,,Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins hefur ítrekað opinberað sína skoðun á jafnréttismálum. Ummæli á borð við þau að ekki sé alltaf hægt að fara með sætustu stelpunni heim af ballinu eru öllum kunn og sömuleiðis niðurstaða hans um að þá verði bara að grípa í eitthvað annað sem geti gert sama gagn. Þegar að þingkona Samfylkingarinnar gagnrýndi Geir fyrir það hversu fáar konur voru í nefndum á vegum ráðuneytis hans sagði hann málefnið ,,gervimál”. Enn alvarlegri voru ummæli hans í kjölfar Byrgismálsins þar sem Geir sagði að ekki væri hægt að útiloka að konurnar í Byrginu hefðu ekki hvort sem er orðið óléttar.“ Segja Eva Kamilla Einarsdóttir, Gígja Heiðarsdóttir og Guðlaug Finnsdóttir í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
Það vill gleymast í aðdraganda kosninga þegar flokkarnir draga fram stefnumál sín að kosningarnar snúast auðvitað að miklu leyti um fyrri verk stjórnvalda og hvort að almenningur í landinu vill meira af því sama eða hvort að tími sé kominn til að gefa öðrum tækifæri.
Ríkisstjórn sem er stolt af verkum sínum ætti að leggja áherslu á það að koma fyrri afrekum sínum til skila. Sjálfstæðisflokkurinn breytir hins vegar algjörlega um ham þegar kemur að kosningum. Þá verður hann að félagshyggjuflokki og segist þá ýmist hægri grænn eða bleikur, eftir því við hvern er rætt. Blái liturinn hverfur þá um stund.
Kannanir hafa sýnt að konur kjósa síður Sjálfstæðisflokkinn en karlar. Fyrir því eru gildar ástæður. Konur kjósa margar hverjar út frá velferðarmálum og þar eru flestir kostir betri en Sjálfstæðisflokkurinn einfaldlega vegna þess að velferðarmál eru aukaatriði en ekki aðalatriði í hægristefnunni.
Fátækum börnum afneitað
Jafnréttismálin eru konum eðlilega ofarlega í huga. Enn er það þannig að kynbundinn launamunur er staðreynd og það er sömuleiðis staðeynd að í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur hann ekkert minnkað. Ungt fjölskyldufólk og ekki síst ungar konur glíma við það vandasama hlutverk að samræma vinnu og fjölskyldu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lítið gert til að koma til móts við þessar aðstæður. Og Sjálfstæðisflokkurinn er ekki aðeins seinn til bregðast við þeirri ömurlegu þróun að fátækum íslenskum börnum fjölgar stöðugt, heldur kýs hann að taka alls ekki á vandanum og afneitar honum algjörlega. Þannig myndi velferðarflokkur ekki haga sér.
Sætasta stelpan á ballinu
Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins hefur ítrekað opinberað sína skoðun á jafnréttismálum. Ummæli á borð við þau að ekki sé alltaf hægt að fara með sætustu stelpunni heim af ballinu eru öllum kunn og sömuleiðis niðurstaða hans um að þá verði bara að grípa í eitthvað annað sem geti gert sama gagn. Þegar að þingkona Samfylkingarinnar gagnrýndi Geir fyrir það hversu fáar konur voru í nefndum á vegum ráðuneytis hans sagði hann málefnið ,,gervimál”. Enn alvarlegri voru ummæli hans í kjölfar Byrgismálsins þar sem Geir sagði að ekki væri hægt að útiloka að konurnar í Byrginu hefðu ekki hvort sem er orðið óléttar.
Jafnréttislög barn síns tíma
Aðrir ráðherrar Sjálstæðisflokksins hafa sýnt hug sinn til jafnréttislaga í verki, því ekki aðeins voru jafnréttislög brotin þegar að skipað var í dómaraembætti í Hæstarétti, heldur bætti Björn Bjarnason dómsmálaráðherra um betur með því að fullyrða að jafnréttislögin væru barn síns tíma. Eftir að mesta fárið vegna þessara ummæla var gengið yfir var komið að Geir Haarde sem taldi tímabært að skipa mætan flokksfélaga í Hæstarétt og valdi þá Jón Steinar Gunnlaugsson.
Það er ekki því trúverðugt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að setja nú upp jafnréttislúkkið og fara í félagshyggjukápuna. Eftirlíkingar eru aldrei eins góðar og fyrirmyndin. Og Geir gerir einfaldlega lítið gagn í jafnréttismálum.
_____
Eva Kamilla Einarsdóttir situr í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar og skipar 15. sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður, Gígja Heiðarsdóttir situr í framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna og Guðlaug Finnsdóttir á sæti í stjórn Ungra jafnaðarmanna á Suðurnesjum og skipar 9. sæti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.