Á afmæli Írakstríðsins

Davíð Oddsson sem þekktur er fyrir að vera dreissugur hér heima fyrir virðist telja virðingu sinni best samboðið að vera í slagtogi við þann forseta Bandaríkjanna sem þeir sjálfir segja að hafi skaðað þá mest á alþjóðavettvangi. Þann þjóðarleiðtoga sem forsetaefni Demókrata telur að hafi rekið heimskulegustu og hættulegustu utanríkisstefnu í sögu Bandaríkjanna. Og Halldór Ásgrímsson er svo lítilla sæva að hann fylgir forsætisráðherranum eftir í þessari afstöðu. Enn rennur blóð um slóð
Í gær var eitt ár liðið frá því að Bandaríkjamenn og Bretar réðust á Írak. Mikið blóð hefur runnið síðan, bæði í Írak og annars staðar þar sem ,,stríðið við hryðjuverkamenn” fer fram. Daglegu lífi írösku þjóðarinnar er stöðugt raskað. Í Írak ríkir nú nánast algjört stjórnleysi, þjófar og ræningjar ógna almenningi daga og nætur, enn er ekkert rafmagn á stórum svæðum, enn er ekkert rennandi vatn og frárennslismál í ólestri. Allt var þetta eyðilagt í stríðinu og endurreisnin gengur á hraða snigilsins þar sem að henni er unnið, en annars staðar er situr allt í sama fari. Árangur baráttunnar við andstæðinga innrásarherjanna er grátlegur, frá því í ágúst síðastliðnum hafa yfir tuttugu risastórar bílsprengjur verið sprengdar sem grandað hafa fleiri hundruð manns, bæði innlendum og erlendum ásamt eyðileggingu á mannvirkjum. Fallnir hermenn eru sendir heim í líkpokum nánast dag hvern og ekki sér fyrir endann á uppgangi skæruhópa, sem færast æ meira í fang og beita hættulegri vopnum en áður. Kostnaður innrásarríkjanna er gífurlegur og fara þau nú með betlistaf á hendur öðrum til þess að safna fé í hítina. Engar trúverðugar áætlanir eru uppi um brottflutning herjanna frá Írak eða um öfluga uppbyggingu í landinu eftir eyðileggingarstríðið sem bitnað hefur verst á saklausum almenningi, þeim hinum sama er frelsa átti frá kúgun og ömurlegum lífskjörum.

,,Heimskt er heimaalið barn”
Það hefur lengi verið vitað að Bush Bandaríkjaforseti er ,,heimskur” maður í þeim gamla skilningi að ekki hafi hann víða farið eða hafi mikinn skilning á því sem fjarri honum er. Hann deilir þeim slæmu hugmyndum með mörgum Bandaríkjamönnum að þeirra skoðun og túlkun sé öðrum æðri og þessu megi troða upp á aðrar þjóðir í krafti efnahagslegs styrks, pólitísks þrýstings eða með vopnavaldi. Hin gamla ,,reyrstafskenning” sem iðkuð var í reynd gagnvart öðrum Ameríkuríkjum á síðustu öld er enn í fullu gildi. Nú á tímum er hún hins vegar útfærð á óprúttinn hátt gagnvart umheiminum öllum. ,,Ef þú hlýðir með góðu klappa ég þér, en annars verðurðu hýddur.”

Nú er vitað að innrásin í Írak var ekki tengd svokallaðri hryðjuverkaógn. Sá gamli stríðsæsingamaður og fornvinur Saddams Husseins, Donald Rumsfeld vildi gera árás á Írak strax eftir árásirnar á Tvíburaturnana. Þegar honum var bent á að engir al-Kaídamenn væru þar þá sagði hann að þar væru hins vegar mörg góð skotmörk. Það er nefnilega alveg ljóst að Bush stjórnin var staðráðin í að ráðast inn í Írak frá fyrsta valdadegi. Það tók hana hins vegar nokkurn tíma að þvæla málið og afla sér nægilega margra hlýðinna bandamanna til þess að hún treysti sér til að fara gegn alþjóðasamfélaginu og alþjóðalögum. Réttlæting stríðsins um gereyðingarvopnaeign Íraka hefur reynst röng. Hvorki vopnaleitarmenn Sameinuðu þjóðanna fyrir stríð né vopnaleitarsveitir innrásarríkjanna eftir stríð hafa fundið slík vopn og æ fleiri telja að slík vopn hafi ekki verið til í landinu frá því upp úr 1990.

Blóðugur Blair
Öllum friðelskandi mönnum á vinstri væng stjórnmálanna voru það mikil og sár vonbrigði að Tony Blair leiðtogi breska Verkamannaflokksins skyldi slást svo einarðlega í för með haukunum í Washington. Sjálfsagt hafa hans eigin flokksmenn margir hverjir tekið sér það sárast. Tveir nánir samstarfsmenn hans, Clarie Short og Robin Cook, sögðu af sér ráðherrradómi í mótmælaskyni við stefnu eigin stjórnar og hafa síðasta ár verið harðir gagnrýnendur stríðstefnu Tonys Blair. Forsætisráðherrann hefur átt í vök að verjast og nú sýna skoðanakannanir að þessi fyrrum vinsæli stjórnamálamaður nýtur síminnkandi vinsælda og trausts. Kostnaður Breta af stríðsrekstrinum og dvöl herjanna í Írak er gífurlegur og nú um stundir er stirt á milli varnarmálaráðherrans Geoffs Hoon og fjármálaráðherrans Georgs Brown út af sívaxandi útgjöldum til hernaðarmaskínunnar.

Þátttaka Breta í inrrásinni í Írak hefur skaðað þá á alþjóðavettvangi og gert þá að augljósu skotmarki hryðjuverkamanna eins og Spánverjar reyndu á sjálfum sér með svo hræðilegum hætti fyrir nokkrum dögum.

Haukarnir Halldór og Davíð
Ísland var eitt af þeim ,,viljugu og staðföstu” ríkjum sem slógust í hópinn með stríðshaukunum í Washington. Davíð Oddsson forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra gerðust aðilar að Íraksstríðinu án þess að spyrja þjóð né þing. Þessi ákvörðun þeirra hefur verið harðlega gagnrýnd hér heima og bent á að hún sé í andstöðu við sögu og hefðir Íslendinga, sem ekki hafi farið með hernaði á hendur öðrum þjóðum. Ábyrgð þeirra er því mikil og ekki sér fyrir endalok þessa stuðnings við stríðrekstur í fjarlægum heimshluta.

Davíð Oddsson sem þekktur er fyrir að vera dreissugur hér heima fyrir virðist telja virðingu sinni best samboðið að vera í slagtogi við þann forseta Bandaríkjanna sem þeir sjálfir segja að hafi skaðað þá mest á alþjóðavettvangi. Þann þjóðarleiðtoga sem forsetaefni Demókrata telur að hafi rekið heimskulegustu og hættulegustu utanríkisstefnu í sögu Bandaríkjanna. Og Halldór Ásgrímsson er svo lítilla sæva að hann fylgir forsætisráðherranum eftir í þessari afstöðu.

Íslendingar þurfa að breyta um stefnu varðandi Írak alveg eins og Spánverjar gera nú í kjölfar nýgenginna kosninga. Íslendingar eiga enga samleið með þeim þjóðum sem fara með vopnum um heiminn og skipta ríkjum í góð og ill eftir sínu höfði. Okkar erindi við heimsbyggðina á að vera í anda friðar og frjálsrar þrónuar til að auka jafnræði með þjóðum og bæta lífskjör þeirra sem eru fátækastir hér á jörð. Herkostnaðinum á vígvöllunum væri betur varið til uppbyggingar og hjálpar við þjóðir til sjálfshjálpar en til þess að fara með eldi og eimyrju gegn fólki og leggja löndin í rústir.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand