Ég vil frekar fara þá leið en taka upp komugjöld vegna innlagnar á sjúkrahús eins nú á að gera. Grafalvarlegt. Er þetta táknræn gjaldtaka sem sýnir að tækifærið til að byggja á jöfnuði, á ekki að nota?
Það sem Ísland þarf núna er að endurbyggja samfélagið á jöfnuði. Vinda ofan af misskiptingunni sem seinasta ríkisstjórn hafði unnið leynt og ljóst að. Til þess þarf að beina hugarfarsbreytingunni sem er að verða, í réttan farveg. Augljós farvegur eru fjárlög íslenska ríkisins sem nú eru til umræðu.
Hvernig er verið að forgangsraða þar? Spurningin er sérstaklega mikilvæg nú þegar mikið þarf að skera niður. Hrópandi dæmi um einkennilega forgangsröðun er hinn mikli niðurskurður til Háskóla Íslands og Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem nú blasir við. Rifjum fyrst upp þá staðreynd að ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að opna háskólana til að mæta auknu atvinnuleysi. Gott. Bara í HÍ hafa nú 1400 manns sótt um nám, þar af helmingur í meistaranámi. En það eru svik að beina fólki inn í skóla á sama tíma og jafn mikið fjármagn er tekið út úr þeim.
Tæpur milljarður er tekinn af HÍ. 270 milljónir í almennan rekstrarkostnað og 656 milljónir í fyrirhugaða hækkun á rannsóknaframlagi sem búið var að ráðstafa. Framlög til LÍN lækka um 1360 milljarða. Miðað við fjölda nýrra lánþega og hversu brýnt er að hækka framfærslulánin til allra lánþega, blasir við að sjóðurinn stendur ekki undir þessu.
Táknræn gjaldtaka
Það má vera að upptaka hátekjuskatts væri að miklu leyti táknræn aðgerð, þótt orð formanns Samfylkingarinnar um það mál hafi verið teygð. Hún myndi samt skila peningum. Ég vil frekar fara þá leið en taka upp komugjöld vegna innlagnar á sjúkrahús eins nú á að gera. Grafalvarlegt. Er þetta táknræn gjaldtaka sem sýnir að tækifærið til að byggja á jöfnuði, á ekki að nota?
UJ sendu frá sér ályktun á mánudaginn. Þar er dregið í efa að Sjálfstæðisflokkurinn sé fær um að taka þátt í enduruppbyggingu Íslands þar sem byggt er á jöfnum tækifærum. Samfylkingin hefur náð mörgum velferðarmálum í gegn í ríkisstjórnarsamstarfinu en nú öskrar Ísland á enn betri forgangsröðun í þágu jafnaðar.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 18. desember 2008.