Evrópa og hugsjónin

Hinum framsýnu leiðtogum Evrópu tókst ætlunarverk sitt; í dag er það nánast fjarstæðukennd hugmynd að Þýskalandi og Frakklandi lendi saman með vopnaskaki. Vonum að slíka leiðtoga sé enn að finna!

Allir þekkja hvernig Evrópu tókst að rífa í tætlur heimsálfuna í tveimur heimstyrjöldum á liðinni öld. Með styrjöldunum tveimur hvarf sömuleiðis yfirburðastaða Evrópu í alþjóðakerfinu. Bandaríkin stóðu uppi sem stórveldið, með höfuð og herðar yfir önnur lönd.

Seinni helmingur 20. aldar var hins vegar tímabil framsýni í Evrópu. Leiðtogum Evrópuríkja tókst að horfa framhjá skammtíma kenndum – framhjá hefndinni og niðurrifinu – og hefja vegferð evrópskrar samvinnu og samruna. Úr rústunum risu stofnanir og lagaumgjörð Evrópusamrunans, sem í dag er þekkt einu nafni sem Evrópusambandið.

Hinum framsýnu leiðtogum tókst ætlunarverk sitt; í dag er það nánast fjarstæðukennd hugmynd að Þýskalandi og Frakklandi lendi aftur saman með vopnaskaki. Hinum framsýnu stjórnmálaleiðtogum Evrópusamrunans tókst að skapa Evrópusamband sem lönd utan sambandsins vilja tengja sig við, samband sem í dag er kennt við hið mjúka vald samstarfs – ekki hervalds – og aðlaðandi kostur fyrir þær þjóðir sem utan standa, þ.m.t. fyrrum þjóðir Sovétríkjanna.

Í þeim skilningi er Evrópusamruninn saga afreka, sögulegra afreka. Þessu afreki er nú ógnað og dregið í efa.

Brimaldan há

Í maí síðastliðnum misstu markaðir trú á getu Grikkja til að standa undir skuldbindingum ríkisins og ná tökum á ríkisfjármálum. Ofurtrú liðinna ára breyttist fljótt í ægilega og yfirþyrmandi svartsýni. D-orðið var á allra vörum – var Grikkland að fara default-a, lýsa því yfir að ríkið gæti ekki greitt skuldir sínar? Hræðslan rauk þannig um allar grundir, umlék lönd eins og Spán, Portúgal og fleiri. Líkt og svo oft áður á liðnum árum – og í reynd reglulega í gegnum tíðina – fóru markaðir á límingum.

Þjóðum Evrópusambandsins tókst þó að bregaðast við. Ríkisstjórnir, Evrópski seðlabankinn og Alþjóðagjaldeyris-sjóðurinn komu á fót €700 milljarða neyðarsjóð, til þess gerður að fá markaðina til að anda rólegar, lægja öldurnar.

Þessi viðbrögð náðu að róa markaðina, en öldugangurinn hvarf ekki, ekki enn í það minnsta.

Takmörk evrópskrar samvinnu

Evrópsk samvinna innan Evrópusambandsins er í reynd mörgum hindrunum háð. Samhæfing ríkisfjármála er takmörkuð. Sjálfsmynd þjóðríkjanna er enn mun sterkari en hin evrópska sjálfsmynd og eiginhagsmunir þjóðanna skipta enn miklu, ef ekki mestu, þó ekki sé hægt að bera það saman við það sem áður var.

Stækkun Evrópusambandsins, sem nú telja 27 ríki, mun án efa hafa það í för með sér að evrópskar stofnanir munu áfram verða einstakar í sínum ranni. Viðlíka hefur aldrei sést í sögunni. Allar hugmyndir um einsleitt evrópsk ríki, að bandarískri fyrirmynd, eða ‚federalískt‘ ríkjabandalag, virðast ólíklegar, jafnvel óhugsandi miðað við fjölda og fjölbreytileika ríkjanna.

Slíkt er ekki last, fremur kostur.

Þó er það svo að lagaleg samræming hefur stóraukist og vægi Evrópudómstólsins sömuleiðis. En samþætting löggjafarsamkundna eða aukin samruni framkvæmdarvalds ríkjanna hefur ekki fylgt sömu þróun. Þó svo að þjóðir Evrópusambandsins hafi komið á fót embætti forseta og sameiginlegan talsmann í utanríkismálum, er samþætting utanríkisstefnu ríkjanna sem og varnarstefnu mjög takmörkuð.

Það hefur verið lýsandi einkenni Evrópusamrunans á liðnum áratugum, að sveiflast frá gríðarlegri bjartsýni til ýktrar svartsýni, eins og nú er raunin. Evrópusamband Lissabon-sáttmálans, sem átti að endurskapa Evrópu sem mikilvægan og áhrifamikinn leikara á alþjóðasviðinu, Virðist ekki hafa tekist. Evrópa virðist sumum eins og milli steins og sleggju, milli Bandaríkjanna og Kína.

Fjármálakreppan hefur einnig sýnt fram á veikleika evru-samstarfsins þegar kemur að samþættingu ríkisfjármála. Maastricht-reglurnar virðast ekki hafa dugað til. Þessi veikleiki hefur fengið menn til að efast um hlutverk og framtíð evrunnar og jafnvel Evrópasambandsins í heild.

Oft spáð andláti

Þó er það svo, að fjölmargar svartsýnisspár hafa í gegnum tíðina ekki reynst sannar. Á áttunda og í upphafi níunda áratugar síðustu aldar töluðu menn t.a.m. um ‚euro-sclerosis‘ og áttu þar við hinn veika hagvöxt og viðvarandi atvinnuleysi sem einkenndi mörg ríki sambandsins.

Forystumenn og leiðtogar Evrópuríkjanna litu hins vegar á slíkar spár sem hvatningu fremur en annað. Næstu tveir áratugir einkenndust þannig af hagvexti sem fór fram úr vonum jafnvel bjartsýnustu manna, sem og miklu framþróunar- og þroskaskeiði í sögu stofnana Evrópusambandsins.

Í dag er hinn sameiginlegi evrópski markaður sá stærsti í heimi, telur um 17% allra alþjóðaviðskipta samanborið við um 12% viðskipta á hinum bandaríska. Evrópusambandið veitir einnig um helming allrar þróunaraðstoðar í heiminum, samanborið við um fimmtung sem Bandaríkin veita í aðstoð.

Framsýni og ábyrgð, takk!

Það er nokkuð ljóst mikil vandræði steðja að Evrópusambandinu vegna ólgu á fjármálamörkuðum heimsins. Það þýðir ekkert að fara í neina útúrsnúninga með það. Takist ekki að leysa þann vanda og endurheimta traustið sem hvarf, þá getur vel verið að Evrópusamstarfið taki stefnu sem erfitt er að sjá fyrir sér nú. Við, sem trúum á Evrópusambandið, sem trúum á þann sem heim sem Evrópuhugsjónin boðar, vonum auðvitað að þennan vanda takist að leysa. Enda er Evrópusambandið í grunninn lausnamiðað apparat.

Evrópusamstarfið hefur séð það svart áður, þó segja megi að ekki hafi sortinn verið jafn mikill og nú. Það er mín einlæga von að leiðtogar Evrópu haldi áfram að horfa á sameiginleg vandamál sem hvatningu fremur en annað, á þær hindranir sem í vegi standa sem sameiginlegar hindranir sem sameiginlega þurfi að yfirstíga.

Örlög okkar og framtíð hafa varla nokkurn tíma í mannkynssögunni verið jafn samtvinnuð. Þess vegna þurfum við á framsýnum leiðtogum að halda, e.t.v. núna meira en nokkru sinni áður. Það á alveg jafn mikið við í Evrópu og hér á Íslandi.

Við skulum öll vona að þeir standi undir nafni!

Grein þessi er byggð á grein Joseph S. Nye, The Future of Europe, sem finna má hér.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand