Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar umboðslaus

bjarniben

Forsendurbrestur nýju ríkisstjórnarinnar

Ný ríkisstjórn tók við völdum í mánuðinum. Hún er hinsvegar nú þegar lýðræðislega umboðslaus. Í fyrsta lagi er ríkisstjórnin stjórn minnihluta landsmanna, því þó hún njóti minnsta mögulega meirihluta á þingi, hlutu flokkarnir þrír sem að henni standa ekki nema 46,7% fylgi í kosningunum 29. október. Í öðru lagi hefur tvennt gerst síðan kosið var sem telja má sem forsendubrest fyrir hæfi Bjarna Benediktssonar til að setjast í sæti forsætisráðherra. Í byrjun árs, þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar var nú þegar ákveðin, var birt skýrsla um umfang eigna Íslendinga í skattaskjólum. Eins og gert var opinbert í apríl síðastliðnum, var Bjarni Benediktsson einn þeirra sem átti félag og eignir í skattaskjóli. Bjarni, þáverandi fjármálaráðherra, fékk skýrsluna í hendurnar í september, en kaus að birta ekki skýrsluna fyrr en í janúar.

Þá kom skýrsla um skuldaniðurfærslu síðustu ríkisstjórnar, hina svokölluðu Leiðréttingu, ekki út fyrr en núna á dögunum, þrátt fyrir að aðgerðin sjálf hafi verið framkvæmd á haustmánuðum 2014. Í þessari skýrslu kemur fram að 86% af Leiðréttingunni rann til tekjuhærri helmings þjóðarinnar en 14% til þess sem var tekjulægri.  Tæp 30%, um 22 milljarðar, runnu til þeirra 10% landsmanna sem hæst hafa laun. Þó að Leiðréttingin hafi verið hugmynd Framsóknarflokksins, var það engu að síður Bjarni Benediktsson sem fjármálaráðherra síðustu ríkisstjórnar, sem bar ábyrgð á framkvæmd Leiðréttingarinnar. Þessar upplýsingar hefði almenningur þurft að hafa undir höndunum í kosningunum 29. október og svo hefði vel getað verið, hefði Bjarni Benediktsson ekki vísvitandi haldið upplýsingunum leyndum.

Ekki gefa fyrstu skref þessarar ríkisstjórnar heldur von um framfarir þjóðarinnar til heilla. Sorglegt er að sjá ríkisstjórn myndaða árið 2017 með jafn skökku kynjahlutfalli, en ríkisstjórnin uppfyllir ekki jafnréttisáætlun stjórnarráðsins, sem kveður á um a.m.k. 40% hlutfall hvors kyns.

Benedikt Jóhannesson, nýr fjármálaráðherra, sem fyrir kosningar lofaði stórátaki í heilbrigðismálum, hefur nú eftir kosningar talað um að hagur hins opinbera sé ekki eins góður og hann vonaðist eftir og því verði ekki hægt að uppfylla þau loforð að fullu. Benedikt taldi sig ekki eiga samleið með vinstriflokkunum í fimm flokka stjórnarmyndunarviðræðum þegar lögð voru fram áætlanir um aukna skattheimtu á fjársterka aðila til að fjármagna varanlega uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu.

Björt framtíð, hinn pönkaði flokkur sem lofaði nýjum stjórnmálum og betri vinnubrögðum, hefur nú leitt til valda hreinræktaða hægristjórn með forsætisráðherra sem var í Panama-skjölunum og tafði birtingu skýrslu um skattaskjól.

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hefur glatað umboði sínu áður en hún tekur til starfa. Megi hún sitja sem allra styst.

Miðstjórn Ungra jafnaðarmanna, 23. janúar 2017.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand