,,Í vikunni samþykkti ríkisstjórnin tillögu Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra um aðgerðir til að halda verðlagi í skefjum í kjölfar lækkunar á gengi krónu. Er þetta aðeins einn liður í þeim aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem unnið er að um þessar mundir. Það er því leiðinlegt að hlusta á tal af því tagi sem Framsókn og Vinstri grænir hafa haldið uppi sem er í senn innantómt og óábyrgt,” segir Örlygur Hnefill Örlygsson í grein dagsins….
Undanfarna daga hafa stjórnaandstöðuflokkarnir farið mikinn í fjölmiðlum og jafnvel gengið svo langt að krefja ríkisstjórnina um afsögn. Flokkarnir hafa sakað stjórnina um að sitja aðgerðalausa hjá í þeim öldudal sem efnahagslíf okkar er í nú um mundir. Staðreyndin er hins vegar allt önnur.
Í vikunni samþykkti ríkisstjórnin tillögu Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra um aðgerðir til að halda verðlagi í skefjum í kjölfar lækkunar á gengi krónu. Er þetta aðeins einn liður í þeim aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem unnið er að um þessar mundir. Það er því leiðinlegt að hlusta á tal af því tagi sem Framsókn og Vinstri grænir hafa haldið uppi sem er í senn innantómt og óábyrgt.
Tillögur Björgvins fela meðal annars í sér sérstakt átak Neytendastofu í eftirliti með verðmerkingum, að stemmt verði stigum við villandi tilboðum í verslunum og að ráðist verði í sérstakt átak til að efla verðvitund fólks . Það er nefnilega svo að neytendur ráða meiru um verðþróun en þeir gera sér oft grein fyrir.
Hvað get ég gert?
Fyrir skömmu síðan fór ég í búð til að kaupa mér úlpu. Eftir að hafa skoðað mig um í búðinni endaði ég með eina sem mér leist ágætlega á. Ég missti þó snögglega áhugann eftir að ég leit á verðmiðann og sá að hún kostaði 35 þúsund krónur. Ég gat ekki skilið hvernig hægt væri að selja ekki merkilegri úlpu en svo fyrir svo mikinn pening.
Staðreyndin er hins vegar sú að það er hægt. Það er hægt því hér á landi er fullt af fólki sem virðist gerilsneytt öllu sem kallast verðvitund og lætur bjóða sér nánast hvað sem er.
Hver er sérstaða Íslands
Í haust fór ég í ferðalag til Íran. Þar er verðlag eins frábrugðið því sem við eigum að venjast og hugsast getur. Mér hefur því þótt sérstaklega gaman síðan ég kom heim að benda fólki á nýju Diesel-gallabuxurnar mínar sem ég keypti þar á 1.800 krónur íslenskar. Það er um það bil einn tíundi af því verði sem maður greiðir fyrir buxur af þessu tagi hér á landi. Ég notaði því auðvitað tækifærið og keypti þrennar slíkar úti í Íran.
Hvernig má það samt vera að sams konar gallabuxur geti kostað tíu sinnum meira hér á landi en í Mið-Austurlöndum? Framleiðslukostnaður er sá sami og ef eitthvað er þá gæti ég ímyndað mér að milliliðirnir séu fleiri þegar buxur af þessu tagi eru keyptar í Íran en hér á landi. Hugsanlega er ögn dýrara að flytja buxurnar alla leið til Íslands en það er ekki svo dýrt að verðið eigi að tífaldast.
Svarið er ósköp einfalt: Framleiðendur og seljendur vilja auðvitað græða eins mikið og þeir geta á vörum sínum og land eins og Ísland, þar sem verðvitund er af skornum skammti, hlýtur því að vera paradís kaupmannsins.
Vald neytenda
Ég held það sé hollt að hugsa sig aðeins um þegar maður er að versla, sérstaklega á tímum sem þessum. Gefa sér þó ekki sé nema eina mínútu til að velta því fyrir sér hvert raunvirði vörunnar er og vega svo og meta hvort maður sé virkilega til í að borga uppsett verð. Neytendur verða að gera sér grein fyrir því valdi sem þeir hafa en virðist oft falið. Aðgerðir stjórnvalda verða nefnilega mun áhrifameiri ef neytendur eru með í för.