Sá harmleikur sem yfir Íslendinga gekk fyrir hartnær tveimur árum er fólki enn ferkst í minni. Eðlilega. Margir hverjir horfa á niðurstöður nýliðinna sveitastjórnakosninga og draga einmitt þá ályktun að hér sé um að ræða eftirköst þessa harmleiks. Fólk hafi misst trúnna á stjórnmálastéttinni, misst trúnna á þeim sem er treyst fyrir stjórnartaumunum. Vill eitthvað nýtt.
Þett er svo sannarlega skiljanlegt. Sumir hafa talað um siðrof, aðrir um spillingu. Sumir hafa reynt að beina sjónum sínum að þeim aðilum sem hvað valdamestir voru í íslensku atvinnulífi, aðrir hafa reynt að beina sjónum fólks að því hugarfari sem var ríkjandi á Íslandi í kjölfar hugmyndabyltingar; einkavæðing og frjálshyggja hafi hér tekið völdin.
Hinir bjartsýnu horfa hins vegar fram á veginn og segja Hrunið hafa verið það besta sem fyrir þjóðina gat komið. Augu fólks hafi opnast, lágdeyðan horfið og gagnrýnin hugsun nú hafin.
Ákall almennings er uppgjör við fortíðina. Það eitt er víst.
En þurfum við ekki að óttast nútímann?
En hversu langt á að ganga í að gera upp fortíðina? Eða frekar, erum við e.t.v. að einblína um of á fortíðina, erum við að reyna að gera hana upp í of miklu flýti til að svara ákalli almennings?
Það er þekkt hvernig fjármálakrísan í Rússlandi á tíunda áratugnum ól af sér eintóma spillingu innan viðskiptalífsins. Upplausnin sem fylgdi var gríðarleg gróðrarstía hins svarta hagkerfis, kerfis sem var stýrt af þeim sem voru í aðstöðu til að nýta sér.
Er Ísland eitthvað frábrugðið?
Siðferði þensluáranna var svo sannarlega meingallað. Hér voru bankarnir notaðir sem sparigrísir fyrir nokkra útvalda sem gátu í krafti eignarhalds síns á bönkunum kríað út, að því er virðist, endalaust af lánum.
Í dag viljum við trúa því að siðferðið sé breytt; banksterarnir voru gripnir í bólinu þegar allt hrundi. Þeirra tími er liðinn.
Ég óttast þó að siðferði viðskiptalífsins sé í molum, sé langtum verra en fyrir hrun. Í það minnsta virðast allar forsendur vera til staðar, miðað við umfang.
Í dag eru um 40% heimila og fyrirtækja í skuldavanda. Bankarnir spila þar gríðarlega mikilvæga rullu við að endurskipuleggja þessar skuldir, koma hlutunum aftur á lífvænlegan grunn. Á sama tíma eiga eftirlitsaðilar nú fullt í fangi með að rannsaka allt sem tengist fortíðinni.
Þurfum við ekki að óttast þessa skörun? Skýtur það ekki skökku við að helsta hlutverk eftirlitsaðila virðist vera að gera upp fortíðina? Erum við að gleyma nútímanum? Þessi endurskipulagning er það gríðarleg að það er eins gott að þeir sem eiga að fylgjast með, geri það með óskiptri athygli.
Er þörf á sérstakri, tímabundinni stofnun?
Ég vil leyfa mér að velta upp þeirri hugmynd hvort að ekki sé rétt að setja hér á fót sérstaka tímabundna stofnun, sem taki við mörgum þeim verkefnum sem nú hvíla t.a.m. á herðum Fjármálaeftirlitsins og snúa að fortíðinni.
Slík tímabundin stofnun gæfi FME það svigrúm sem það þarf til að einbeita sér að því gríðarmikla verkefni sem við blasir; að hafa eftirlit með því sem er að gerast núna í íslensku atvinnulífi og þeirri gríðarlegu endurskipulagningu sem þar er að eiga sér stað.
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis mun án efa verða grundvöllur margra fræðirita á komandi árum. Að því leytinu til er fortíðin ekki að fara neitt, hún hefur verið skrásett að miklum hluta og mun sú vinna halda áfram um ókomna tíð.
Það er nútíminn sem við eigum að óttast.