FÆKKUM GLÆPUM – Afbrot og viðurlög

FÆKKUM GLÆPUM – Afbrot og viðurlög Glæpir eru samfélagslegt vandamál. Til að tryggja mikil lífsgæði í landinu og öryggi borgaranna er mikilvægt að stemma stigu við fjölgun glæpa og stefna markvisst að því að fækka þeim.

Ungir jafnaðarmenn vara eindregið við því að menn slái því strax föstu að eina leiðin til að fækka glæpum sé að þyngja refsingar. Fræðilegar rannsóknir og athuganir leiða í ljós að svo er jafnan ekki. Almennt eru Ungir jafnaðarmenn því þeirrar skoðunar að ekki beri að þyngja refsingar.

Samt telja Ungir jafnaðarmenn mikilvægt að refsirammi vegna alvarlegra kynferðisbrota verði betur nýttur en nú er og þá sérstaklega þegar um endurtekin brot er að ræða. Ungir jafnaðarmenn telja að það sama eigi við um alvarleg ofbeldisbrot.

Þar sem mikill fjöldi þeirra sem dæmdur er til refsingar hefur brotið af sér áður hlýtur að vera mikilvægur liður í fækkun glæpa að reyna að koma brotamönnum aftur á réttan kjöl – snúa þeim af villu síns vegar. Þess vegna leggja Ungir jafnaðarmenn áherslu á að fjölga refsiúrræðum og breyta fangelsunum í landinu.

Öflug löggæsla og markvissar forvarnir við ýmiss konar vandamálum, til dæmis fíkniefnaneyslu, eru líka til þess fallnar að fækka glæpum. Þess vegna leggja Ungir jafnaðarmenn mikla áherslu á öflugri löggæslu og meira forvarnastarf.

Öflugri löggæslu
Ungir jafnaðarmenn fordæma það fjársvelti sem lögreglan í landinu hefur mátt búa við undanfarin ár og telja að það dragi úr öryggi borgaranna. Til að efla löggæsluna vilja Ungir jafnaðarmenn til dæmis:

a) Styrkja grenndarlöggæslu, jafnt á höfuborgarsvæðinu sem utan þess.
b) Skoða kosti þess að fækka lögreglumdæmum, þannig að kostnaður við yfirstjórn minnki.
c) Skoða í samvinnu við alla hagsmunaðila kosti þess og galla að sveitarfélög taki við einhverjum hluta löggæslunnar á einstökum svæðum.

Kynferðisbrot
Að undanförnu hefur verið mikil umræða í þjóðfélaginu um þyngd dóma við kynferðisbrotum. Ungir jafnaðarmenn telja mikilvægt í þessu sambandi:

a) Að kaflinn um kynferðisbrot í almennum hegningarlögum verði tekinn til gagngerrar endurskoðunar.
b) Að refsirammi verði betur nýttur við ákvörðun refsingar vegna alvarlegra kynferðisbrota og þá sérstaklega vegna ítrekaðara kynferðisbrota.
c) Að bætur til þolenda kynferðisbrota verði hækkaðar og að þeim gefist kostur á ókeypis sálfræði- og/eða geðlæknismeðferð eftir þörfum.
d) Að kynferðisbrot fyrnist ekki.
e) Að meðferðarrúrræði til handa kynferðisbrotamönnum verði stórefld.

Ungir jafnaðarmenn telja kynferðisbrot gegn börnum meðal allra svívirðilegustu glæpa og vilja því að sérstök áhersla verði lögð á þau þegar kemur að framkvæmd atriðanna hér að ofan. Virkja þarf opinberar stofnanir og félagasamtök í markvissu forvarnarstarfi gegn kynferðisbrotum.

Ofbeldisbrot
Ungir jafnaðarmenn telja að sumir dómar vegna alvarlegra líkamsárása hafi verið nokkuð vægir. Samtökin telja því að þar mætti nýta refsirammann betur og þá sérstaklega þegar um síendurtekin, alvarleg brot er að ræða.

Fíkniefnabrot
Dómar vegna fíkniefnabrota hafa þyngst verulega undanfarin ár og refsirammi vegna þeirra hefur verið rýmkaður.
Ungir jafnaðarmenn vara við mjög þungum refsingum vegna fíkniefnabrota. Þungar refsingar eiga að vísu við í alvarlegum tilvikum en oft og tíðum eru fíkniefnabrot persónulegur harmleikur sem takast verður á við með öðrum hætti en fangelsun. Ungir jafnaðarmenn vilja því að refsingar vegna vægra fíkniefnabrota felist í auknum mæli í öðrum úrræðum.

Önnur refsiúrræði en fangelsi
Ungir jafnaðarmenn telja að þegar brot eru tiltölulega umfangslítil og viðurlög ekki mjög hörð, sé ástæða til að leita annarra betrunarleiða en fangelsisvistar. Samtökin fagna því auknu vægi ýmissa annarra betrunarleiða. Ungir jafnaðarmenn vilja:

a) Leggja ríka áherslu á samfélagsþjónustu, áfangaheimili og ýmiss konar meðferðarúrræði. Ástæða er til að rýmka reglur um hvenær kostur er á að láta menn taka út refsingu með þessum hætti.
b) Láta kanna hvort skynsamlegt er að fela dómurum heimild til að dæma menn til að hlíta slíkum refsiúrræðum en í dag er það einvörðungu Fangelsismálastofnun sem tekur ákvörðun um slíkt.

Fangelsi
Ungir jafnaðarmenn vilja gera ýmsar breytingar á skipulagi innan fangelsisveggjanna. Í þessu sambandi vilja Ungir jafnaðarmenn leggja áherslu á:

a) Að sem stystur tími líði frá því að dómur gengur þar til afplánun hefst.
b) Að láta kanna kosti og galla þess að fangar verði vistaðir innan minni eininga en áður, til dæmis með því að byggja fleiri lítil fangelsi eða deildaskipta þeim fangelsum sem fyrir eru.
c) Að ungir afbrotamenn og þeir sem eru dæmdir í fyrsta skipti verði að jafnaði ekki vistaðir með þeim sem eiga langan og/eða alvarlegan brotaferil að baki, en það er gert til að vernda þá fyrir slæmum áhrifum.
d) Að allir fangar eigi þess kost að fá fulla vinnu meðan á fangelsisdvöl stendur eða stunda fullt nám.
e) Að fangar stundi almenn heimilisstörf í meiri mæli.
f) Að vímuefnaeftirlit verði aukið í fangelsum.
g) Að allir fangar eigi greiðan aðgang að þjónustu sálfræðinga, geðlækna og fulltrúa trúfélaga. Auk þess verði gert stórátak í málefnum geðsjúkra afbrotamanna.
h) Að sérstök úrræði verði til að hjálpa föngum að koma undir sig fótunum eftir refsivist, gerist þess þörf.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand