Forsætisráðherrann eða Seðlabankastjórinn – hvor hefur rétt fyrir sér?

Ef eitthvað er þá kannski kennir þetta okkur Íslendingum þá lexíu að fagmennsku eigi hafa í fyrirrúmi þegar aðilar veljast til ábyrgðar í stjórnkerfinu

Gunnar Axel Axelson er með merkilega grein í Fréttablaðinu í dag – sem sjá má hér – þar sem hann fjallar um hlutverk og skyldur Fjármáleftirlitsins og Seðlabanka Íslands, miðað við núgildandi lög og reglur. Spyr Axel hvort að mögulegt sé að þessar lykileftirlitsstofnanir íslenska fjármálakerfisins, eða lykilaðilar innan þeirra, hafi í aðdraganda hrunsins hafi haft aðrar hugmyndir um hlutverk sitt og stjórntæki en lög gera ráð fyrir?

Í greininni fer Axel yfir sviðið og útlistar, með tilvísun í lög um Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið, sem og þann samstarfsamning sem FME og SÍ hafa sín á milli, þá verkaskiptingu og gagnkvæma upplýsingaskyldu sem hvílir á þessum stofnunum samhliða skyldu þessara tveggja stofnana við að viðhalda fjármálastöðugleika.

Eftirlit með kerfinu vs. eftirlit með einstaka fyrirtækjum
Hlutverk Seðlabankans er þjóðhagslegt í eðli sínu. SÍ á að líta til bankakerfisins í heild, greiðslumiðlunar og starfsumhverfis fjármálafyrirtækja og meta kerfislæga áhættu hverju sinni. Fjármálaeftirlitið hefur hins vegar það hlutverk að fylgjast með einstökum fyrirtækjum og stöðu þeirra. Vakni grunsemdir um bresti í fjárhagslegri stöðu viðskiptabanka sem FME á að hafa eftirlit með, er Fjármálaeftirlitinu skylt að gera bankastjórn Seðlabankans viðvart.

Þessa útlistun hvet ég alla til að kynna sér með því að lesa grein Gunnars.

Annað sem Gunnar Axel fjallar um og vakti athygli margra (eða gaf mönnum hálfgerðan kjánahroll, eins og einn þeirra sem þarna var viðstaddur lýsti fyrir undirrituðum) var þegar þáverandi Seðlabankastjóri, Davíð Oddsson, nýtti tækifærið á fundi Viðskiptaráðs til að verja sig og sínar aðgerðir. Taldi Seðlabankastjórinn Davíð að það hefði ekki samræmst skyldum bankans að hafa eftirlit með fjármálakerfinu og stöðugleika þess í aðdraganda hrunsins. Því hlutverki hefði verið komið fyrir hjá Fjármálaeftirlitinu, með breytingu á lögum um opinbert eftirlit með fjármálafyrirtækjum frá árinu 1998. Sagði Davíð á þessum fundi að:

„[B]ankaeftirlit var undan Seðlabanka Íslands tekið og með því fóru nær allar heimildir bankans og skyldur til að fylgjast með því sem var að gerast innan bankakerfisins. […] Seðlabankinn hefur engin þess háttar úrræði lengur, enda hlutverki hans breytt.“

Ræðuna má finna í heild sinni hér.

Þarna virðist sem svo að Seðlabankastjóri Íslands hafi hrapalega misskilið hlutverk sitt og sinnar stofnunar, eins og Gunnar Axel fer vel yfir í grein sinni.

Stjórnmálamaðurinn og hlutverkaskiptin
Að sama skapi virðist vera hrópandi misræmi í skilningi Seðlabankastjórans Davíðs og stjórmálamannsins og forsætisráðherrans Davíðs. Í þessu samhengi má benda á ræðu Davíðs – forsætisráðherra – á ársfundi Seðlabanka Íslands árið 2004, en þar ræddi hann hvar aðgerðaskyldan lægi ef viðskiptabankar sinntu ekki viðvörunarorðum eftirlitsstofnana:

„Ég hef áður gert að umtalsefni, og tekið undir þær viðvaranir og athugasemdir sem Seðlabankinn hefur sent viðskiptabönkunum. Nauðsynlegt er að stjórnendur viðskiptabankanna taki þær til alvarlegrar skoðunar. […] En ef ekki dregur úr skuldsetningunni og sjáist ekki breytingar á skammtímalánum í raunveruleg langtímalán hljóta forystumenn Seðlabankans að velta því fyrir sér til hvaða aðgerða skuli grípa, þannig að ekki horfi til vandræða. Áminningarnótan er ekki plagg sem bankinn sendir til þess að vísa í, ef illa fer, og firra sig þannig ábyrgð. […] Þýðingarmest er að stjórnendur bankanna sjái þetta sjálfir og ekki þurfi að koma til aðgerða Seðlabanka. En á hinn bóginn má enginn vafi ríkja um að Seðlabankinn tekur fast á málum ef ekki er farið að vinsamlegum tilmælum, sem hann sendir frá sér.

Ræðuna má finna í heild sinni hér.

Burtséð frá pælingum um hvar ábyrgð eftirlitsaðila liggur í íslenska bankahruninu – sem við hljótum að fá einhver svör við í rannsóknarskýrslu Alþingis, þegar hún loksins lítur dagsins ljós – þá er auðvitað grátbroslegt að stjórnmálamaðurinn skuli hafa umturnast jafn rækilega eftir að við tók ábyrgðarstaða embættismannsins og hann horfði yfir skaðbrenndan völlinn.

Ef eitthvað er þá kannski kennir þetta okkur Íslendingum þá lexíu að fagmennsku eigi hafa í fyrirrúmi þegar aðilar veljast til ábyrgðar í stjórnkerfinu, og að Seðlabankinn sem og aðrar stofnanir ríkisvaldsins eru ekki staðir til að setja inn afdankaða stjórnmálamenn!

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand