Fjölgun öryrkja á Íslandi

Umræðan um öryrkja og fjölgun þeirra undanfarin ár hefur verið áberandi í kjölfar þess að skýrsla(1) Tryggva Þórs Herbertssonar, forstöðumanns hagfræðistofnunar HÍ, kom nýlega út. Þar er bent á að öryrkjum hafi fjölgað úr 8.700 árið 1992 í um 13.800 árið 2004 (eða um 59%). Athygli vekur að fjölgunin er hlutfallslega mest hjá yngri öryrkjum og að sterk tölfræðileg tengsl eru á milli fjölgunar öryrkja og aukins atvinnuleysis. Umræðan um öryrkja og fjölgun þeirra undanfarin ár hefur verið áberandi í kjölfar þess að skýrsla(1) Tryggva Þórs Herbertssonar, forstöðumanns hagfræðistofnunar HÍ, kom nýlega út. Þar er bent á að öryrkjum hafi fjölgað úr 8.700 árið 1992 í um 13.800 árið 2004 (eða um 59%). Athygli vekur að fjölgunin er hlutfallslega mest hjá yngri öryrkjum og að sterk tölfræðileg tengsl eru á milli fjölgunar öryrkja og aukins atvinnuleysis.

Það sem mér finnst reyndar einna athyglisverðast í skýrslunni er að samkvæmt nýlegri könnun(2) voru aðeins 12% þeirra kvenna og 9% karla, sem voru metin til örorku árið 1992, komin aftur á vinnumarkaðinn árið 2004.

Endurhæfing
Áhyggjuefni er hve fáir öryrkjar ná bata og komast aftur á atvinnumarkaðinn. Eins og Öryrkjabandalag Íslands hefur bent á sýna rannsóknir að flestir þeirra sem geta unnið vilja vinna. Því þarf að sjá til þess að örykjum bjóðist öflug og fjölbreytt endurhæfing sem gerir þeim kleift að komast aftur á vinnumarkaðinn.

Möguleikar á endurhæfingu þurfa að vera fjölbreyttir þar sem örorka getur stafað af svo mörgu. Í skýrslu Tryggva kemur t.d. fram að í 1. sæti yfir fyrstu orsök örorku hjá körlum árið 2004 eru geðraskanir (38%) en stoðkerfissjúkdómar hjá konum (34%). Þótt öflug og fjölbreytt endurhæfing kosti mikið getur hún margborgað sig, ekki bara fyrir öryrkjana sjálfa heldur fyrir þjóðfélagið í heild. Samkvæmt skýrslu Tryggva voru heildargreiðslur til öryrkja um 18 milljarðar árið 2003 og um 34 milljarðar vegna tapaðra vinnustunda sama ár. Það er því til mikils að vinna.

Annað sem mætti gera og ég ræddi í grein minni ,,Í landi allsnægta” (des. 2004) er að veita fyrirtækjum sem ráða öryrkja með skerta starfshæfni ákveðin skattafríðindi. Þannig myndi ríkissjóður spara örorkugreiðslur en á móti færi sá sparnaður til fyrirtækja í formi skattafríðinda.

Eru örorkubætur of háar?
Í skýrslu sinni segir Tryggvi: ,,Sennilega er áhrifamesta aðgerðin til að hvetja öryrkja til að fara út á vinnumarkaðinn, og letja fólk til að sækja um örorkumat, sú að draga úr fjárhagslegum ávinningi af því að vera á örorkubótum, nema þegar um algjört neyðarbrauð er að ræða (bls. 10).”

Stór galli er á þessari tillögu Tryggva því að með slíkri aðgerð myndu greiðslur til þeirra öryrkja sem sannarlega þurfa á þeim að halda minnka. Hvernig væri að öðrum kosti hægt að draga úr ,,fjárhagslegum ávinningi” öryrkja? Tryggvi er væntanlega í þessu sambandi að hugsa um að minnka hvata fólks til þess að hverfa af atvinnuleysisbótum og sækja um örorku. En hvað þá með þá sem á engan annan hátt geta tryggt sér lífsviðurværi? Slíkar aðgerðir væru verulega ósanngjarnar gagnvart þeim.

Lausnin verður fyrst og fremst að felast í strangara eftirliti og tíðara endurmati, sérstaklega með tillit til sjúkdóma sem von er til að lækna megi með endurhæfingu. Öryrkjabandalag Íslands ætti að fagna slíku eftirliti og styðja stjórnvöld í því að framkvæma það. Með því fá þeir sem sannarlega þurfa á greiðslunum að halda vonandi betri stuðning í framtíðinni frá hinu opinbera. Aukið eftirlit væri jafnframt fallið til þess að bæta ímynd öryrkja sem því miður virðist hafa beðið nokkurn hnekki, því að alltaf eru jú svartir sauðir í hópnum.

________________
(1) Fjölgun öryrkja á Íslandi. Orsakir og afleiðingar. Tryggvi Þór Herbertsson. Heilbrigðis og tryggingamálaráðuneytið. Reykjavík.
(2) www.laeknabladid.is/2005/06/nr/2045

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand