Niðurstaða þingkosninga í Hollandi

Það verður fróðlegt að sjá hvenrig fer með stjórnarmyndun í Hollandi og línur taka að skýrast með hverjir viðsemjendur okkar verða í Icesave-deilunni.

Úrslit þingkosninga í Hollandi liggja fyrir. Frjálslyndi flokkurinn, VVD, sem er hægri flokkur, hlaut flest þingsæti þó stutt sé á milli þeirra og sósíal-demókrata, PvdA. Frjálslyndir hlutu 31 þingsæti af 150 á meðan sósíal-demókratar fengu 30 sæti. Skoðanakannanir höfðu gefið til kynna að munurinn yrði mun meiri milli þessara tveggja flokka.

Fyrir Frjálslynda er þó mjög mikilvægt að hafa ná því að verða stærsti flokkurinn á hollenska þinginu. Þeir fá nú tækifæri til að reyna mynda ríkisstjórn og munu leggja til forsætisráðherra ef það tekst.

Hinn hefðbundni valdaflokkur Hollands, CDA, sem er miðjusækinn kristilegur-demókrataflokkur, beið afhroð. Flokkurinn missti 20 sæti af 41. Leiðtogi flokksins og forsætisráðherra Hollands til 8 ára, Jan Peter Balkenende, hefur sagt af sér í ljósi úrslitanna.

Það sem kemur kannski mest á óvart við þessi úrslit er að Frelsisflokkur Geert Wilders, PW, sem löngum hefur barist gegn innflytjendum og þá einna helst múslimum, jók stórlega við sitt fylgi og er nú orðinn þriðji stærsti flokkur Hollands með 24 þingmenn. Fyrir hafði Frelsisflokkurinn einungis 9 þingmenn.

Þessi úrslit flokksins voru þvert á það sem skoðanakannanir höfðu spáð fyrir um fylgi þeirra. Hefur hinum svokölluðu Bradley áhrifum verið kennt um, en Bradley áhrifin er það kallað þegar kjósendur kjósa öðruvísi þegar komið er inn í kjörklefann heldur en þeir hafa gefið upp opinberlega.

Eitt er þó ljóst eftir úrslit kosninganna og það er að myndun ríkisstjórnar verður ekki auðveld. Flokksmenn Frjálslyndra vilja annaðhvort mynda samsteypustjórn með kristilegum demókrötum og sósíal-demókrötum, eða með kristilegum-demókrötum og Frelsisflokknum.

Að sama skapi er líklegt að samsteypustjórn með Frelsisflokknum verði ótrygg enda flokkurinn frekar óskrifað blað. Erfitt er að sjá hvaða mannskap Wilders tæki með sér. Þetta er e.t.v. hefðbundinn vandi flokka sem verða stórir á svo skömmum tíma.

Þetta gæti jafnframt haft þær afleiðingar að kristilegir-demókratar hiki við að hoppa upp í sæng með Frjálslyndum og Frelsisflokknum, endi yrði flokkurinn minnsti flokkurinn innan stjórnarinnar. Þeir gætu því talið það taktískt betra fyrir sig að sitja hjá, fara ekki í meirihlutasamstarf í þeirri von að þeir komi frekar sterkari til baka í næstu þingkosningum með því að sitja utan stjórnar. Það var einmitt sú leið sem þeir völdu þegar þeir töpuðu stórt árið 1994.

Sósíal-demókratar hafa nú þegar gefið það út að þeir útiloki stjórnarsamstarf með Frelsisflokknum. Draumastjórn þeirra er svokölluð „fjólublá stjórn,“ með Frjálslyndum, D’66 (sem er miðjusækinn, frjálslyndur flokkur) og Græningjum.

Sú stjórn verður hins vegar seint talinn ákjósanlegur kostur fyrir Frjálslynda, þar sem þeir myndu þurfa deila völdum með flokkum sem hafa talað fyrir vinstrisinnaðri efnahagsstefnu, á meðan þeir hafa lagt áherslu á hægrisinnaðar umbætur í efnahagsmálum í kosningabaráttunni.

Eins og segir munu Frjálslyndir hafa frumkvæði að meirihlutamyndun og miðað við það mikla fylgi sem Frelsisflokkurinn hlaut þá er líklegt að þeir reyni í það minnsta að ná saman með þeim. Það mun þýða að kristilegir-demókratar verða í oddastöðu, fari svo að þessir þrír flokkar reyni að mynda stjórn.

Það verður því fróðlegt að fylgjast með hvernig stjórnarmyndun fer í Hollandi og línur taka að skýrast með hverjir viðsemjendur okkar verða í Icesave-deilunni.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand