Freyja Steingrímsdóttir, 23 ára Reykvíkingur, sækist eftir 7.-8. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík sem fer fram 16.-17. nóvember næstkomandi.
Freyja er með BA-gráðu í stjórnmálafræði og stundar nú framhaldsnám í hagnýtum jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands. Freyja situr um þessar mundir í miðstjórn Ungra jafnaðarmanna og gegnir embætti varaformanns Ungra Evrópusinna.
Freyja hefur starfað á skrifstofu lífskjara- og vinnumála í velferðarráðuneytinu sem starfsmaður samráðshóps um málefni ungs fólks og í dag gegnir hún starfi aðstoðarmanns lektors við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands meðfram námi sínu.
Freyja leggur áherslu á að „brúa kynslóðabilið innan hefðbundinna lýðræðisstofnana, stuðla að virkum umræðustjórnmálum og auka traust almennings, sér í lagi ungs fólks, á stjórnmálum“.
Jafnframt eru málefni og hagsmunir ungra einstaklinga Freyju hugleiknir en hún vill að stjórnvöld og samfélagið beiti sér sérstaklega fyrir málefnum ungs fólks, sér í lagi í mennta- og atvinnumálum.
Aðild Íslands að Evrópusambandinu er Freyju hjartans mál. Hún er staðráðin í því að stuðla að opinni og virkri umræðu um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
„Minna þarf á að Evrópusambandið er ekki gæluverkefni stjórnmálastéttarinnar heldur gríðarstórt hagsmunamál fyrir íslenskan almenning,“ segir Freyja.