Sama hvað svarið við spurningunni er, þá eru kosningar 29. maí og þú þarft að kjósa!
Kosningar eru stærsta vopn bæjarbúa og kosningarnar 29. maí eru án efa þær mikilvægustu í Hafnarfirði í langan tíma. Kosningar snúast nefnilega um stefnumótun. Í hvað peningarnir eiga að fara.
Það hefur ekki farið fram hjá neinum (ekki þér heldur) að það bókstaflega hrundi allt árið 2008 sem tengdist fjármálum. Það hafði auðvitað áhrif á Hafnarfjörð, bæði sveitarfélagið og bæjarbúa. Það er enn frekari ástæða fyrir því að þú þurfir að mæta á kjörstað og kjósa, því það þarf að tryggja að peningarnar sem eru eftir, fari á rétta staði.
Það þarf að tryggja að peningarnir fari í að sjá til þess að ungt fólk fái atvinnu, að allt ungt fólk fái tækifæri til menntunar og að halda áfram uppbyggingu á allskyns æskulýðsstarfi fyrir ungt fólk. Jafnaðar- og félagshyggjuflokkurinn Samfylkingin, sem hefur verið í forustu síðustu tvö kjörtímabil, er akkurat að pæla í þessum hlutum. Það var t.d. Samfylkingin sem tryggði að allt ungt fólk í Hafnarfirði fær vinnu í sumar. Þessvegna þarft þú að tryggja félagshyggjunni áframhaldandi forustu.
Félagshyggjan snýst nefnilega um að búa til samfélag fyrir fólk. Samfélag sem á að vera tilbúið til að takast á við öll vandamál sem koma upp. Íbúar samfélagsins eiga að geta treyst á sveitarfélagið sitt. Sama hvað íbúarnir eru gamlir.
Greinin er ritstjórnarpistill í nýjasta tölublaði MÍR (gefið út af Ungum jafnaðarmönnum í Hafnarfirði)