(trúar) Játning

Ég á eldheita hugsjón, (hugsanlega) huglausan flokk og forboðna drauma um að kjósa Besta flokkinn. Hvað á ég að gera?

Ég á eldheita hugsjón, (hugsanlega) huglausan flokk og forboðna drauma um að kjósa Besta flokkinn. Hvað á ég að gera?

Fyrst að hugsjóninni.

Hún hverfist í kringum þá hugmynd og lífsskilning að samfélagið sé ekki myndað af eignum heldur menningu, ekki auði heldur mannauði. Þessi hugsjón myndar samfélag sem veitir frelsi til að þroskast og framtíð til að þrífast, óháð hæfileikum til spákaupmennsku.
Þessi hugsjón lastar afskiptaleysi græðginnar og lofar velferð náungans.

Þá að flokknum.

Flokkurinn minn er huglaus ef hann sleppir því að gera upp góðærissyndirnar og sýna þeim fulltrúum sínum, sem brugðust kröfum kjósenda, nauðsynlegan aga og umvöndun. Hann er skræfa ef hann heldur að umbætur og málamiðlanir séu betri en hreinskiptið uppgjör og þá í kjölfarið ferskt upphaf. Hann er grunlaus ef hann heldur að traust og trúnaður skili sér til baka án þessa að bera sig auðmjúkt eftir því. Hann er einfaldur ef hann grunar að Búsáhaldabyltingin hafi bara verið trommuflipp til að tjónka við Sjálfstæðisflokknum. Hann eltir villuljós ef hann er sannfærður um að þessi leiðari sé tjón í kosningabaráttunni.

En hvað? Erum við í alvöru svo rúin trausti að Besti Flokkurinn stendur undir nafni? Erum við ef til vill ekki lengur einu sinni skásti kosturinn? Er sýningin í alvöru svo kolfallinn að við erum tilbúin að senda trúðana inn á svið?

Í fjögur ár?

Nei.

Rétt eins og borgin þarf ekki á að halda fjórum borgastjórum yfir eitt kjörtímabil þarf hún ekki ísbirni, frí handklæði og áframhaldandi spillingu fyrir opnum tjöldum. Bara alls ekki.

Borgin þarf öðru fremur lausnir á vandamálum dagsins, framkvæmdar af heiðarlegum stjórnmálamönnum í breiðu umboði borgarbúa. Á borði bráttkomandi borgarstjóra liggur þykkur verkefnabunki og sægur af mikilvægum málum sem bíða úrlausna. Hér þarf að tryggja grunnþjónustu, efla atvinnusköpun, treysta menntun og og ráðast í mannaflsfrekar framkvæmdir. Það sem ef til vill er mikilvægast: hér þarf að forgangsraða og þá skiptir velferð og vinna öllu máli.

Og þrátt fyrir allt…

…þá snúast komandi kosningar um fyrrgreind mál sem og mál málanna, hver sé traustsins verður. Samfylkingin þekkir flokka best réttlátar lausnir á öllum þessum verkefnum. Núna verður hún, í orði og á borði, með ráðum og með dáðum að sanna að hún sé traustsins verð.

Ég ætla að enda leiðarann á mínu dýrasta orði. Ég trúi því að hún geri það.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand