Erum við vondu karlarnir?

Ég er heppinn ungur maður. Ég hef eins og flestir aðrir Íslendingar alist upp í allsnægtum. Mig hefur aldrei skort vatn, mat eða skjól og fjölskylda mín hefur ávallt verið til staðar fyrir mig. Ég hef, án endurgjalds, getað fengið þá menntun mig lysti í og ég hef ætíð getað leitað læknis án þess að þurfa að fórna til þess neinum öðrum gæðum. Ég er heppinn ungur maður.

Ég hef eins og flestir aðrir Íslendingar alist upp í allsnægtum. Mig hefur aldrei skort vatn, mat eða skjól og fjölskylda mín hefur ávallt verið til staðar fyrir mig. Ég hef, án endurgjalds, getað fengið þá menntun mig lysti í og ég hef ætíð getað leitað læknis án þess að þurfa að fórna til þess neinum öðrum gæðum.
Mér skilst að í samanburði við 75% jarðarbúa þá hafi ég fæðst í þakíbúð heimsins með silfurskeið í munni. Skeið sem í þokkabót var full af hunangi.

Ég hef aldrei þurft að þola hörmungar stríðs, hungurs eða kúgunar. Mér hefur ekki verið nauðgað, ég seldur eða hlunnfarinn á nokkurn hátt. Ég hef ekki verið pyntaður eða fangelsaður vegna skoðanna minna. Þessu er ég feginn og mér finnst í alvöru sárt að horfa upp á hlutskipti ýmissa síður lánsamra bræðra minna í fjarlægum löndum.

Ég á vandamál eins og blettinn fyrir ofan rassinn sem verður ekki brúnn í ljósum
Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá verð ég að viðurkenna að ég á mjög erfitt með að setja mig í spor þessa fólks sem mænir á mig af sjónvarpsskjánum og blaðaljósmyndum. Þetta er fjarlægur veruleiki fyrir mig sem er að reyna að ákveða hvort ég eigi að fara út á línuskauta eða taka spólu. Ég er dofinn. Ég vill gjarnan gera eitthvað en hvað get ég gert? Ekki er það mér að kenna að ég á svona gott? Ég vildi feginn að líf mitt hefði meiri tilgang.

Það er ljótt að segja þetta en ég hef m.a.s. í laumi öfundað minnihlutahópa eins og samkynhneigða af því að þurfa að berjast gegn miklu mótlæti fyrir sjálfsögðum réttindum sínum. Hef kannski ekki óskað þess að ég væri sjálfur hommi eða lesbía en þau vita þó hvernig það er að hafa göfugan málstað að berjast fyrir. Líf þeirra mótast af þessari baráttu og þau hljóta að öðlast sterka réttlætiskennd.

X-kynslóðin fékk alla frægðina
Ekki ég. Ég er af vídeó-kynslóðinni. Ég hafði ekkert Víetnam stríð til að berjast gegn. Tilraunir mínar til að gerast kommúnisti runnu út í sandinn með Glasnost og Perestroiku. Það var enginn Hitler eða Stalín fyrir okkar kynslóð að sameinast gegn, Mandela eða Havel til að frelsa. Þetta var allt búið þegar ég komst loks til vits og ára. Vondu karlarnir sem eftir voru réðu ríkjum í löndum sem voru of fjarlæg til að snerta okkur. Vondu karlarnir í okkar heimshluta virtust hafa horfið af sjónarsviðinu. Eða hvað? Komum að því síðar.

Ég hélt áfram að horfa á sjónvarpið. Foreldrar mínir voru af hippakynslóðinni og höfðu meðan þau gátu reynt að halda glápi mínu í lágmarki. En ég bætti það upp síðar og nú er svo komið að ég hef séð flestar myndir sem vert er að nefna og komið hafa út á síðustu 10-15 árum. Þá er eftir að nefna alla sjónvarpsþættina.

Ég viðurkenni fúslega að þetta efni, sem mest allt er framleitt í Bandaríkjunum, er uppistaðan í þekkingu minni á því hvernig heimurinn virkar, hvað er rétt og hvað rangt og hverjir eru vondir og hverjir góðir. Öll réttardrama-in, lögguþættirnir, stríðsmyndirnar. Í þeim hef ég orðið mér úti um þá litlu réttlætiskennd sem ég bý þó yfir.

Nóg komið um mig
Og væri þetta allt kannski ekki í frásögur færandi nema vegna þess að þessi fyrrnefnda bíó-réttlætiskennd mín bærði á sér um daginn meðan ég var að horfa á kvöldfréttirnar. Eitthvað var ekki eins og það átti að vera.

Í fréttum kl.8 er þetta helst
Fyrst var það frétt um að friðsamir mótmælendur hefðu verið fjarlægðir af lögreglu á Austurvelli af því að henni fannst þeir ekki eiga heima þarna. „Hmmmm“, hugsaði ég. „Julia Roberts og Brad Pitt myndu leika mótmælendurna og Geir Jón, yfirlögregluþjónn, yrði leikinn af Gary Oldman.“

Næst var það frétt um „Frelsun Íraks“ þar sem hinir frelsuðu Írakar voru komnir í skæruliðastríð gegn setuliði Bandaríkjanna. Aftur „hmmmm“ og ég hugsaði með mér: „Myndi Mel Gibson ekki leika einn af skæruliðunum ef þetta væri stórmynd sumarsins? Og myndu þeir ekki fá einhvern breskan leikara til að leika landstjóra nýlenduherranna Bandaríkjamanna? Svona upp á illsku-hreiminn?“

Afhverju er enginn að tala um þetta?
Undir lok fréttatímans voru svo sýndar myndir frá herstöð Bandaríkjanna í Guantanamo flóa á Kúbú þar sem fangar frá Afganistan eru geymdir hlekkjaðir í búrum með hauspoka allt niður í 13 ára gamlir. Þeir verða ekki dæmdir í dómsölunum sem ég þekki svo vel úr „Law & order“ og „Matlock“. Ríkisstjórn Bush vill ekki taka sénsinn á að veita þeim aðgang að neinni slíkri lagavernd. Þessa sveitastráka úr fjöllum Afganistan á að dæma í herrétti og svo jafnvel taka af lífi í dauðaklefa sem verið er að byggja samkvæmt fréttinni.

Nú var ég alveg viss um að þetta væri e-ð öfugsnúið. Ef þetta væri bíómynd þá væri ekki spurning um hverjir væru góðir og hverjir vondir. „Denzel Washington myndi leika réttláta lögfræðinginn sem er óþreytandi í baráttu sinni fyrir að fá lögsögu yfir föngunum og bjarga lífi þeirra. Tom Hanks yrði í hlutverki fangavarðarins sem þykir vænt um 13 ára strákinn og er farinn að efast um réttmæti hinnar ómannúðlegu meðferðar á föngunum og fangabúðarstjórinn yrði Donald Sutherland, ískaldur í illsku sinni.“

Í c.a hálfa mínútu var ég tilbúinn í að gera allt!
Í eitt augnablik þyrmdi yfir mig alls kyns hugsunum. Er þetta ekki mín ríkisstjórn sem á hlut að öllum þessum aðgerðum? Rámar mig ekki í að þessi sama ríkisstjórn hafi sett hugleiðsluhópinn Falun Gong, kúgaðan af Kínverjum, í fangabúðir í grunnskóla á Suðurnesjum í fyrra? Ég velti þvi fyrir mér hvort við Íslendingar værum ekki lengur góðu karlarnir. Erum við kannski ekki í góða liðinu núna? Er bíómynda-réttlætishvötin mín að sýna mér sannleikann? Erum það við sem erum vondu karlarnir?

Ég klóraði mér í kollinum stöku stund en rölti svo út á leigu og valdi mér spólu.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið