menn sætu á þingi fyrir aðra stjórnmálaflokka. Væri þessi maður aftur á móti í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, yrði honum umsvifalaust vikið úr þingflokknum. Fyrir nokkrum dögum síðan kom svo á daginn að þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafði hlotið dóm fyrir refsivert afthæfi, ölvunarakstur. Ekkert hefur heyrst frá formanni flokksins þess efnis að hinn brotlegi þingmaður þurfi að víkja úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Ummæli forsætisráðherra um Gunnar Örlygsson voru því hreint lýðskrum.
Forystumenn í íslenskum stjórnmálum hika ekki við að beita lýðskrumi í pólitískri baráttu. Hvernig í ósköpunum dettur þeim í hug að þeir séu einu stjórnmálamennirnir í heiminum sem beita þess háttar aðferðum? Það er nefnilega enginn munur á íslenskum og breskum stjórnmálamönnum að þessu leyti. Þeir nota hvert tækifæri til að slá sig til riddara, hvort sem það er með því að andmæla hvalveiðum eða afbrotum þingmanna.
Ummæli breska sjávarútvegsráðherrans áttu því ekki að koma íslenskum kollegum hans á óvart.