Afhverju frjálslynd jafnaðarmannastefna?

,,Fimm þúsund börn á Íslandi lifa undir fátækramörkum, það eru 8500 börn sem hafa ekki farið til tannlæknis á sl. þremur árum, það skortir 400 hjúkrunarrými fyrir aldraða, liðlega 900 aldraðir Íslendingar deila herbergi með einum, tveimur eða þremur einstaklingum sem þeir eiga enga samleið með og það eru langir biðlistar eftir hjartaaðgerðum.“ Segir Ásgeir Runólfsson formaður Ungra jafnaðarmanna í Garðabæ og Álftanesi í grein dagsins.

Grunngildi jafnaðarstefnunnar og Samfylkingarinnar felast í því að veita öllum jöfn tækifæri. Einstaklingurinn á að fá tækifæri til að lifa því lífi sem hann velur sér óháð því hver uppruni hans er, því þannig tryggjum við raunverulegt frelsi einstaklingsins.


Hvernig tryggjum við jöfn tækifæri?

Við gerum það með því að tryggja öllum ákveðin lágmarks lífskjör, með því að bjóða upp á öflugt gjaldfrjálst og fjölbreytt menntakerfi sem er öllum opið og með öflugu velferðarkerfi sem gefur okkur tækifæri til að verða veik (eða kemur í veg fyrir að við verðum veik) og gömul án þess að missa okkar lágmarks lífskjör.


Eru jöfn tækifæri í samfélaginu sem við lifum í?

Nei, t.d. eru 5 þúsund börn á Íslandi sem lifa undir fátækramörkum, það eru 8500 börn sem hafa ekki farið til tannlæknis á sl. þremur árum, það skortir 400 hjúkrunarrými fyrir aldraða, liðlega 900 aldraðir Íslendingar deila herbergi með einum, tveimur eða þremur einstaklingum sem þeir eiga enga samleið með og það eru langir biðlistar eftir hjartaaðgerðum.


Hvað með vinnumarkaðinn?

Upplegg nútímajafnaðarstefnu er að hafa frjálsan vinnumarkað þar sem sköpunarkraftur einstaklinganna fær að njóta sín óheftur. En þó verður að tryggja með lögum að einokun eigi sér ekki stað og lögin má líka nota til að uppræta ákveðna markaðsbresti. T.d. eru oft á tíðum litlir hvatar fyrir fyrirtæki til að sporna við mengun sem fylgir rekstri þeirra, þá er þörf á reglum til að halda aftur menguninni. Annars á markaðurinn að vera frjáls.


Hver er framtíð íslensks vinnumarkaðar?

Hún liggur í auknu þekkingarstigi íslensku þjóðarinnar. Þess vegna er nauðsynlegt að veita meira fjármagni í menntakerfið en við gerum núna. Ísland er í 21. sæti af 30 OECD löndum er kemur af fjárfestingum í háskólastiginu og í 16. sæti er kemur að fjárfestingum í framhaldsskólastiginu. Þarna stöndum við hinum Norðurlöndun langt að baki þrátt fyrir að við séum yngri þjóð. Í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa helstu fjárfestingar hennar legið í virkjunum og gylliboðum til erlendra fyrirtækja svo að þau komi og byggi álver sín hér á landi. Það hefur verið lagt þvílíkt ofurkapp á að fá þau til landsins að ekki er hægt að gefa upp hvert sé verðið á rafmagninu sem þau kaupa af okkur, því er ómögulegt að vita fyrir hvaða verð við erum að selja dýrmæta ósnortna náttúru okkar. Það helsta sem þessi uppbygging hefur skilað okkur er mikil verðbólga, einu hæstu vextir í heimi og miklar gengissveiflur sem koma sérstaklega illa við íslensk fyrirtæki sem starfa á alþjóðlegum markaði – einkum litlum vaxandi sprotafyrirtækjum. Að ónefndum 38 milljarða króna reikning sem hefur verið sendur til heimilanna í landinu á þessu ári eða um 500 þúsund krónur á hvert heimili. Þessi slæma efnahagstjórnun hefur hrakið þekkingarfyrirtæki úr landi. Auðvelt er að gera betur, með skynsamri efnahagsstjórnun og skemmst er að minnast tillagna Samfylkingarinnar, Nýja atvinnulífið, sem fengu 1., 2. og 3. verðlaun á sprotaþingi.


Það er kosið 12. maí nk. Þá gefst Garðbæingum og öðrum tækifæri að kjósa yfir sig flokk sem er sannur boðberi frjálslyndrar jafnaðarmannastefnu. Þörf er á breytingum því núverandi ríkisstjórn er þreytt eftir 12 ára valdasetu og Samfylkingin er svarið. Verum jöfn og frjáls.

Ásgeir Runólfsson , skipar 13. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi og formaður Ungra jafnaðarmanna í Garðabæ og Álftanesi.


Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand