Fagra Ísland – einföld og sanngjörn náttúruverndarstefna

„Náttúra landsins þarf ekki á áframhaldandi stríði að halda þar sem barist er blett fyrir blett fyrir verndun. Það stríð er fyrirfram tapað.“ Segir Dofri Hermannsson í grein dagsins á Pólitík.is.

Náttúruverndarhlutinn
Fagra Ísland gengur út á að fara núna strax í að rannsaka allt landið með tilliti til náttúruverndar, kortleggja verðmæt svæði og tryggja verndun þeirra. Þetta köllum við Rammaáætlun um náttúruvernd, til mótvægis við Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem aðeins metur náttúruna á forsendum orkuiðnaðarins.


Þangað til Rammaáætlun um náttúruvernd er lokið haldi menn að sér höndum með allar óafturkræfar framkvæmdir hvort sem það eru virkjanir, línulagnir, hálendisvegir eða hálendishótel sem gætu skaðað verðmæt svæði og skorið í sundur víðerni hálendisins.


Þetta er ekki flókin stefna, hún er sanngjörn og hún er laus við allar öfgar.


Mannvirkjaiðnaðurinn fer ekki á annan endann þótt hann bíði nokkur misseri eftir því að við klárum að kortleggja og slá skjaldborg um verðmæt náttúrusvæði. Þegar því er lokið er vel athugandi að skoða framkvæmdir af ýmsu tagi – utan þeirra svæða. Samfylkingin er ekki á móti því, enda er flokkurinn ekki sjálfkrafa á móti öllum framkvæmdum.


Náttúra landsins þarf ekki á áframhaldandi stríði að halda þar sem barist er blett fyrir blett fyrir verndun. Það stríð er fyrirfram tapað. Náttúra Íslands þarf á því að halda að við sameinumst um lausn. Fagra Ísland og Rammaáætlun um náttúruvernd er slík lausn.


Loftslagsmálin

En Fagra Ísland snýst ekki bara um náttúruvernd. Þar er líka tekið á loftslagsmálum, einhverju stærsta umhverfismáli samtímans. Við leggjum til að sett verði tölu- og tímasett markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, að það verði settur losunarkvóti á stóriðju, að álögum á eldsneyti verði breytt það skattlagt eftir mengun og tollum á bifreiðar verði breytt þannig að þær hvetji til minni mengandi umferðar.


Lýðræðismálin

Ísland hefur skrifað undir alþjóðasamning sem er kallaður Árósasamningurinn. Hann fjallar um að tryggja almenningi aðgang að umræðu og þátttöku í mikilvægum ákvörðunum í umhverfismálum. Þennan samning hafa stjórnvöld hins vegar ekki viljað fullgilda. Samfylkingin ætlar breyta þessu, fullgilda Árósasamninginn og hleypa almenningi að ákvörðunum í umhverfis- og náttúruverndarmálum. Án þátttöku almennings eru umhverfismálin ýmist máttlausar tilraunir til að gera gagn eða stjórnvaldsákvarðanir um að gera ógagn. Hvorugt er gott. Það kemur okkur öllum við hvað ákveðið er að gera við landið okkar og allar tilraunir til að bæta umgengni almennings við umhverfið munu mistakast nema almenningur sé virkjaður til þátttöku.

Dofri Hermannsson er frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík norður og varaborgarfulltrúi.

_________

Greinin birtist kosningablaði ungs Samfylkingarfólks – Jöfn og frjáls – er kom nýverið út. Blaðinu var ritstýrt af Helgu Tryggvadóttir og komu fjölmargir að vinnu við blaðið sem er hið glæsilegasta. Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingarinnar veitti blaðinu formlega viðtöku. Myndir úr útgáfugleðinni er hægt að sjá hér.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand