Til hvers að kjósa?

,,Þarna er alvöru lýðræði í framkvæmd. Það er verið að færa íbúunum aukin völd til að hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi. Heyrst hefur að ýmsum aðilum innan Sjálfstæðisflokks og VG hugnist ekki þessi aðferð. Þar tala stjórnmálamenn sem eru vanir því að hafa vit fyrir fólki.“ Segir Helga vala Helgadóttir frambjóðandi Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Það er til fyrirbæri sem kallast lýðræði. Sumum hugnast lýðræðið meira en öðrum, og margir telja sig kunna hina sönnu skýringu á hugtakinu lýðræði. En til hvers er þetta lýðræði og á hvaða hátt kemur það að gagni í okkar daglega lífi?

Nú standa þingkosningar fyrir dyrum. Landsmenn ganga að kjörborðinu og kjósa þá sem þeir vilja að haldi um stjórnartaumana í landinu næstu fjögur árin. Í þann tíma fá ákveðnir aðilar að forgangsraða verkum ríkisins. Eftir það koma þingkosningar að nýju og þá fá þeir sömu kannski völdin áfram eða nýir eru valdir inn. Meirihlutinn ræður, þannig virkar lýðræðið, þeir sem fá flest atkvæði eiga meiri möguleika á að mynda ríkisstjórn. Þetta með atkvæðafjöldann er þó ekki algilt, því að undanförnu höfum við dæmi um einmitt hið gagnstæða, að þeir sem í raun hafa goldið afhroð í kosningum ná svo völdum langt umfram traust kjósenda. Nóg um það.

Kosið um fleira í bráð
Á næstunni eru líka annars konar kosningar. Hafnfirðingar eiga þess kost að kjósa um það hvort stækka eigi álverið í Straumsvík. Ríkisstjórnin hefur gefið grænt ljós á stækkun fyrir sitt leyti með útgáfu tilskilinna leyfa en Samfylkingin í Hafnarfirði hefur fært íbúunum mikilvægt tæki til að hafa áhrif á niðurstöðuna. Þeir hafa í reynd fengið neitunarvald. Samfylkingin markar þarna tímamót sem vonandi er bara forsmekkurinn að virkara lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslum um afdrifarík samfélagsmál. Þarna er alvöru lýðræði í framkvæmd. Það er verið að færa íbúunum aukin völd til að hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi. Heyrst hefur að ýmsum aðilum innan Sjálfstæðisflokks og VG hugnist ekki þessi aðferð. Þar tala stjórnmálamenn sem eru vanir því að hafa vit fyrir fólki.

Það hefur ekki tíðkast hér á landi að spyrja þjóðina nokkurs utan þessara hefðbundnu þing- og sveitarstjórnarkosninga á fjögurra ára fresti, þótt vert sé að minnast á kosninguna sem stundum er laumað með í þessa þjóðarkosningu, um það hvort fólki vilji eiga þess kost að kaupa sér brennivín í næsta nágrenni við heimili sitt.

Langtímaáhrif í Hafnarfirði
Kjörnir fulltrúar þjóðarinnar fá umboð til starfans í fjögur ár í senn. Eftir það er óvíst hverjir halda um stjórnartauma á því svæði. Sveitarfélög og byggðarlög samanstanda að meirihluta til af fólki sem ætlar sér að búa þar lengur en í eitt kjörtímabil. Því er það í hæsta máta óeðlilegt að sniðganga skoðanir þessa fólks þegar ráðist er í stórframkvæmdir á svæðinu eða aðgerðir sem hafa mikil þjóðhagsleg áhrif. Vissulega eru stjórnmálamenn lýðræðislega kjörnir en þeir eru ekki kosnir til að gera hvað sem þeim dettur í hug að framkvæma á kjörtímabilinu. Því er það eina vitið, að spyrja íbúana hver hugur þeirra sé til viðamikilla framkvæmda, sem munu móta umhverfi þeirra til framtíðar. Sú skoðun meirihlutans sem úr slíkum kosningum kemur hlýtur að vega þyngra en ákvörðun stjórnmálaflokks sem kosinn er til að halda um stjórnartauma í fjögur ár í senn. Við höfum dæmi um það hvarvetna að ákvörðun fyrri meirihluta er breytt eða snúið við í ákveðnum málum á hverju einasta kjörtímabili. Þegar um er að ræða meiriháttar framkvæmd sem snertir alla íbúa svæðisins er því ekki bara eðlilegt að spyrja þá, sem eiga að búa þar löngu eftir stjórnarskipti, heldur er annað í raun fáránlegt.

Það skiptir miklu máli fyrir lýðræðið í landinu að þegnarnir fái að kjósa um meiriháttar ákvarðanir, því þegar almenningur hefur fellt sinn dóm í beinni íbúakosningu er vandséð hvert kjörnir fulltrúar ættu að sækja lögmæti þess að hnekkja þeim dómi.

Íbúakosningin í Hafnarfirði er því söguleg í tvennum skilningi. Annars vegar gefst íbúunum einstakt tækifæri til að kjósa beint, með eða á móti áframhaldandi stóriðjuframkvæmdum ríkisstjórnarinnar. Hins vegar hefur Samfylkingin rutt brautina fyrir beint lýðræði á Íslandi, sem er mikið framfaraspor í íslenskum stjórnmálum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11.mars 2007.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand