Ungir jafnaðarmenn mótmæla siðlausu brottnámi íraskra hælisleitenda
Nú fyrr í vikunni, í skjóli nætur, handtóku lögreglumenn tvo íraska hælisleitendur, drógu þá nauðuga út úr griðastað og fluttu þá af landi brott – ferðalag sem líklegt er að endi aftur í Írak, stríðshrjáðu landi. Áhöld eru um aldur mannanna, en annar þeirra segist vera 16 ára og þar af leiðandi barn. Sé það raunin er brottflutningur þessi skýlaust brot á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland hefur lögfest. Jafnvel ef um tvo lögráða menn er að ræða, er allt frá ákvörðuninni um brottvísun til framkvæmdar handtökunnar ranglátt og siðlaust. Hælisumsóknir mannanna fengu ekki efnislega meðferð hjá Útlendingastofnun, heldur Dyflinarreglugerðin notuð sem skálkaskjól fyrir sjálfvirkri brottvísun í hróplegri andstöðu við hag og vilja hælisleitendanna. Þá hlýtur handtakan sjálf, þar sem lögreglumenn sækja hælisleitendur inn í kirkju þar sem prestar höfðu veitt þeim grið og lögreglumaður slær til friðsams mótmælenda, að vera áfellisdómur yfir verklag lögreglunnar og er til þess fallið að skapa vantraust og tortryggni gagnvart framkvæmdavaldinu.
Með brottnámi mannanna tveggja er Ísland orðið fátækara af tveimur dugandi einstaklingum, sem höfðu nýtt tíma sinn hér á landi til að hefja íslenskunám og horfðu nú síðast af áhuga á leik Íslands og Englands í fótbolta, eins og flestir aðrir Íslendingar gerðu. Það að þeir höfðu valið sér búsetu á Íslandi, eftir að hafa sett líf sitt í hættu við að flýja hið stríðsþjáða Írak, gefur tilefni til að bjóða þá velkomna hingað, en ekki til að meðhöndla þá eins og glæpamenn og flytja nauðuga viljuga úr landi. Ísland gerðist yfirlýstur stuðningsaðili innrásar Bandaríkjanna í Írak árið 2003 og allt frá þeim tíma hefur Írak búið við mikinn óstöðugleika og ófrið, sem hefur því miður neytt þúsundir manna á flótta. Íslensk stjórnvöld hljóta að þurfa sýna örlitla ábyrgð á fyrri gjörðum og gera sitt til að bjarga lífi íraskra hælisleitenda.
Því miður er mál írösku hælisleitendanna sem fluttir voru burt í vikunni fjarri því að vera einsdæmi. Á undanförnum misserum hefur ítrekað frést af því að með valdi eigi að flytja af landi brott fjölda fólks, jafnvel langveik börn eða vinnandi fólk sem búið var að læra íslenska tungu og koma sér fyrir á vinnumarkaðnum. Í sumum tilfellum hefur Alþingi brugðist við með sértækum aðgerðum, en í flestum tilfellum er endirinn ekki svo góður.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra er æðsti yfirmaður lögreglunnar og Útlendingastofnunar. Með ályktun þessari æskjum við þess að hún gefi á næstu dögum út yfirlýsingu þess efnis að hún ætli sér að sjá til þess að atburðirnir í Laugarneskirkju aðfaranótt þriðjudags endurtaki sig ekki og að mannúðarsjónarmið fái að komast að við meðferð mála hælisleitenda. Skili ráðherrann auðu í þessu máli, verður vantrausti lýst á hendur innanríkisráðherra.
Ungir jafnaðarmenn