,,Það er hins vegar svo að öll erum við mótuð af umhverfinu í kringum okkur og fólkinu sem við eigum samskipti við. Það er góð ástæða fyrir því að formaður Frjálshyggjufélagsins prumpar ekki kröftuglega í matarboðum hjá Hannesi Hólmsteini, geltir ekki á málfundum eða mætir í bleiku pilsi í vinnuna. Vissulega er honum, sem og öllum öðrum, full frjálst að gera hvern af þessum hlutum – ekkert af þessi er ólöglegt og ekkert ómögulegt.“ segir Agnar Freyr Helgason, formaður Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík, í pistli dagsins.
Í nýlegri færslu á heimasíðu sinni gerir formaður Frjálshyggjufélagsins, Friðbjörn Orri Ketilsson, launamun kynjanna að umtalsefni. Raunar hefur hann fá orð um launamuninn, heldur styðst aðallega við myndrænan samanburð. Stillir hann saman legsteins-auglýsingu VR, þar sem heildarlaun „hennar“ yfir ævina eru einungis 80% af heildarlaunum „hans“ yfir ævina annars vegar, og hins vegar statistík um fjölda starfandi í fullu starfi, flokkað eftir kyni. Hlutföllin á milli súlnanna á myndunum tveim eru sláandi lík úr fjarska, enda er boðskapur færslunnar á þá leið að þarna sé komin skýringin á launamuninum og það þurfi einfaldlega ekki að ræða það mál neitt frekar. Konur eigi bara að vinna meira.
Eureka!
Vissulega er það rétt að ein af meginskýringum þess að konur hafi lægri heildarlaun en karlar sú að þær eru í mun minna mæli í fullu starfi á vinnumarkaði. Það er staðreynd.
En þótt að við getum skýrt hluta launamunarins með þeirri staðreynd, þýðir það alls ekki að við getum réttlætt hann með sömu rökum. Jú, konur eru síður í fullu starfi en karlar og atvinnuþátttaka þeirra er almennt minni. Ástæður þess eiga sér hins vegar djúpar rætur í því samfélagi sem við búum í og þótt að ástæðurnar séu hluti af skýringunni, þá eru þær líka hluti af vandamálinu. Við eigum ekki að láta staðar numið við að útskýra hluta launamunarins með mismunandi atvinnuþátttöku kynjanna – við eigum að ganga lengra og spyrja hvers vegna atvinnuþátttaka kvenna er svo frábrugðin atvinnuþátttöku karla.
Áður en kemur að þeirri spurningu staðnæmist hinn fjötralausi frjálshyggjumaður hins vegar. Hugmyndafræðilegur heimur hans leyfir ekki slíkar vangaveltur – félagsmótun er firring í hans huga.
Það er hins vegar svo að öll erum við mótuð af umhverfinu í kringum okkur og fólkinu sem við eigum samskipti við. Það er góð ástæða fyrir því að formaður Frjálshyggjufélagsins prumpar ekki kröftuglega í matarboðum hjá Hannesi Hólmsteini, geltir ekki á málfundum eða mætir í bleiku pilsi í vinnuna. Vissulega er honum, sem og öllum öðrum, full frjálst að gera hvern af þessum hlutum – ekkert af þessi er ólöglegt og ekkert ómögulegt.
Að sama skapi er það síður en svo sjálfgefið að konur séu í fullu starfi til jafns við karla – samfélagið hefur ómeðvitað ákveðnar væntingar um hlutverk og skyldur þeirra, sem mótast hafa yfir margra alda tímaskeið. Þannig lendir ein þingkvenna Samfylkingarinnar til dæmis ósjaldan í því að vinnufélagar hennar hafi ómældar áhyggjur af afdrifum dóttur hennar þegar þingfundir dragast á langinn. Kostugleg er sagan af því þegar geðþekkur þingmaður Sjálfstæðisflokksins vatt sér að henni, þar sem hún ræddi við félaga sinn í þingflokki Samfylkingarinnar, sex barna faðirinn, og spurði HANA: ,,Hver er að passa?“. Viðhorfin og væntingarnar sem þessir tveir þingmenn standa andspænis eru alls ekki þau sömu.
Við erum öll reyrð í fjötra samfélagsins. Þau viðmið og gildi sem eru ríkjandi hverju sinni takmarka frelsi okkar allra. Auðvitað eru einstaklingar ekki ósjálfstæðar og lítt hugsandi verur sem uppfylla möglunarlaust það hlutverk sem þeim er ætlað. Frjálshyggjan er hins vegar gjörsamlega blind á þátt samfélagsgerðarinnar á mótun einstaklingsins – afstæði einstaklingshyggjunnar er algjört.
Það er ágætt að hafa þetta hugfast þegar legsteins-auglýsing VR er gaumgæfð. Í henni felst nefnilega ekki einungis gagnrýni á launamun kynjanna, heldur einnig orsakir hans. Og þótt að formaður Frjálshyggjufélagsins telji skýringuna augljósa þurfum við hin að velta því fyrir okkur hvort við sættum okkur við skýringuna. Hvort að skýringin sé í rauninni ekki hluti af vandamálinu.